21. janúar 1995 | Daglegt líf (blaðauki) | 232 orð

Súrsað hvalrengi og reykt hrefnukjöt

Súrsað hvalrengi og reykt hrefnukjöt ÞAÐ er vandkvæðum bundið að fá súrsað hvalrengi en hann Pálmi Karlsson í Fiskbúðinni okkar í Kópavoginum á nóg af því.

Súrsað hvalrengi og reykt hrefnukjöt

ÞAÐ er vandkvæðum bundið að fá súrsað hvalrengi en hann Pálmi Karlsson í Fiskbúðinni okkar í Kópavoginum á nóg af því. Hér á árum áður var alltaf súrsað hvalrengi með þorramatnum og það jafnvel borðað allan ársins hring. Með hvalveiðibanninu hefur rengið horfið af þorrabökkunum. En hvaðan fær Pálmi sitt hvalkjöt?

"Skepnurnar koma víða af landinu. Hvalur er af og til að slysast í allskonar veiðarfæri og menn reyna að nýta þetta hráefni. Ég vona síðan að hvalveiðar verði leyfðar með vorinu," segir hann.

Pálmi telur að það hafi tekið upp undir hálft ár að súrsa hvalrengið. Hann hreinsar það fyrst, sýður og kælir og setur svo í súrsunarmysu, súrsunaredik og rúgmjöl. Síðan tekur það sinn tíma að súrsa rengið og oft þarf að skipta um súrsunarmysu.

Súrsaðan hvalinn selur hann líka í Kolaportinu um helgina og kílóið er á 1.500 krónur. Pálmi segir að í hundrað manna veislu kaupi fólk gjarnan 6-8 kíló af súrsuðum hval.

Auk súrsaða hvalsins stendur viðskiptavinum til boða að kaupa hjá honum reykt hrefnukjöt. Það er soðið eins og hangikjöt og borðað með kartöflujafningi og tilheyrandi. Að sögn hans gefur það hangikjötinu ekkert eftir, það er fitulaust og selt í netpylsum. Kílóið kostar 890 krónur. Pálmi súrsar ekki bara rengið og reykir hrefnukjötið, hann selur það líka nýtt og frosið. Kílóið er selt á 690 krónur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.