Sigurgestur Ingvarsson fæddist á Uxahrygg í Rangárþingi 10. nóvember 1933. Hann lést 1. september 2019.
Foreldrar hans voru Ingvar Sigurðsson, f. 30. mars 1901 á Nesi í Norðfirði, og Hólmfríður Einarsdóttir, f. 22. apríl 1896 í Berjanesi í Vestur-Landeyjum. Systkini Sigurgests samfeðra voru Sigurður og Aðalheiður, þau eru bæði látin. Alsystkini hans voru átta: Elín, Einar, Guðlaug, Jólín, Trausti, Sigurður, Ráðhildur og Kristbjörg. Kristbjörg lifir bróður sinn, sem og uppeldissystirin Kristjana Ragnarsdóttir, en hin eru látin.
Þann 9. desember 1972 kvæntist Sigurgestur eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Erlendsdóttur, f. 30. maí 1949 og eignuðust þau tvö börn: 1) Áslaug, f. 24. desember 1971, gift Dagbjarti Jónssyni og eru börn þeirra Trausti, f. 2002, Njörður, f. 2003, Droplaug, f. 2006, Sóley f. 2008, og Vésteinn, f. 2012. 2) Frosti, f. 24. maí 1974, kvæntur Sigurlínu Hrund Kjartansdóttur og eru börn þeirra Elínborg María, f. 2005, Ásrún Ólöf, f. 2008, og Ingvar Þór, f. 2011. Fyrir átti Sigurgestur dóttur með Solveigu Guðmundsdóttur, Þórdísi Björk, f. 27. janúar 1963, gift Þorsteini Þorsteinssyni, sonur hennar er Sigurgestur Jóhann, f. 1983, og faðir hans Rúnar Guðmundsson.
Sigurgestur flutti ástamt foreldrum sínum og systkinum að Bryggjum í Austur-Landeyjum þar sem þau bjuggu í nokkur ár. Áríð 1939 flutti fjölskyldan að Selskarði á Álftanesi og þaðan í Hafnarfjörð. Árið 1944 lá leið fjölskyldunnar að Stíflu í Vestur-Landeyjum þar sem Sigurgestur bjó unglingsár sín. Hann var til sjós en lærði ungur múraraiðn og síðar til múrarameistara sem hann starfaði svo við alla tíð. Hann bjó sín búskaparár á Miðvangi og Sævangi í Hafnarfirði.
Útför Sigurgests fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 12. september 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

,,Besti vinur, bak við fjöllin háu, blærinn flytur mín kveðjuorð til þín... (TE)

Siðsumarsól slær bjarma sínum á fyrstu roðagylltu strá úthagans, bláklukkur í mónum, beitilyng og ber á þúfu. Örlítið kul og lykt af fullþroska gróðri, nýuppteknum kartöflum og rófum í bland við sæta angan af ilmreyr og stráum í vendi. Fuglahópar á flugi um heiðbláan himinn, eftirvænting í lofti og hávær titrandi rödd himbrimans fyrirboði um brottför. Veðrið stillt. Það spáir vaxandi vindi á morgun, verður skýjaðra og sólarlítið. Snýst til austanáttar þegar líður á daginn og fer að rigna með kvöldinu. Kólnandi veður.

Hringrás náttúrunnar var pabba ofarlega í huga, gangur lífsins, að árstíðir koma og fara og hver um sig hefur sinn heillandi hátt; vaknandi vor og bjartar sumarnætur, haustsins vindar og frostrós á vetrarskjá fullvissa þess að maðurinn er samofinn náttúrunni, jarðarbarn sem fæðist og mun síðar deyja... eins og annað í hringrás lífs á jörðinni.

