Axel Þorlákur Jóhann Sölvason fæddist á Siglufirði 15. janúar 1931. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 15. október 2019.
Hann var sonur Pálínu Sigrúnar Jóhannsdóttur frá Grafarósi Höfðaströnd, f. 1898, d. 1941, og Sölva Valdemarssonar frá Krossavík við Vopnafjörð, f. 1906, d. 1990.
Alsystir Axels er Svala Guðmunda, f. 1933, d. 2008. Samfeðra eru Bergþóra Sigríður, f. 1932, d. 2008, drengur, f. 1944, d. 1944, Svavar, f. 1944, og Gunnar Ingi, f. 1946, d. 1956. Sammæðra eru Jórunn Guðrún Oddsdóttir, f. 1938, d. 2018, og Friðbjörg Þórunn Oddsdóttir, f. 1938.
Axel kvæntist 14.2. 1954 Hrefnu Ragnarsdóttur, húsmóður frá Djúpavogi, f. 18.7. 1931, d. 4.12. 2015. Þau eignuðust fjögur börn.
1) Axel Sölvi, f. 1952, sambýliskona er Guðrún Harðardóttir, f. 1957. Börn þeirra eru Hörður Hafliði, f. 1983, Berglind, f. 1986, í sambúð með Matthíasi Óskarssyni, og Axel, f. 1996.
2) Sigrún, f. 1954, giftist Erni Axelssyni, f. 1949, d. 2014. Börn þeirra eru a) Sigrún Hrefna, f. 1974, gift Victori Björgvin Victorssyni, f. 1977, börn þeirra eru Victor Örn, Viðar Hrafn og Steinn Þorri. b) Axel Örn, f. 1975, kvæntur Sigrúnu Aadnegard, f. 1978, börn þeirra eru Valdís Birna, Örn Ingi og Stefanía Bryndís. c) Ingólfur, f. 1980, kvæntur Evu Bryndísi Pálsdóttur, f. 1982. Börn þeirra eru Tindur og Inga Lilly. d) Egill Sölvi, f. 1982. Fyrrverandi sambýliskona Sigríður Erlendsdóttir, saman eiga þau Sölva Snæ. Sambýliskona Egils er Bára Brynjólfsdóttir, f. 1978, börn þeirra eru Brynjólfur Darri og Kristófer Axel, fyrir á Bára Selmu. Sambýlismaður Sigrúnar er Sigurður Viggó Grétarsson, f. 1952.
3) Ragnar Guðni, f. 1958. Kvæntur Björk Hreiðarsdóttur, f. 1958. Börn þeirra eru a) Tinna Dögg, f. 1979, gift Kristni Jóni Einarssyni, f. 1975. Börn þeirra eru Embla Eir og Oliver. b) Jón Snær, f. 1982, kvæntur Þóru Björk Sveinbjörnsdóttur, f. 1985. Börn þeirra eru Lúkas Logi, Rökkvi Steinn og Ronja Lind. c) Darri, f. 1990.
4) Bergur, f. 1962. Börn hans og Ragnheiðar Birnu Úlfarsdóttur eru a) Valdimar Jóhann, f. 1984, kvæntur Eddu Ingibjörgu Eggertsdóttur, f. 1984, börn þeirra Petra Björk, Birna Signý og Eggert Árni. b) Bergur Ingi, f. 1985, barn hans með Sunnu Björg Birgisdóttur er Helga Björk. Sambýliskona Bergs Inga er Rebekka Þormar f. 1984. Börn Bergs og Jónu Guðrúnar Ívarsdóttur, f. 1966, eru Guðný Hrefna, f. 1999, í sambúð með Oliver Páli Finnssyni, og María Guðrún, f. 2007. Fyrir á Jóna Víking Inga, f. 1994, í sambúð með Signýju Sigurgeirsdóttur, f. 1994, og Arnór, f. 1988, í sambúð með Jónínu Carol, f. 1988. Börn þeirra eru Viktoría Emma og Eymundur Sveinar, fyrir á Arnór Ragnar.
Axel var fæddur á Siglufirði og sleit þar barnsskónum. Móðir Axels lést í bílslysi þegar hann var aðeins 10 ára gamall, eftir það fór hann í fóstur til Bergs og Magdalenu á Smiðjuhóli á Mýrum. Axel og Hrefna kynntust þegar hann flutti til Reykjavíkur og hóf nám í Iðnskólanum í rafvélavirkjun.

Eftir námið réð hann sig til Eimskips sem rafvélavirki á Tröllafossi og Goðafossi. Hann vann á olíuskipinu Hamrafelli og var einn af þeim sem sóttu það til Svíþjóðar.
Þau hjónin voru meðal frumbyggja Kópavogs og eignuðust einbýlishús við Nýbýlaveg 38b. Þar bjuggu þau ásamt börnum sínum. Þegar Axel hætti á sjó stofnaði hann rafvélaverkstæði Axels Sölvasonar. Axel tók yfir rafmagnsverkstæði Sambandsins og starfrækti það til ársins 1976 þegar hann hóf störf í verkfræðideild Háskóla Íslands, þar starfaði hann þar til hann fór á eftirlaun 2001. Árið 1968 flutti fjölskyldan í Árbæjarhverfið og bjuggu þau þar alla sína tíð.
Útför Axels fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 30. október 2019, klukkan 11.

