Kannski ríkisstjórnin ætti að funda við Öskju eða í Þjórsárverum?

Fyrir skömmu fékk ég bréf frá kunningja mínum. Hann hafði verið í fjallgöngu. Og þar sem hann stóð í hlíðum Skjaldbreiðar og virti fyrir sér umhverfi sitt, Hlöðufell, Fanntófell, hinn horfna Ok-jökul, sem nú er kominn í heimspressuna, Þórisjökul í Langjökli og svarta sanda, fékk hann innblástur. Hann fann hjá sér þörf fyrir að taka þátt í baráttunni gegn þriðja orkupakkanum og hefur gert það með myndarbrag.

Þessa tilfinningu skildi gamall fjósamaður úr Flókadal, sem sá þessa sýn úr meiri fjarlægð, þegar gengið var til mjalta snemma að morgni, dag hvern í fimm sumur. Í góðu skyggni mátti jafnvel sjá Hlöðufell, sem fékk á sig ævintýrablæ þegar til þess var horft frá fjósinu. Svo kom að því að gengið var bæði á Fanntófell og Skjaldbreið og tengslin við þennan stórbrotna landshluta, sem höfðu orðið til úr töluverðri fjarlægð í æsku, urðu enn nánari.

Það er þessi innblástur, sem mikill fjöldi fólks hefur fengið frá landinu sjálfu, sem hefur ráðið för í baráttunni gegn þriðja orkupakkanum. Hann á ekkert skylt við „einangrunarhyggju“, „þjóðrembu“ eða andstöðu við EES-samninginn.

Ríkisstjórnir hafa stundum haldið fundi annars staðar á landinu en í Reykjavík. Kannski núverandi ríkisstjórn ætti að halda fund á mið-hálendi Íslands, t.d. við Öskju eða í Þjórárverum, til þess að komast í rétt hugarástand, áður en hún gengur til þess verks, sem hún stefnir að snemma í haust á Alþingi. Það er aldrei að vita nema landið sjálft geti haft meiri áhrif á hana en andmæli þeirra, sem hafa kosið ráðherrana á þing.

En sá innblástur sem landið sjálft veitir í þessu máli er jafnframt ástæðan fyrir því, að þingmenn og ráðherrar eiga svo erfitt með að fást við þessa andstöðu, alla vega í stjórnarflokkunum. Hér er ekki um að ræða baráttu, sem háð er af einhverjum sérhagsmunaástæðum, heldur mun stærri hagsmunum, sem snúa að framtíð þjóðarinnar í þessu landi.

Það eru til „kerfi“, sem eru jafnvel enn þröngsýnni en opinbera kerfið og er þá mikið sagt. Þetta eru hin innri kerfi stjórnmálaflokkanna sjálfra. Viðbrögð þessara lokuðu kerfa flokkanna eru stundum svo fáránleg að það liggur við að þau séu hlægileg. Þó að það sé að vísu ekkert hlægilegt við það, hvernig flokkar, sem kenna sig við lýðræði og segjast berjast fyrir lýðræði og tjáningarfrelsi, hafa stundum tilhneigingu til að breytast í einhver fyrirbæri, sem þola hvorki lýðræði né tjáningarfrelsi að ekki sé talað um frjáls skoðanaskipti.

Valdaskipti í lýðræðislegum samfélögum eru mikilvæg m.a. til að minna þá, sem lengi hafa farið með völd í umboði almennra borgara, á, að þeir eru ekki einir í heiminum og að það er til æðra vald en þeir sjálfir, sem er sameiginleg niðurstaða meirihluta kjósenda. Á þetta hafa valdamenn stundum verið minntir með óþyrmilegum hætti.

Þessi veruleiki á líka við innan flokkanna sjálfra. Þar verða reglulega breytingar á forystu, sem er mikilvægt, svo að forystur flokka verði ekki eins og heimaríkir hundar. Og raunar margt sem mælir með að setja ákveðin tímamörk á setu í æðstu embættum, eins og t.d. var gert í Alþýðubandalaginu í gamla daga.

Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með því samstarfi, sem farið hefur fram innan Orkunnar okkar, þverpólitískra samtaka, þar sem saman koma einstaklingar úr nánast öllum flokkum vegna sameiginlegrar sýnar á tiltekið mál, í sjálfu sér með svipuðum hætti og gerzt hefur innan Heimssýnar. Innan hvorra tveggja samtaka er um að ræða samstarf á milli einstaklinga, sem stóðu áratugum saman í hörðum átökum vegna kalda stríðsins en hafa fundið sér sameiginlegt baráttumál, þegar kemur að málum, sem varða fullveldi Íslands.

Það samstarf hefur sýnt að fólk með mjög ólík viðhorf til þjóðfélagsmála getur unnið vel saman að málum, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.

En um leið ætti það að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir stjórnmálaflokkana, hvað mörg af helztu baráttumálum samtímans hafa fundið sér farveg utan vébanda þeirra sjálfra. Getur verið að í því felist vísbending um að þeir skipti minna máli í lýðræðislegum skoðanaskiptum innan samfélaga en áður var?

Kjarni málsins er þó sá, að umræðurnar um orkupakkann sýna, að umboðinu, sem kjörnir fulltrúar hafa frá kjósendum, eru takmörk sett. Þeir sjálfir verða að átta sig á hvar þau mörk liggja og að það getur haft pólitískar afleiðingar fyrir þá sjálfa, ef þeir virða þau ekki.

Hin pólitíska barátta fer ekki bara fram á milli flokka. Í auknum mæli tekur fólk höndum saman í baráttu fyrir ákveðnum málefnum og sú barátta fer fram utan flokkanna en ekki innan. Það dregur augljóslega úr vægi þeirra og ætti að vera forystusveitum þeirra nokkurt umhugsunarefni.

Skýrt dæmi um þetta er að kornung stúlka, hin sænska Greta Thunberg, hefur orðið heimskunn á ótrúlega skömmum tíma vegna baráttu sinnar fyrir því að heimsbyggðin bregðist við vegna áhrifa loftslagsbreytinga á jörðina.

Þessar vangaveltur eru til orðnar vegna umhugsunar um, hvort orkupakkamálið sé vísbending um að stjórnmálabaráttan hér sé að taka breytingum, sem muni hafa áhrif til lengri tíma. Hún sé ekki lengur nema að takmörkuðu leyti barátta á milli flokka heldur um málefni, sem fólk úr mörgum flokkum sameinast um sín í milli.

Getur það verið?

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is