Arnar Þór Jónsson
Arnar Þór Jónsson
Eftir Arnar Þór Jónsson: "Allan vafa í þessum efnum ber þingmönnum að skýra íslenskri þjóð í vil, en ekki O3 eða ESB."

Í aðsendri grein sem ber heitið „Dómarinn og þriðji orkupakkinn“ og birt var í Morgunblaðinu 1. ágúst sl. gerir Skúli Jóhannsson verkfræðingur persónu mína að umtalsefni og gerir sérstaka athugasemd við það, út frá almennum vanhæfissjónarmiðum, að ég hafi tjáð mig um innleiðingu þriðja orkupakka ESB (O3) í íslenskan rétt.

Að öðru leyti fjallar grein Skúla um „tæknileg rök“ fyrir því að innleiða beri O3. Í niðurstöðum hans koma fram áhyggjur af því að Íslendingar muni þurfa að þróa nýtt fyrirkomulag viðskipta með rafmagn verði O3 hafnað. Um þetta má nánar lesa niðurstöðukaflann í grein hans þar sem segir m.a. að með því að „afneita“ O3 „værum við að feta inn á nýjar brautir sem ég efa að sé tímabært, en innviðir okkar eru ekki nógu vel undirbúnir [...] Eins og staðan er í dag tel ég að forsendur séu ekki fyrir því að við ættum að þróa og gangsetja séríslenskt og heimasmíðað viðskiptakerfi með raforku. Væntanlegir viðskiptavinir okkar þyrftu þá að læra inn á nýjar brautir í skipulagi raforkukerfa, og hvaða stórfyrirtæki erlendis mundi nenna að eltast við það?“

Kvöldgangan

Við lestur greinarinnar var ég rækilega minntur á tilefni þess að ég blandaði mér í umræðu um O3. Það gerði ég eftir að hafa heyrt forsætisráðherra tjá sig um fyrirvara stjórnvalda vegna O3 í fréttaviðtali 27. maí sl. Við hjónin vorum á leið í kvöldgöngu í vorveðrinu og ég skrifaði 10 línur um málið meðan konan mín reimaði á sig skóna. Daginn eftir voru ábendingar mínar um þýðingarleysi meintra fyrirvara stjórnvalda orðnar að fréttaefni.

Viðbrögðin við færslu minni komu mér óneitanlega á óvart. Þessi stutta færsla skilaði þó e.t.v. þeim árangri að talsmenn O3 eru hættir að halda því hæpna sjónarmiði á lofti að einhliða fyrirvarar íslenskra stjórnvalda muni hafa nokkra lagalega þýðingu komi til þess að fjárfestar vilji leggja sæstreng á milli Íslands og Evrópu.

Í staðinn hafa ýmis ný og jafnvel frumleg sjónarmið verið sett fram, svo sem gert er í áðurnefndri grein Skúla Jóhannssonar, eða með því að halda því fram að nauðvörn, byggð á ákvæðum Hafréttarsáttmálans, muni bjarga ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga úr heimatilbúinni og mjög vandræðalegri stöðu þegar búið verður að stefna íslenska ríkinu í samningsbrota- og síðan skaðabótamálum.

Um þessi nýju sjónarmið þarf auðvitað að fjalla og þótt ég telji að þau fái ekki staðist vil ég hvetja til ítarlegrar, málefnalegrar og vandaðrar umræðu um O3, enda snertir málið mikla þjóðarhagsmuni.

Ákvæði stjórnarskrár um tjáningarfrelsi eru dómurum mjög vel kunn. Ástæða er til að undirstrika að samkvæmt meginreglunni njóta dómarar málfrelsis rétt eins og aðrir borgarar þessa lands. Mér er umhugað um að við sem samfélag höldum vel utan um fólk, auðlindir þjóðarinnar og framtíð hennar. Slíka hagsmuni er borgaraleg skylda að verja þegar þörf krefur.