Pabbi kenndi manni að hlusta eftir fuglum og þekkja háttalag þeirra, gá til veðurs og á heiðríku kvöldi bauð hann manni út á tröppur að horfa á stjörnurnar. Hann benti manni á Karlsvagninn, Fjósakonurnar, Sjöstjörnuna og Litbrá, skæra stjörnu sem blikaði í öllum regnbogans litum, lágt á himni og virtist svo nálæg. Kvöldið fullkomnað ef norðurljósin dönsuðu trillt með litskrúðuga falda. Pabbi átti það til að fara með kvæðið Norðurljós og Stjarnan eftir Einar Ben en þau ljóð opnuðu manni dulúðugt himinhvolfið upp á gátt. Pabbi var af þeirri kynslóð sem kunni ljóð utan bókar, las Íslendingasögurnar og Norræna goðafræði aftur á bak og áfram enda voru þessar sögur alltaf á náttborðinu hans hann braut heilann um merkingu orða og samhengi hluta, í svefni sem vöku. Hann var alinn upp í torfbæ og minntist þeirra híbýla ekki með rósrauðan bjarma í augum, eins og margur nútímamaðurinn; þvert á móti, í minningu hans voru bæjargöngin dimm og þar var saggi og kuldi. Hann sagði manni stundum frá því að mesta tilhlökkunin við að fara út á köldum vetrarmorgni, þegar hann var lítill strákur og var sendur út að brynna kúnni, hafi verið að geta yljað tánum augnablik í volgri kúadellu. En pabbi átti líka hlýjar og fallegar minningar, t.d. um Jólínu ömmu sína og gat dregið upp ótrúlega skýra mynd af henni og mundi það sem hún kenndi honum þó hann hafi verið 14 ára þegar hún dó:

,,Hún amma var barn fortíðarinnar; tók eftir háttalagi búsmalans og spurði oft um hvar kindurnar væru og fékk mig þannig til þess að fara og athuga með þær... hún vissi að ef kindurnar færu upp á rimann þá var rigning í aðsigi en ef þær héldu sig ofan í mýrinni þá yrði þurrt daginn eftir. Hún átti það til að staulast út að vetrarlagi að athuga með hrossin, til þess að athuga hvernig þau höguðu sér; ef það var illska í þeim og þau voru að flæmast um, bítast og slást, þá var óveður í aðsigi.

Pabbi mundi eftir því þegar útvarpið kom og hann var látinn hlusta á fréttirnar til þess að endursegja frænda sínum sem bjó rétt hjá. Frændinn gerði það svo að vana sínum að rökræða við stráksa um það sem var í fréttum og gerði athugasemd ef það samræmdist ekki einhverju sem hafði komið í fréttum einhverjum dögum áður og það mótaði ungan dreng. Enda hlustaði pabbi alltaf á fréttir í útvarpi og sjónvarpi, vó og mat líðandi stund út frá fréttum gærdagsins og ályktaði um hvert framhaldið gæti orðið. Hann setti fréttir í sögulegt samhengi og oftar en ekki voru heimsmálin krufin til mergjar og jafnvel ,,leyst yfir kaffisopa við eldhúsborðið. Þannig kenndi hann manni að rökræða og vera gagnrýninn í hugsun mest gaman fannst honum þegar umræðan fór á flug, ef viðmælandinn fór að æsa sig, en til þess að ná því fram gat hann jafnvel átt það til að halda fram gagnstæðu sjónarmiði. Hann sagði oft að samræðan væri grunnur

lýðræðislegrar umræðu og mikilvægt að við værum ekki alltaf sammála.

Við erum þakklát langri og góðri samfylgd; þakklát því að börnin okkar hafa fengið að vera þér samferða um stund, nema af þér og læra; ganga með þér að ,,litríkri brú Bifrastar að ,,drottnanna hásal með gott veganesti í vasa sem brúar bilið milli margra kynslóða. Í djúpi þeirra minninga er hin sanni sjóður, sjálfur menningararfurinn.

Elsku pabbi, við munum þig og geymum í hörtum okkar og heilsum þér þegar kvöldhimininn skartar sínu fegursta.

,,Þar tindrar þú stjarnan mín stolt og há

sterkasta ljósið sem hvelfingin á. (E.B.)




Kveðja,



Áslaug og Frosti.