Eymundur Snatak Matthíasson Kjeld fæddist í Reykjavík 1. febrúar 1961. Hann lést 16. ágúst 2019.

Eymundur var sonur hjónanna Kristrúnar Eymundsdóttur menntaskólakennara, f. 4. janúar 1936, d. 8. desember 2018, og Matthíasar Kjeld læknis, f. 19. desember 1936, d. 16. janúar 2019. Þau slitu samvistum. Seinni maður Kristrúnar er Halldór Blöndal, fv. forseti Alþingis, f. 24. ágúst 1938. Seinni kona Matthíasar er Marcella Iñiguez læknir, f. 30. september 1942. Systkini Eymundar eru: 1) Þórir Bjarki, f. 20. nóvember 1965. Sammæðra hálfbróðir Eymundar er 2) Pétur, f. 6. desember 1971. Samfeðra systkini Eymundar eru 3) Matthías, f. 27. apríl 1979, 4) Alfred Jens, f. 29. janúar 1981, og 5) Alexandra, f. 1. júní 1983. Stjúpsystur Eymundar, dætur Halldórs, eru 6) Ragnhildur, f. 22. september 1960, og 7) Kristjana Stella, f. 28. desember 1964, og dóttir Marcellu, 8) Carolina Louisa Rehor, f. 28. mars 1969.

Eymundur ólst upp í Reykjavík fram að 11 ára aldri þegar fjölskyldan flutti til Akureyrar. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1980. Hann lauk BS-gráðu í stærðfræði og eðlisfræði frá Washington & Lee University í Virginíu 1983. Þaðan lá leið hans til Manchester, þar sem hann stundaði framhaldsnám í píanóleik á árunum 1983-86. Hann nam einnig fiðluleik og tónsmíðar.

Eymundur vann um langt skeið hjá Talnakönnun og kenndi á árunum 1986 til 1990 við Menntaskólann í Reykjavík.

Eymundur var einn af forsvarsmönnum Sri Chinmoy-miðstöðvarinnar sem byggir starf sitt á kenningum indverska andlega meistarans og friðarfrömuðarins Sri Chinmoy. Eymundur stóð áratugum saman fyrir ókeypis námskeiðum í jóga og hugleiðslu. Þá var hann einn af stofnendum Friðarhlaups Sri Chinmoy hér á landi, en það er alþjóðlegt kyndilhlaup sem hlaupið hedur verið allar götur síðan 1987.

Eymundur stofnaði hljóðfæraverslunina Sangitamiya á Klapparstíg árið 2005.

Eymundur var öflugur hlaupari og vann m.a. fyrsta Jökulsárhlaupið árið 2004. Heimildarmyndin Seeker um Eymund og sönghóp sem hann stofnaði var sýnd á RIFF.

Útför hans verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 3. september, klukkan 15.

