Jón Ernst Ingólfsson fæddist í Reykjavík 11. febrúar 1950. Hann lést á heimili sínu í Garðabæ 25. október 2019. Foreldrar hans voru hjónin Ingólfur Ólafsson verslunarmaður, f. 24. mars 1921, d. 17. nóvember 1966 og Guðlaug Hulda Guðlaugsdóttir húsmóðir, f. 28. júlí 1921, d. 25. febrúar 2005. Systkini Jóns eru Kolbrún Sigurbjörg, f. 10. mars 1943, Ingveldur, f. 7. mars 1944, Rósa Guðrún, f. 25. október 1946 og Aðalbjörg Gunnhildur, f. 23. mars 1961.
Kona Jóns er Dagný Guðmundsdóttir, f. 29. ágúst 1949. Foreldrar hennar voru Guðmundur Helgi Valdimarsson, f. 1926, d. 1951 og Rósa Einarsdóttir, f. 1922, d. 2005. Börn Jóns og Dagnýjar eru: 1. Rósa Dögg, grafískur hönnuður, f. 2. nóvember 1971, maki Hannes Már Sigurðsson, f. 1971. Þau skildu. Börn þeirra eru: a) Sara Sól, f. 11. desember 1997, b) Birta Rós, f. 27, júní 2003 og c) Embla Dögg, f. 20. febrúar 2007. 2. Helgi Hrannarr viðskiptafræðingur, f. 6. febrúar 1978, maki Harpa Rós Gísladóttir, f. 1978. Þeirra börn eru: a) Óliver Andri, f. 29. febrúar 2000, b) Alexander Kiljan, f. 5. júlí 2010, c) Kristófer Kjarval, f. 5. júlí 2010 og d) Hendrikka Rut, f. 4. janúar 2014. 3. Dagur Geir viðskiptafræðingur, f. 13. desember 1989, maki Elísa Rut Hallgrímsdóttir, f. 1992. Sonur þeirra er Rúrik Hrafn, f. 11. ágúst 2017. Einnig átti Jón dótturina Guðbjörgu Aðalheiði, f. 25. febrúar 1967. Maki Guðbjargar Aðalheiðar er Juan Carlos Melgar Rada, f. 1962. Dætur þeirra eru: a) Elín, f. 17. apríl 1992, sonur hennar er Grettir Diego, f. 19. ágúst 2018, og b) Hera, f. 3. september 1993.
Jón ólst upp í Reykjavík og starfaði við sölustörf og við eigin atvinnurekstur.
Jón verður jarðsunginn frá Garðakirkju í dag, 8. nóvember 2019, kl. 15.

Það var örlagaríkt símtalið sem ég fékk frá mömmu snemma morguns 25. október sl. þegar hún bað mig að koma strax. Síðan þá hafa dagarnir liðið hver á eftir öðrum án þess að manni finnist maður í raun vera lifandi. Það voru óhemju þung sporin inn á æskuheimilið þennan morgun og að þurfa að tilkynna systkinum mínum þessar sorgarfréttir strax í kjölfarið því missir okkar allra er mjög mikill.

Fyrstu minningarnar mínar af okkur tveimur saman eru annars vegar tengdar því að við vorum að hlusta á músík, alvöru músík þar sem þú kynntir mig fyrir Rolling Stones, Mamas & Papas, Eagles, Led Zeppelin og Bítlunum ásamt því að leggja alltaf áherslu á að styðja íslenska tónlistarmenn sem þú hlustaðir mikið á. Þegar við fórum á Dylan saman fengum við að sjá meistarann sjálfan sem við hlustuðum báðir mikið á og ég man ennþá hvað þú varst ánægður með þá tónleika því hann spilaði án þess að taka hlé. Minningabrotin eru líka tengd útivist og gönguferðum, annaðhvort um hraunið, um nærliggjandi svæði í Kaldárseli, á Hengilssvæðinu og víðar en á þessum göngum naustu þín oft hvað best. Oftast var það nú þannig að vinir fylgdu með og þetta ristir einhverra hluta vegna djúpt í minningabanka barnæskunnar. Virðingin fyrir umhverfinu, náttúrunni og landinu var alltaf til staðar og þegar við höfum rennt yfir mörg af uppáhaldslögum þínum þá eru ótrúlega mörg þeirra sem fjalla einmitt um þetta. Síðasta vor nefndi ég síðast við þig slíka göngu og þá eins og oft varð ekkert úr þar sem þú vildi ekki skilja mömmu eftir heima.