Lögin þjóna göfugum tilgangi

Meðan samfélög okkar vilja kenna sig við lýðræði og almenn mannréttindi ber að halda þeirri áminningu hátt á lofti að göfugasta hlutverk laga er ekki að skerða frelsi manna, heldur að verja það. Þessi áminning er sérstaklega brýn á tímum eins og þeim sem við nú lifum, þar sem stöðugt er þrengt að valfrelsi bæði manna og þjóða með regluverki sem verður tæknilegra og þéttara með hverju árinu sem líður.

Ég lít á það sem ógn við borgarlegt frelsi og sem háskalega uppgjöf gagnvart lögunum sem valdbeitingartóli þegar jafnvel lögfræðingar hætta að hreyfa andmælum á þeim forsendum að ákvarðanir um innleiðingu erlendra reglna hafi „þegar verið teknar“ og að okkur beri „að ganga frá þeim formlega“ ef við viljum áfram vera aðilar að EES. Slíkt hugarfar, sem í viljalausri þjónkun kýs að játast undir óbeislaða útþenslu setts réttar, grefur undan tilverurétti laganna sjálfra því að lokum verður ekkert frelsi eftir til að verja. Á þetta hef ég áður bent, en endurtek það nú til áminningar um þá staðreynd að menn glata ekki mannréttindum við það að hljóta skipun í dómaraembætti. Þvert á móti eru ríkir samfélagslegir hagsmunir við það bundnir að dómarar taki ábyrgan þátt í lagalegri umræðu, sinni félagsstörfum og sýni áhuga á velferð samborgara sinna. Í því samhengi minni ég á að EES-samningurinn er ekkert guðlegt lögmál, heldur aðeins samstarfssamningur sem ætlað er að þjóna íslenskum hagsmunum, en ekki öfugt, þ.e. Íslendingar bera engar eilífar skyldur til að þjóna EES-samningnum, hvað þá fylgja honum og verja af blindri hollustu.

Samviska okkar

Ég rita þetta til að undirstrika að ég er fyllilega meðvitaður um ábyrgð mína gagnvart vanhæfisreglum réttarfarslaga en líka til að árétta að ég mun ekki láta persónu mína, starfshlutverk eða ótta við háðsglósur, offors og þjösnaskap standa í vegi fyrir því að ég ræki skyldur mínar gagnvart lögunum – og gagnvart eigin samvisku. Eins og allir aðrir menn feta ég lífsbrautina undir sverðsegg samviskunnar og á hinsta degi, þegar allt verður lagt á borðið, verð ég að geta horfst í augu við sjálfan mig – og skapara minn.

Óvissa

Hvað O3 viðvíkur, þá lít ég á það mál sem mælikvarða á heilbrigði íslensks lýðræðis og um leið sem prófstein samviskunnar gagnvart þingmönnum þjóðarinnar. Umræður um málið hafa leitt í ljós óvissu um það hvernig Alþingi geti sett hindranir fyrir lagningu sæstrengs þannig að ESA og EFTA-dómstóllinn líti ekki á þær sem hindranir í skilningi O3 og annarra ákvæða EES-samningsins. Út frá almennum reglum um sönnun hlýtur það að hvíla á fylgismönnum O3 að sýna fram á að að slík leið sé fær. Það hafa þeir ekki gert. Allan vafa í þessum efnum ber þingmönnum að skýra íslenskri þjóð í vil, en ekki O3 eða ESB. Almenn rökvísi skýrir heldur ekki hvers vegna Alþingi ætti að nálgast málið í þeirri röð að samþykkja fyrst innleiðingu O3 og ætla svo í framhaldi að hindra að tilgangur og markmið O3 (aukin viðskipti á frjálsum markaði með raforku yfir landamæri) nái fram að ganga. Í þessu ljósi er fullkomlega skiljanlegt að þúsundir Íslendinga efist um réttmæti þess að innleiða O3 í íslenskan rétt án öruggrar vitneskju um afleiðingar þess samþykkis.

Í ljósi framanritaðs getum við vonandi verið sammála um það að það geti verið þarft og jafnvel gagnlegt að dómarar, eins og aðrir, leggi sitt lóð á vogarskálar þjóðfélagsumræðunnar.

Höfundur er héraðsdómari.