Raggi þú færð sko að ganga heim, við erum eins og sveskjur, sagði pabbi og var ekki glaður eftir að hafa verið fastur ofan í Seljavallalaug í rúmlega tvo klukkutíma. Við höfðum farið í Öræfasveitina með Díder frænda og ætluðum að ganga upp á jökul. Pabbi vildi sýna mér hvernig ætti að taka alvöru myndir, eins og hann orðaði það. Jökulferðin var stutt, maður gengur ekki á sprunginn jökul í strigaskóm og á skyrtunni.  Á heimleiðinni var ákveðið að stoppa og henda sér í Seljavallalaug undir Eyjafjöllunum og þvo af sér ferðarykið.  Þeir frændur stungu sér allsberir í laugina og ég tók myndir, nennti ekki ofan í.  Laugin var frekar vinsæl, þó fáir kæmu þangað í sund aðrir en heimamenn. Hún var heit og notaleg. Eiginlega of heit því húðin varð eins og skorpa mjög fljótlega.

Eftir að hafa fengið prakkaralegt uppeldi var oft erfitt að hafa hemil á sér, aðeins 16 ára.  Í fjarska nálgaðist stór hópur úr rútu sem var á leið í laugina.  Strákar horfiði hingað, kallaði ég. Ég ætla að ná mynd af ykkur þegar þið komið úr kafi. Þeir léku sér eins og hafmeyjar þar sem þeir syntu til mín með bakið í rúthópinn. Þó kannski líkari hvölum að dansa Svanavatnið en hafmeyjum.  Allt í einu heyrðist í þeim frændum: Hvert í þreifandi! Það er fullt af fólki að koma! Það var of seint að fara upp úr berrassaðir. Augnaráðið sem ég fékk var ekki það hlýjasta sem ég fékk um ævina frá þeim.  Eftir rúmlega tvo tíma, þegar síðasti rútugesturinn var farinn, var hægt að klæða sig. Þeir voru krumpaðir eins og hálfsoðnar sveskjur. Raggi, hvar eru skórnir mínir, kallaði pabbi, þegar hann var búin að klæða sig og var ekki árennilegur á svip. Ég segi þér það ekki, svaraði ég. Ertu orðinn galinn? Á ég að labba berfættur niður í bíl án þess að vera í skóm? Ég skal semja við þig, svaraði ég. Þú færð skóna og sokkana  ef ég fæ far í bæinn, annars hendi ég þeim!  Það voru stuttar samningaviðræður þar sem ég hafði undirtökin. Loforð var tekið um að afleiðingar yrðu engar og ég þyrfti ekki að ganga heim. Það hefði tekið tvo daga.

Það hefur margt verið brallað og hlegið á lífsins leið en það voru líka alvarlegar samræður þegar kom að lífsins draumum.  Gerðu allt  sem þú tekur þér fyrir hendur vel, sama hvað það er. Hlustaðu á þá sem þekkingu hafa, það er veganesti inn í lífið, á því lærir þú. Það eru góðir kennarar  á Morgunblaðinu, af þeim munt þú læra margt.  Hafðu gaman af lífinu, léttleiki og gleði er gott veganesti, sýndu öllum virðingu og meiddu aldrei neinn.  Þegar þú ert að fljúga gefðu aldrei afslátt á öryggi, ef þú hefur líf annarra í hendi þér. Allt sem hann sagði mér hefur reynst mér vel.

Blístrandi glaður eins og fuglager á hraðferð um himininn er eiginlega lýsingin á pabba.

Það fór ekki á milli mála hver var að koma heim eftir vinnu þar sem hann flautaði lag eftir Roger Whittaker eða var þetta kannski Roger Whittaker sjálfur að villast í Árbæjarhverfinu? Það voru fáir sem flautuðu lög jafnvel og pabbi gerði. Munnharpan tók við þar sem blístrinu sleppti, gítarinn hafði farið á hilluna þegar mótor féll ofan á höndina á honum og klippti framan af einum fingrinum.

Það var ekki slæmt uppeldi að hafa gleði og húmor að leiðarljósi í gegnum lífið. Þeir sem vilja vera í fýlu og með leiðindi mega bara vera þar ef þeim líður betur þannig, sagði pabbi stundum. Maður verður bara að virða það. Vertu glaður og horfðu á björtu hliðar lífsins, það er alltaf betra.

Flugið og flugáhuginn var okkur systkinum í blóð borinn. Af öllum þeim dellum sem pabbi hafði bar flugáhuginn af. Tuttugu og einn af okkur afkomendum hans og tengdabörnunum hefur farið í flugnám og lokið því.

Við pabbi smíðuðum okkur flugvél í samvinnu við Eyþór Sigmundsson vin okkar. Það var góður tími. Hún bar einkennisstafina TF-MBL. Það var spenna í loftinu þegar flugvélin flaug í fyrsta skiptið, sleppti jörðinni og flaug eins og engill. Hún átti eftir að reynast okkur og Morgunblaðinu vel við myndatökur. Það er eins og við höfum smíðað hana í gær, en tíminn flýgur eins og flugvélin þegar lífshlaupinu lýkur.

Pabbi svarar ekki lengur símanum þegar mig langar að heyra í honum, það er skrýtið. Eina skiptið sem hann skammaði mig á seinni árum var í Skaftárhlaupi fyrir að fljúga of lágt yfir beljandi jökulhlaupinu. Það er engin mynd þess virði að drepa sig fyrir hana, sagði hann þegar ég lenti á túni vestan við jökulhlaupið með þá fréttamynd sem ég vildi ná.

Minningin um góða tíma mun lifa, hláturinn og góð ráð fara ekki neitt. Að kveðja foreldra sína verður engum auðvelt, en svona er lífsins gangur. Að kveðja í síðasta sinn með þeim orðum að nú væri mamma að koma og sækja hann var erfitt, jafn ólík og þau voru en samt samrýnd. Það kom lítið tár og bros við þau orð. Nú var í lagi að fara á betri stað. Lífið heldur áfram með sínum vonum og draumum, minning um góða foreldra lifir um ókomna tíð, algóður guð hefur tekið við þeim, nú eru þau saman á betri stað.

Ragnar Axelsson og fjölskylda.