Þú varst í samanburði við flesta óvenjulegur pabbi, varst með sítt hár og hjá okkur voru engar sérstakar reglur sem mörgum vinum mínum fannst ósanngjarnt og öfunduðu mig af. Þú varst til í að leyfa öllum að leika heima og dauðlegir hlutir skiptu þig engu máli. Í dag bý ég að þessu og hef gert alla tíð. Þú varst pabbinn sem leyfði manni að kaupa nammi, drekka kók, keyra bílinn og fórst í kappakstur þegar við vorum á ferðinni. Að sama skapi varstu líka pabbinn sem sá um venjulegu hlutina eins og að vekja okkur systkinin í skólann, smyrja nesti og sjá til þess að allir mættu á réttum tíma enda varstu stundvísasti maður sem ég þekki. Með þessu móti tókst þér einhvern veginn að vera samviskusami pabbinn sem leyfði okkur samt að þróast og dafna á okkar eigin forsendum og þar sem þú vildir alltaf að aðrir stæðu í sviðsljósinu þá var það iðulega þannig að þú leyfðir öðrum að njóta sín. Þetta gerðir þú alla daga alltaf og fram á síðustu stundu gagnvart mömmu í rúmlega hálfa öld.

Stolt þitt af okkur systkinunum leyndi sér ekki og þú varst ánægður að við skyldum öll halda til náms í Bandaríkjunum. Þú fórst frekar seint í þína fyrstu ferð þangað og það var eftirminnilegur tími enda varstu kominn til að heimsækja mig og fagna með mér útskrift. Þetta voru æðislegir dagar og ljóst að þarna kunnir þú vel við þig og þó að við hefðum bara farið í eina ferð saman til Bandaríkjanna til viðbótar þá ræddum við þessar stundir og plönuðum margsinnis fleiri slíkar ferðir, sem því miður aldrei varð af. Við útskriftina mína veit ég að þú hefðir viljað hafa mömmu með þér og því var það ákaflega gleðilegt þegar Dagur bróðir útskrifaðist úr sínu námi mörgum árum seinna að þið skylduð hafa farið saman, ég veit að það var þér ómetanleg ferð. Mikið ofboðslega vildi ég að ferðirnar okkar hefðu getað verið fleiri, en þetta var svo líkt þér að þú vildir frekar sleppa því að koma með en að skilja mömmu eftir.

Eins og flestir vissu áttum við ekki alltaf skap saman, við deildum oft en þá gjarnan um aðferðafræði. Okkur greindi ekki oft á hugmyndafræðilega séð en það kom fyrir og sem betur fer náðum við að leysa þau mál fyrir mörgum árum okkar á milli. Ég hugsa að ég sé nefnilega töluvert líkur þér en samt vorum við mjög ólíkir en þurftum að blása og svo var það búið. Blessunarlega hef ég frá þér að geta fyrirgefið þegar mér finnst á mig hallað, en það hefur reynst erfitt að læra það.


Þú hafðir lag á fólki og þrátt fyrir stressið, lætin og allt sem fylgdi þá einhvern veginn dróst fólk að þér og ég veit að í mínum vinahópum varstu sérstaklega vel liðinn sem skýrist kannski af því að þér þótti raunverulega vænt um vini mína. Þú hafðir dálæti á því góða sambandi sem ég á við þá og mér er minnisstætt eftir fertugsafmæli okkar Hörpu þegar þú sagðir við mig að það væri fjársjóður í öllu því góða fólki sem við þekktum og að við ættum að rækta það. Þarna skynjaði ég að einhverju leyti ákveðna eftirsjá hjá þér varðandi þetta.

Þegar við Harpa fórum að vera saman og Óliver kom inn í líf okkar allra er mér minnisstætt hversu vel þið mamma tókuð honum og hafið gert alla tíð, sem einum af okkur. Fyrir þetta er ég þakklátur og hef horft daglega á myndina þar sem þú heldur utan um hann á brúðkaupsdegi okkar Hörpu. Alexander og Kristófer fengu fínan tíma með þér og sakna afa síns mikið. Krakkarnir hafa verið duglegir að heimsækja ömmu sína og þau munu eiga góðar minningar um afa sinn. Síðar meir segi ég þeim og Hendrikku fleiri sögur af afa og hvet þau til að halda minningu þinni á lofti en ég er löngu byrjaður að sýna þeim landið og spila fyrir þau alvöru tónlist. Ég mun halda áfram að kenna þeim að veiða eins og þið Gústi og Heiðar kennduð mér og tvíburarnir hafa erft áhugann á veiði frá þér og stefna á maríulaxinn sinn.

