Ég er á móti þriðja orkupakkanum einfaldlega vegna þess að ég tel að með honum sé verið að færa okkur enn einu skrefinu nær því að selja orku úr landi og rígbinda okkur enn frekar á klafa evrópska reglubáknsins og alþjóðavæðingarinnar. Þriðji orkupakkinn er bara enn ein birtingarmynd þess að við séum að gangast alþjóðavæðingunni á hönd og þá ekki bara sem hugmyndafræði heldur með bindandi samningum.
Með alþjóðavæðingu á ég ekki við þær nokkur hundruð hræður sem þvælast nauðugar eða viljugar til Íslands eða frá því og stuðningsmenn þessarar gjörónýtu hugmyndafræði eru svo duglegir að benda á í barnaskap sínum.
Með alþjóðavæðingu á ég við hinn ömurlega arftaka nýlendustefnunnar sem gerir stórfyrirtækjum kleift að fara um heiminn eins og engisprettufaraldur og safna auði á hendur eina prósentsins.
Öll þau fyrirtæki sem í dag menga mest, valda dýrum og mönnum óendanlegum þjáningum, selja ópíóða, ryðja regnskóga og sökkva t.d. hálendi Íslands gera það í skjóli alþjóðavæðingar. Eftir að öllum varð ljóst að gömlu þrælakistur nýlendanna og öll sú auðsöfnun sem þeim fylgdu voru orðnar tabú er eins og einhver ímyndarsmiður hafi sest niður og diktað upp alþjóðavæðinguna til þess að taka við af henni. Þetta er ekkert annað en hugmyndafræðilegt kennitöluflakk. Sama gjaldþrota hugmyndafræðin með nýtt nafn.
Allir sem eru ekki fylgjandi eru rasistar og á móti þeirri fáránlegu og fyllilega óraunhæfu útópíu sem hefur oft verið kölluð „heimsþorpið“. Ég fullyrði að alþjóðavæðingin, sem stjórnað er af ábyrgðarlausum, andlitslausum stórfyrirtækjum með stærra kolefnisspor en nokkuð annað í heiminum sé það versta sem hefur nokkurn tíman komið fyrir mannkynið og jörðina alla.
Alþjóðavæðingin er ekkert annað en nútíma þrælaverslun og rányrkja. Hún gengur á auðlindir þjóða og misnotar þegna (eigendur) þeirra auðlinda til verksins. Hvað í veröldinni er eiginlega að okkur að ætla að fara að gangast þessari handónýtu og hraðlygnu hugmyndafræði enn frekar á hönd? Evrópusambandið sem slíkt er bara einn angi þessa vel lukkaða ímyndaráróðurs. Það á að standa fyrir samvinnu, jöfnuð, frið og mannréttindi en vinnur í raun leynt og ljóst að því að moka undir rassana á örfáum einstaklingum sem kunna að misnota þetta allt of stóra og eftirlitslausa bákn.
Nú gætu einhverjir sagt að Íslendingar hafi mokgrætt á alþjóðavæðingunni. Við seljum jú fisk og ál og næst mögulega rafmagn til útlanda, getum étið eitthvað annað en soðna ýsu og slátur og flytjum inn gagnslaust drasl sem við köllum Apple, H&M eða D&G og einhverjum fínum nöfnum en er í raun ekki annað en nútíma nýlendugóss frá þeim löndum sem alþjóðavæðingin misnotar. Svo látum við 1, 2, 3% þjóðarframleiðslunnar í þróunaraðstoð og gerumst heimsforeldri eða leggjum 100 kall í ABC barnastarf og rífumst á torgum yfir einum og einum flóttamanni og höldum að við séum voðalega góð og auðvitað alls engir rasistar af því að við styðjum alþjóðavæðingu og fjölbreytileika. Maður getur ekki annað en dáðst að því að það sé hægt að selja fólki svona dæmalausa þvælu.
Ég bara trúi því ekki að við ætlum í alvöru að fara að framselja þær auðlindir sem við þó eigum eftir og felast í ósnortinni víðáttu, hreinu vatni og lofti og gjöfulum fiskimiðum fyrir skjótfenginn gróða örfárra einstaklinga á þeim forsendum að annars séum við heimóttalegir rasistar og einangrunar sinnar. Við þurfum miðstýringu þjóðríkisins til þess að hafa hemil á fyrirtækjum sem annars geta, eins og dæmin sýna, vaðið áfram í skjóli þess eftirlitsleysis sem alþjóðavæðingin býður upp á og bókstaflega eyðilagt heiminn.
Við ráðum auðvitað ekki yfir öðrum löndum en við getum allavega byrjað á sjálfum okkur með góðu fordæmi. Heimurinn allur sem einn markaður er ekki útópía vinstri mannsins heldur dystópía, hvers öreigar verða ekki ein stétt innan hvers lands heldur heilu löndin eða jafnvel heimsálfurnar.
Það er auðvitað mjög auðvelt að gangast alþjóðavæðingunni á hönd þar sem að hún verður jú til þess að við fáum „nýlenduvörur“ og brauðmolana sem hrynja af borði stórfyrirtækjanna og getum í leiðinni flokkað okkur sem víðsýna, mannvini og heimsborgara. Ég vona bara að þeir sem eru fylgjandi þessari ömurlegu stefnu fari að átta sig á því að þeir eru að kjósa gömlu nýlenduherrana, þeir eru hinir sönnu pilsfaldakapítalistar, þeir eru ekki upplýstir og menntaðir heldur blindaðir og heilaþvegnir, þeir eru hinir sönnu rasistar og umhverfissóðar.
Segjum nei við öllum orkupökkum, nei við Evrópusambandinu og nei við alþjóðavæðingunni.
Munum að vegurinn til glötunar er varðaður góðum ásetningi, þriðji orkupakkinn er ein slík varða.
Höfundur er skáld og bókmenntafræðingur.