Árið 1986 flutti Eymundur Matthíasson aftur til Íslands eftir tónlistarnám í Englandi, en þar hafði hann einnig orðið nemandi andlega meistarans Sri Chinmoy. Við heimkomuna gekk Eymundur (eða Snatak eins og Sri Chinmoy átti síðar eftir að nefna hann) til liðs við Sri Chinmoy miðstöðina á Íslandi og innan skamms var hann orðinn leiðtogi hennar. Því hlutverki gegndi hann allt fram á síðasta dag. Sri Chinmoy miðstöðin á Íslandi taldi ekki marga meðlimi og stóð ekki fyrir mörgum viðburðum á þessum tíma og Eymundur hófst strax handa við að breyta því. Hann kom á reglulegum námskeiðum í hugleiðslu og andlegum málum sem þúsundir Íslendinga hafa sótt í gegnum tíðina. Allt til ársins 2011 hélt Eymundur flest þessara námskeiða sjálfur, sem hans er minnst með mikilli hlýju fyrir.Í apríl 1987 hófst alþjóðlega kyndilboðhlaupið Sri Chinmoy heimseiningar Friðarhlaupið í New York og Eymundur ákvað að þátttaka Íslands sama sumar fæli í sér hlaup hringinn í kringum landið eftir strandlengjunni. Hlaupið var skipulagt í samstarfi við íþrótta- og ungmennafélögin um allt land og í allt tóku yfir 6000 manns þátt og hlupu með logandi friðarkyndilinn, sem leiðtogar allra stjórnmálaflokka sameinuðust svo um á lokaathöfn í Reykjavík - en þau gerðu hlé á stjórnarmyndunarviðræðum til að geta verið viðstödd. Eins og gefur að skilja voru ófáir kílómetrarnir hlaupnir í gegnum óbyggðir og kom þá til kasta Eymundar og tveggja annarra sem voru með hlaupinu allan tímann, auk rútubílstjóra sem ekki hljóp. Sumar dagleiðir fólu í sér að þessir fastamenn hlypu heilt maraþon og var þetta því sannkallað þrekvirki á Íslandi á þessum árum. Tveimur árum síðar var Friðarhlaupið endurtekið með sama sniði, nema nú var Eymundur eini fastamaðurinn, auk rútubílstjórans. Friðarhlaupið fer nú orðið fram árlega og á hverju ári tekur Ísland þátt með einhverjum hætti, stundum er hlaupið hringinn í kringum landið, stundum styttra. En nánast í hvert einasta sinn tekur fólk þátt sem man eftir hlaupinu 87 eða 89.Sri Chinmoy heimsótti Ísland tvö ár í röð, 1988 og 1989, fyrst til að halda friðartónleika í Háskólabíó og síðan m.a. til að setja íslenska Friðarhlaupið, en þá gerði hann nokkuð sem mörgum er minnisstætt: Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, steig upp á þar til gerðan pall með logandi friðarkyndilinn og Sri Chinmoy lyfti pallinum með annarri hendi. Þessir viðburðir kröfðust mikillar vinnu, sérstaklega fyrir lítinn félagsskap eins og Sri Chinmoy miðstöðina, en Eymundur leiddi vinnuna af miklum eldmóði sem smitaði út frá sér. Þessi fyrstu ár Eymundar í leiðtogahlutverkinu gáfu tóninn fyrir það sem síðar myndi koma, sem er að Eymundur var ávallt fús til að taka þátt í öllum verkefnum sem Sri Chinmoy skapaði og elja hans og drifkraftur gerðu okkur kleift að ná markmiðum sem virtust óraunhæf í fyrstu.Árið 2005 stofnaði Eymundur hljóðfæraverslunina Sangitamiya, en nafngiftin er komin frá Sri Chinmoy og er á móðurmáli hans, bengölsku. Búðin er um margt einstök, hvort heldur sem um ræðir fágæt og framandi hljóðfæri, einkennandi bláan lit hússins eða þá andlegu stemningu sem lagt er upp með innan dyra, en frá upphafi stóðu félagar í Sri Chinmoy miðstöðinni vaktina með Eymundi. Aðstoð foreldra sinna var Eymundi nauðsynlegt liðsinni til að búðin gæti opnað og stuðningur þeirra og Péturs bróður Eymundar, bæði við búðina og einnig önnur verkefni á vegum Sri Chinmoy miðstöðvarinnar endurspegla tengsl sem ljúft hefur verið að rækta. Segja má að tengls þessi hefjist raunar á Akureyri 1975 þegar Kristrún móðir Eymundar fór á fyrirlestur hjá Sri Chinmoy.Á sama tíma og Eymundur var atorkusamur, bjó hann yfir jafnvægi þess sem ræktað hefur innri mann sinn með margra ára hugleiðsluiðkun. Hann gat verið ákveðinn, ráðagóður, hlýr eða skemmtilegur, allt eftir því hvað átti við. En fyrst og fremst geislaði hann af sjálfsöryggi sem byggðist á djúpri innri sannfæringu. Erfiður sjúkdómur, sem hann var fyrst greindur með árið 2004, megnaði ekki að hagga þessari sannfæringu og með árunum varð hann æ meiri viskubrunnur fyrir félaga sína. Eymundur var okkur hinum mikil fyrirmynd og eftirfarandi spakmæli eftir Sri Chinmoy lýsir vel hver forgangsröðin var í hans lífi:Við verðum að sinna
innra lífi okkar fyrst.
Öllu öðru
er hægt að huga að síðar.

Torfi Leósson fyrir hönd Sri Chinmoy setursins á Íslandi.