Við fjölskyldan munum eiga erfitt á næstunni og jólin sem voru heilagur tími hjá okkur öllum munu verða okkur erfið. Við hins vegar munum halda í heiðri allar þínar hefðir og venjur. Þannig mun minning þín haldast á lofti ásamt því að við verðum dugleg að segja krökkunum sögur af afa, afanum sem vildi allt fyrir alla gera og aldrei þiggja neitt á móti. Sögur af afanum sem var með myndir af öllum í kringum sig, bað fyrir þeim og elskaði. Við munum passa vel upp á mömmu sem hefur ekki oft verið án þín þessi rúmlega 50 ár sem þið hafið verið saman. Ég fékk ekki að hafa veitingarnar í þínum anda í erfidrykkjunni af því að mömmu fannst þær ekki nóg smart, en þær verða á boðstólum þegar við höldum upp á 70 ára afmælið þitt í febrúar.


Elsku pabbi, mikið ofboðslega þótti mér vænt um þig og mikið mun ég sakna þín. Ég sé óstjórnlega eftir öllum tímanum sem við hefðum átt að eiga saman en fáum aldrei og ég veit að við hefðum öll getað nýtt tímann okkar betur sem er leiðinlegt því ef einhver átti skilið gott ævikvöld þá varst það þú. Þú ert hetjan mín, skúrkurinn minn og allt þar á milli og ég veit að þú munt taka á móti mér síðar meir þegar minn tími kemur með opinn faðminn. Fram að þeim tíma veit ég að þú vakir yfir okkur öllum, líklega áhyggjufullur en bara það að vita af þér lætur mér líða örlítið betur.

Helgi Hrannarr Jónsson.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér
Skrítið stundum hvernig lífið er
Eftir sitja margar minningar
Þakklæti og trú
(Ingibjörg Gunnardóttir)


Þegar ég var unglingur og við Helgi farin að skjóta örvum okkar í milli hitti ég Nonna ekki mikið. Samskiptin voru aðallega á milli mín og Dagnýjar. Það rann fljótt upp fyrir mér að þau voru ekki eins og flestir aðrir foreldrar sem ég þekkti, þau voru öðruvísi, frjálslegri og mjög töff í mínum huga. Hippar eða sunnudagshippar eins og Dagný talar um. Rökræður og staðfesta einkenndi samtölin við borðstofuborðið og sá sem hafði bestu rökin vann, sama á hvaða aldri hann var. Það var hugmyndafræði sem var algjörlega ný fyrir mér. Það var ekki feimninni fyrir að fara í Hraunhólunum og er mér það mjög minnisstætt þegar ég kom þangað eitt sinn og átti nokkurn veginn mitt fyrsta samtal við Nonna. Ég var þá að bíða eftir Helga sem var eitthvað að vesenast og ég sat í stofunni með Nonna, frekar óstyrk þar sem ég hafði ekki rætt almennilega við hann áður undir tvö augu. Þá smellti hann þessari setningu sem hefur yljað mér um hjartarætur og ég hef getað í gríni notað mér í hag: Harpa mín, ég skil bara ekkert í syni mínum hvað hann ætlar að hugsa það lengi hvort hann ætli að vera kærastinn þinn eða ekki, hann hlýtur að vera hálfviti að geta ekki ákveðið sig! Ég veit a.m.k. hvað ég myndi gera í hans sporum. Þarna roðnaði ég algjörlega upp fyrir haus, langaði að hverfa ofan í jörðina en vonaði að hann væri nú búinn að fara yfir þessi mál með syninum, sem kom svo á daginn einhverju seinna.

Ég hef alltaf fundið að Nonna þótti ósköp vænt um mig og þótti enn vænna um hversu mikil fjölskyldumanneskja ég er. Það var kostur að hans skapi enda var hann mjög náinn systrum sínum og ræktaði samband við þær aðdáunarlega. Einnig var það fyrst um sinn þegar ég var að festast í sessi innan fjölskyldunnar að ég var nokkuð viss um að Nonni hefði eins konar matarást á mér. Allt sem ég gerði þótti honum mikið til koma og allt bragðaðist vel og hann hrósaði mér í hástert, nema þegar ég bauð honum upp á pasta. Það var með engu móti matur í hans huga. Mér varð á í nokkur skipti að vera með slíkt á boðstólnum en þá kom einlægni og hreinskilni Nonna vel í ljós og ég fékk að heyra það hversu mikil sóun á hæfileikum mínum í eldhúsinu það væri að bjóða upp á þennan mat. Nú þegar staðreyndin er sú að ég muni ekki elda mat þar sem Nonni kemur spenntur til borðsins er eftirsjá að hafa ekki verið duglegri að bjóða þeim í mat. Það verður ótrúlega skrítið að fá ekki sendinguna og eiga samtölin um rjúpurnar fyrir jólin og finna traustið frá honum til mín að elda uppáhaldsmatinn hans án vandkvæða. Setningar eins og: Harpa mín, hvernig líst þér á rjúpurnar? Eru þær ekki bara flottar? Hvernig er lyktin, ekki alveg eins og hún á að vera? Mikið á ég eftir að sakna þessa.

