Veröldin er eins og nótt í Róm. Göturnar liggja hver um aðra þvera, hver veit hvert? Sumir sofa sumir vaka; sumir fæðast aðrir deyja. Þessi lýsing á vel við Sjálfstæðisflokkinn um þessar mundir. Göturnar í flokknum liggja hver um aðra þvera. Svo virðist sem fleiri deyi frá flokknum en þeir sem fæðast til hans. Allt of fáum virðist það ljóst hvert flokkurinn ætlar. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur borgaralegra víðsýnna afla og hann má aldrei verða gæsluflokkur sérhagsmuna.
Ef við berum flokkinn saman við áfengi kemur í ljós að styrkleiki flokksins nálgaðist viskí styrkleika fyrir nokkrum árum en nú er flokkurinn kominn niður í styrkleika veikra vína á borð vín frá Porto. Hvað hefur gerst á götum Rómar?
Úr sterku í milt
Það er kunnara en frá þarf að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að ríkisstjórnum frá 1991 að undanskildum fjórum árum. Þetta er mesta hagsældartímabil sem yfir landið hefur gengið.Kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað um 145% en almenn aukning kaupmáttar er sem næst 90% á þessu tímabili. Þetta stafar af framleiðniaukningu sem aflgjafa hagvaxtar.
Laun ráðast að litlu leyti af kjarasamningum, miklu heldur af framleiðni, stöðugleika og stjórnfestu í stjórnarfari.
Afleiðingar bankahruns virtust óyfirstíganlegar. Með upplausn þrotabúa bankanna komst á lausn með stöðugleikaframlagi til ríkissjóðs og losaði landið úr gjaldeyrishöftum án greiðslujafnaðarvanda. Forysta um stöðugleikaframlag var öll í höndum ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Það er frelsi.
Sigrar
Fjármálaráðherra tíundar þá sigra sem leitt hafa til þessa ástands. Það er ekki vanþakklæti kjósenda að snúa baki við Sjálfstæðisflokknum, heldur eru væntingar ekki uppfylltar. Einhver örvænting snýr fólki til fylgis við aðra flokka, Samfylkingu eða Miðflokk, sem hegða sér með óráðshjali eins og pólitískir vinda blása hverju sinni. Nægir þar að nefna óráðshjal um orkumál.
Afturköllun aðildarumsóknar
Til hvers í ósköpunum þurfti Sjálfstæðisflokkurinn að vera þátttakandi í því að styðja afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu? Vissulega var enginn möguleiki á því að umræða um aðildarumsókn kæmist á dagskrá Alþingis. Sofandi aðildarumsókn gerði ekkert mein. Afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu skapaði grundvöll fyrir Viðreisn. Frumkvæði að afturköllun kom frá þeim er síðar urðu Klausturmunkar Miðflokksins.
Samstaða
Þegar loksins tekst að berja saman yfirlit um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í uppbyggingu innviða, en það svæði hefur setið á hakanum svo árum skiptir, þá er það svo að sveitarfélög utan Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu standa saman, en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er sér á parti. Vissulega er gjaldtaka óútfærð en það er mikilvægt að standa saman í þessu verkefni.Er nú ekki lágmark að félagar í Sjálfstæðisflokknum standi saman yfir landmæri bæjarfélaga? Vandamál í samgöngum skapa óánægju. Greiðar samgöngur skapa ánægju.
Ánægja og óánægja
Með því að fjarlægja þætti, sem valda óánægju er ekki víst að ánægja og hamingja aukist. Óánægja vegna eftirmála hruns fjármálastofnana hefur að mestu verið fjarlægð, en það dugar ekki til. Jákvæðar væntingar skapa ánægju.Það er í raun bjart fram undan í efnahagsmálum enda þótt dregið hafi tímabundið úr hagvexti og þenslu. Mesta ógn sem íslenskur vinnumarkaður stendur andspænis er hvernig Icelandair vinnur úr málefnum Boeing MAX-flugvéla í eigu félagsins.
Tekjur ríkissjóðs af ofurvexti í ferðaþjónustu eru sennilega sem næst 35 milljarðar umfram það sem eðlilegt er í sögulegu samhengi útflutningsstarfsemi á Íslandi. Þá dettur fólki í hug náttúrupassi! Hvaða áhrif hafði náttúrupassi á kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins?
Í ferðaþjónustu eru frumkvöðlar sem eiga heima í Sjálfstæðisflokknum og frumkvæði ber að styðja.
