Hrafnhildur Þórdís Pálmadóttir fæddist í Reykjavík 29. desember 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kóparvogi 20. desember 2019.
Foreldrar hennar voru Pálmi Guðmundsson, verzlunarmaður og heildsali, f. 7. desember 1921, d. 18. október 1999 og Kristín Guðmundsdóttir, f. 8. maí 1921, d. 13. október 1972.
Systkini Hrafnhildar eru Guðmundur Yngvi Pálmason rafvirkjameistari, f. 28. júlí 1952 og Hólmfríður Aðalbjörg Pálmadóttir kennari, f. 11. apríl 1958.
Hrafnhildur giftist Einari Einarssyni rafvirkjameistara 17. maí 1969.
Börn Hrafnhildar og Einars eru: 1) Drengur Einarsson, nefndur Pálmi, f. 9. ágúst 1969, d. 10. ágúst sama ár. 2) Stúlka Einarsdóttir, nefnd Klara, f. 7. ágúst 1971, látin sama dag 1971. 3) Einar Kristinn Einarsson múrari, f. 26. september 1973. Unnusta Einars Kristins var Halldóra Anna Hafliðadóttir. Þau skildu. Dætur þeirra eru Hrafnhildur Brynja, f. 28. júní 1994 og Ásdís Birta Einarsdóttir, f. 11. maí 1998. 4) Kristín Björg Einarsdóttir hagfræðingur, f. 12. apríl 1976. Eiginmaður Kristínar er Haukur Þórðarson arkitekt, f. 29. febrúar 1972. Synir þeirra eru Alexander Einar, f. 24. desember 1999, Sólon Þórður, f. 3. september 2008 og Oliver Krummi, f. 6. júlí 2011. 5) Elín Dröfn Einarsdóttir, geislafræðingur og læknanemi, f. 12. júlí 1986. Unnusti Elínar Drafnar er Jonas Himmelev Carlsen forritari, f. 30.12. 1980.
Úför Hrafnhildar fór fram í kyrrþey 30. desember 2019.

Elsku mamma.
Ég veit ekki hversu oft ég í huganum hef hafið skrif á minningargrein um þig undanfarin tvö ár. Svo slæmt var ástandið, aftur og aftur.
Ég hef ekki tölu á hversu oft við fjölskyldan bjuggum okkur undir að nú hlytir þú að vera að kveðja. Og í hvert sinn komu í huga minn allar þær minningar sem við áttum saman.

Alltaf stóðst þú storminn af þér. Með reisn. Án harms og tára.
Mamma, ég heyrði þig aldrei kvarta.

Þegar ég kvaddi þig til að fylgja pabba í aðgerðina vissi ég að líkurnar á því að ég sæi þig aftur á lífi væru litlar.
Ég ákvað að styrkja ykkur pabba í þeirri ákvörðun sem þið höfðuð tekið í sameiningu. Pabbi stóð með þér eins og klettur í gegnum veikindin og hugsaði um þig af alúð og kærleika. Og þú elskaðir pabba ekki síður og hvattir hann til að fara og láta hlúa að sér.
Kveðjustundin var erfið en virðingin fyrir ykkur pabba og þeirri ákvörðun sem þið höfðuð tekið var sterkari í mínum huga en að ég veldi að hika. Því eins og þú sagðir svo oft við mig þegar ég stóð frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum í mínu lífi, Kristín mín, að hika er sama og að tapa. Samband ykkar pabba var ótrúlega sterkt og þið genguð í gegnum svo ótrúlega erfiðleika og sorg við missinn á börnunum ykkar tveimur.
Sorg sem ég veit að þú aldrei lærðir að lifa með.

Fimmtudagurinn 12. desember 2019 mun mér seint úr minni hverfa.
Við áttum dásamlega stund á líknardeildinni þar sem Kór Kársnesskóla söng á líknardeildinni og það var svo fallegt að upplifa þessa stund með þér. Ég átti flug heim sama dag og kom upp í flugstöð nokkrum mínútum fyrir brottför og hljóp hraðar en ég hef nokkurn tíma gert.
Ég vissi að þú vildir að ég kæmist heim til strákanna okkar til að eyða með þeim aðventunni.
Ég vissi að þú vildir að ég næði heim til að aðstoða pabba þegar hann kæmi.
Og á meðan beiðst þú í sterkum örmum Ellu og þeirra sem hana studdu.
Takk, Ella, fyrir að hafa passað upp á mömmu.

Ég passaði upp á pabba. Því það var það sem mamma vildi.

Elsku mamma.
Mínar æskuminningar um þig eru öll lögin sem þú kenndir mér að syngja sem barni. Þau ótal skipti sem þú kenndir mér að valhoppa á mismunandi vegu vítt og breitt um götur Reykjavíkur. Þau ótal skipti þegar við fórum saman í dótabúðir og skoðuðum allar fínu dúkkurnar og létum okkur dreyma um að við ættum þær allar. Þegar vondi kallinn í Miðtúninu reyndi að stela mér og þú hélst mér í faðminum á þér og passaðir mig í lögreglubílnum. Þegar þú sannfærðir mig um að það væri nauðsynlegt að klippa hárið reglulega til að fá fallegt og heilbrigt hár eftir að ég missti mikinn hluta hársins eftir atvikið með vonda kallinum. Þau ótal skipti þegar við gengum Laugaveginn saman og ég fékk að hoppa niður af öllum þrepum sem á vegi mínum urðu. Þegar þú útskýrðir fyrir mér öskupoka sem hengdur var á húfuna mína í bæjarferð á öskudag. Þegar þú hvattir mig áfram í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur.

Elsku mamma.
Á seinni árum eru minningar mínar um þig svo margar. Og þær eiga það flestar sameiginlegt að vera litaðar af minningu um stuðning og traust. Það var sama hvað maður leitaði til þín með. Þú hafðir svör og ráð við öllu. Svör og ráð sem fengu mann til að hugsa sjálfstætt og finna lausnina.

Þú varst einstök manneskja fárra orða. Orða sem alltaf leiddu mig áfram að markmiðinu, hvöttu mig og studdu.

Margar af mínu bestu minningum um þig eru þau ótal ferðalög sem við fórum í saman og ég nú nýt forréttinda af að rifja upp. Og ekki síst hversu góð amma þú varst ömmustrákunum þínum. Það sem þú gast lesið með þeim og sungið með þeim. Og leiðbeint þeim og kennt á uppbyggilegan hátt. Það var ekki af engu að þeir grétu sig í svefn og söknuðu ömmu og afa í þau ótal skipti sem þið ferðuðust heim aftur eftir samverustund með okkur í Kaupmannahöfn og þegar við snérum heim eftir heimsókn til Íslands.

Elsku mamma.

Hetjulegri og óvæginni baráttu þinni er lokið.

Og fyrir mér stendur þú uppi sem sigurvegari.

Elsku mamma.

Nú er sá tími sem við ræddum stundum um að einhvern tíma myndi koma orðinn að veruleika.
Tíminn þegar þú hittir börnin þín tvö sem þú misstir sem ung kona.
Systkini mín sem ég aldrei hitti, en þú kenndir mér að elska frá því ég man eftir mér.
Við ræddum um hve þeir endurfundir væru litaðir blendnum tilfinningum, gleði og missi.
Ég hefði gjarna viljað hafa þig lengur. En á sama tíma er ég svo glöð að systkini mín fái nú að kynnast þér og njóta.

Ég sé þig fyrir mér, umvafða englum. Og veistu hvað.
Þú átt það skilið, svo njóttu.

Virðing og ást af eilífu,

Þín

Kristín.