Að kveðja er svo afstætt á þessum tímapunkti elsku Nonni. Skyndilegt fráfall þitt liggur þungt á okkur  öllum og söknuðurinn er mikill.

Ég sit hér og fer yfir minningarbrot og það sitja fast í mér síðustu stundir sem við áttum saman. Þau minningarbrot segja svo margt um það hversu vænt þér þótti um okkur öll og hversu mikilvægt það var þér að hefðirnar sem þið Dagný bjugguð til yrðu við líði. Ég lofa þér því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur að standa mína plikt í þeim efnum. Ég lofa því einnig að halda vel utan um stóru ástina í lífi þínu sem þú hugsaðir svo ótrúlega vel og fallega um. Eins mun ég halda þétt utan um Helga og börnin og munum við í sameiningu halda minningu þinni á lofti. Ég bið þig til baka og treysti því að þú vakir yfir okkur öllum.

Elsku Nonni ekki hafa áhyggjur af jólunum, þau verða ávallt eins og þau eiga að vera, í þínum anda.

Þín tengdadóttir,


Harpa.

Elsku pabbi, síðustu dagar hafa verið tómlegir án þín og það er svo augljóst hversu stórt og mikilvægt þitt hlutverk í lífi okkar allra var. Tómið sem þú skildir eftir þig verður vandfyllt en við munum að sjálfsögðu gera okkar allra besta til þess að gera þig stoltan. Ég veit hversu stoltur þú hefur alla tíð verið af okkur og hversu mikið traust þú barst til okkar.

Elsku pabbi, það sem mér þótti vænt um vináttu okkar er ólýsanlegt. Raunveruleikinn sem blasir við er kaldur en á sama tíma hefur hann orðið til þess að við fjölskyldan þéttum raðirnar og höldum minningu þinni á lofti. Allur samhugurinn sem við höfum fundið fyrir síðustu daga hefur sýnt og sannað hversu einstök manneskja þú varst. Við fjölskyldan höfum átt allar sl. kvöldstundir saman þar sem við höldum okkar striki og tölum saman eins og okkur einum er lagið, beint út. Á þessum stundum hefur það komið svo greinilega í ljós að það vantar þig. Hlutir sem ég hélt að aldrei myndu skipta máli eins og samtölin okkar um veður og verð á kjöti eru allt í einu orðnir dýrmætir. Augnablikin sem fóru í það að kenna þér á tæknina og hvernig hún virkaði fyrir utan línulegu dagskránna eru orðin dýrmæt. Öll augnablikin með þér eru allt í einu orðin minning, minning sem ég mun alla tíð varðveita. Við vorum svo oft á sömu blaðsíðu með svo margt, það er það sem gerði okkar vinasamband sérstakt. Þú varst alltaf með mér í liði og ég næstum alltaf með þér. Þú varst besti liðsfélagi sem ég hef átt og ég hefði viljað segja það við þig oftar.

Þú veist hversu mikils ég mat þig og þína eiginleika. Það er skemmtilegt að minnast á það að ég hef reynt að sinna þínum viðskiptavinum undanfarna daga með sendingar og þessháttar. Ég verð að viðurkenna að ég væri til í að þú kæmir aðeins og útskýrðir fyrir mér hvernig þú fórst að þessu öllu saman? Það er einnig fallegt að heyra hvernig viðskiptavinir þínir bera þér söguna og hversu mikils þú varst metinn. Ég mun reyna að tileinka mér það sem þú varst alltaf að ítreka við mig. Dagur minn, ekki láta hlutina bíða til morguns ef þú getur klárað þá í dag.  Mamma var svo heppin að hafa þig hjá sér öllum stundum. Þú varst búinn að tileinka henni þitt líf og það er svo augljóst núna hversu stór klettur þú varst í hennar lífi.

Þrátt fyrir að við höfum skipst á skoðunum og verið ósammála um hin ýmsu atriði í gegnum tíðina, þá er ég svo þakklátur fyrir hversu mikla virðingu við bárum fyrir hvor öðrum og hversu vel við afgreiddum vandamálin sameiginlega.