Það er hægt að kortleggja óánægju. Óánægju má lægja með réttmætum væntingum og aðgerðum. Það er óásættanlegt að það skuli vera mánaða bið eftir liðskiptaaðgerðum. Líkamlegar kvalir valda óánægju.
Bið eftir samgöngubótum skapar óánægju. Eftir að Austfirðingar og landsmenn allir fengu göng um Almannaskarð urðu miklar væntingar um úrlausn samgöngumála í fjórðungnum með jarðgöngum. Fáskrúðsfjarðargöng og Norðfjarðargöng skapa frekari væntingar um göng.
Almannatryggingar, lægstu laun og eldri borgarar
Hvernig hafa greiðslur almannatrygginga þróast miðað við breytingar á lægstu launum? Lægstu laun hafa hækkað langt umfram almenna launaþróun. Sjálfstæðiflokkurinn þarf að hafa forystu um að vera sífellt á verði um kjör þeirra sem eru alfarið háðir greiðslum frá almannatryggingakerfi.Það er óþarfi að tala um alla eldri borgara sem hóp með slæma stöðu. Margir eldri borgarar hafa það gott og það er þakkarvert. Það ber að styðja eldri borgara að komist í að verða fjárhagslega sjálfstæðir án þess að það verði fyrir milligöngu almannatrygginga. Frjáls sparnaður er nefnilega ein stoð almannatrygginga.
Hver er staða nú?
Það er rétt að íhuga stöðu mála í íslensku efnahagslífi. Besti mælikvarði á efnahagslegan stöðugleika er verðbólga. Verðbólga frá ársbyrjun 2013 hefur verið um 2,34% að meðaltali á ári. Það er lítil verðbólga í sögulegu samhengi. Það er óðaverðbólga sem rústar eftirlaunum. Vextir eru í sögulegu lágmarki. Það er afgangur af utanríkisviðskiptum og jafnvægi í ríkisfjármálum. Stöðugleiki í efnahagsmálum er ávísun á lífskjarabata.Við þessi skilyrði er allt í einu flokkur undir forystu fúllynds Akureyrings að auka fylgi sitt. Algerlega óverðskuldað.
90 ár og næstu tvö ár
Níutíu ára Sjálfstæðisflokkur á ekki í vændum eilífan aldur ef afmælið gengur fyrst og fremst út á að bjóða forystumönnum annarra flokka upp á brauð og tertu. Darwin talar um aðlögun. Er Sjálfstæðisflokkurinn aðlaðandi eða aflaðandi? Hvernig standa kynningarmál Sjálfstæðisflokksins? Hver er sýnileiki þingmanna Sjálfstæðisflokksins á menningarviðburðum? Þingmenn flokksins eru mestan part ósýnilegir.Það er svo að aðeins örfáir vita hverjir eru alþingismenn Sjálfstæðisflokksins nú um stund. Þeir þurfa að spyrna í botninn. Eða er betra að hafa þá í kafi áfram?
Það eru innan við tvö ár til næstu kosninga. Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að bjóða upp á annað en vín í búðir? Það er af nægu að taka.
Viðspyrna í botn
Þingmenn verða að spyrna í botninn, koma úr kafi og láta sjá sig. Tala við kjósendur, hlusta og útskýra á máli sem skilst.Það eru innan við tvö ár til næstu kosninga. Er ekki rétt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skerpa á sinni framtíðarsýn og stefnu fyrir Ísland?
Hvers konar pólitík á flokkurinn að reka og hvernig getur hann skapað sér skýrari aðgreiningu frá öðrum flokkum á Alþingi; ekki bara til að vera öðru vísi heldur til að gera gagn, skapa lífsgæði og ánægju umfram fúllyndi annarra stjórnmálaflokka.
Styrkleiki
Styrkleiki flokksins felst ekki í því að bjóða upp á fleiri vínfrumvörp eða náttúrupassa. Það er enginn vínskortur í landinu. Það þarf einfaldlega að kynna hin fjölmörgu góðu stefnumál flokksins, tala um stefnumál við fólk og nýta flokksmenn um land allt við það verkefni.Sjálfstæðisflokkurinn er í grunn víðsýnn nýsköpunarflokkur; rekja má nær alla nýsköpun, framfarir og bætt lífskjör í landinu síðustu 90 árin til stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Höfundur var alþingismaður.