Ég á svo margar minningar sem ég gæti rifjað upp en ætla að geyma með sjálfum mér og þér og rifja upp seinna með Rúrik Hrafni. Hvað mig varðar þá er það kannski heimsókn ykkar mömmu í útskriftina mína í Alabama og Florida. Þessi ferð, sem var jafnframt þín síðasta utanlandsferð þrátt fyrir að dreyma um sól og ískaldan bjór í framandi landi verður aldrei endurtekin. Þessi ferð var og verður lengi í minnum höfð þar sem við náðum að gera svo margt saman. Það að þið mamma voruð viðstödd var mér mikils virði á þeim tíma og í dag er það ennþá meira virði. Stoltið og gleðin skein í gegn þrátt fyrir mikla þreytu á köflum. Ég veit að ég mun eiga augnablik í lífinu þar sem þú hefðir þurft að vera til staðar en verður það ekki. Það verður tómlegt að hugsa til þess að sitja ekki í bílnum með þér á aðfangadag, keyrandi út pakka og fara í kirkjugarðinn. Það verður skrítið að fá ekki símhringingu frá þér þegar ég verð þrítugur og það verður sárt að hafa þig ekki við hliðin á mér þegar ég gifti mig. Við áttum svo margt eftir ógert og að upplifa saman. Þessi atriði verða aldrei eins án þín. Þú kvaddir mig allt of snöggt, alltof ungur og án þess að fá tækifæri til að kveðja.

Ég hugsa til símtalsins sem við áttum kvöldið áður en þú kvaddir svo snöggt. Mamma sagði mér að þú hefðir ekki leyft henni að ganga frá dótabílunum hans Rúriks Hrafns þar sem það gæti verið að hann kæmi inn áður en þú skutlaðir okkur út á flugvöll daginn eftir. Það var svo fallegt að fylgjast með þér í afahlutverkinu. Þú fórst alltaf í gott skap þegar Rúrik kom í heimsókn og vildir allt fyrir hann gera. Það var dýrkun á báða bóga. Ég hafði svo gaman af því að gamli orðaforðinn þinn, sem þú notaðir á mig þegar ég var barn kom aftur. Orð eins og hukkali (þurrka), pjassl (skítugt), gústalagúss (óútskýrt), burrinn (bíll), og brauta (garðslanga) hafa verið notuð mikið á mínu heimili síðustu vikur.

Rúrik babblar mikið við myndina af þér, það er stundum eins og þú sért að svara honum því hann heldur ótrauður áfram að tala. Myndin af þér fær reglulega boð um cheerios og hann hefur gaman af því að keyra bíla fyrir framan myndina þína. Daginn sem þú kvaddir okkur, kom hann inn heima hjá ykkur mömmu og kallaði amma Nonna, amma Nonna, amma Nonna (hans útgáfa af ömmu og afa). Rúrik sá mömmu og spurði Hvar afi?. Svörin sem við gátum gefið á þeim tímapunkti voru í formi tára. Einn daginn munum við útskýra þetta allt saman fyrir honum.

Augnablikið, 12. ágúst 2017 var fallegt. Þú hafðir eignast nýjan vin deginum áður. Vin sem átti eftir að ylja og gleðja þig næstu árin, en samt í alltof skamma stund. Eins og ég hef skrifað áður, þá er ég þakklátur fyrir að hafa fest þessi augnablik á filmu. Hamingjan leyndi sér ekki í augunum þínum og átti hún eingöngu eftir að aukast eftir að strákurinn okkar Elísu opnaði sín augu betur. Þið voruð búnir að mynda svo fallegt samband og það er sárast að hugsa til þess að Rúrik muni kannski ekki ná að halda minningunni gangandi. Ég mun gera allt í heiminum til þess að þessi minning muni lifa, og það sterkt.

Pabbi, afi og tengdapabbi. Þungu sporin okkar koma daglega, spölur okkar er langur og erfiður. Þú ert kominn á fallegan stað, með góðu fólki sem þykir vænt um þig. Á sama tíma er söknuðurinn og nýi raunveruleikinn eitthvað sem við hin þurfum að læra að lifa við, og er það kannski stærsta áskorunin mín.

Elsku pabbi, takk fyrir allt sem þú hefur veitt mér og mínum. Takk fyrir samfylgdina og stuðninginn í gegnum árin. Pabbi, þetta er kveðjan mín, ég elska þig.



Góða nótt.



Þinn,

Dagur.