Guðjón Traustason fæddist í Vestmannaeyjum 23. apríl 1943. Hann andaðist á líknardeild Landspítalans 4. janúar 2020.
Foreldrar hans voru Trausti Guðjónsson frá Skaftafelli í Vestmannaeyjum, d. 2009, og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir frá Gilsfjarðarbrekku, d. 2011. Systkini Guðjóns eru: Halldóra, Kornelíus Símon, Sólveig (látin), Vörður og Ingveldur.
Guðjón kvæntist Guðrúnu Kristínu Erlendsdóttur frá Hamragörðum 23. apríl 1964. Guðrún andaðist 23. desember 2010. Börn þeirra eru: 1) Sigríður Heiðrún, f. 1963 gift Ágústi Ólasyni og eiga þau börnin Heiðrúnu, Óla og Hönnu. 2) Trausti, f. 1965, kvæntur Lísu Maríu Karlsdóttur og eiga þau börnin Guðjón Leví og Brynjar Stein. 3) Erlendur Reynir, f. 1969, kvæntur Guðfinnu Björk Sigvaldadóttur og eiga þau börnin Jónu Kristínu, Dagnýju Lind og Valdísi Evu. Langafabörn Guðjóns eru fjögur.
Síðustu árin deildi Guðjón lífi sínu með Sigríði Sverrisdóttur, f. 1940. Sigríður á Elsu Gunnarsdóttur og hennar börn eru Sigrún og Gunnar. Langömmubörn Sigríðar eru þrjú.
Guðjón ólst upp í Hjarðarholti í Vestmannaeyjum, hann var menntaður vélstjórameistari og vann m.a. hjá Magna í Vestmannaeyjum og síðar hjá Ístaki. Fyrst bjó fjölskyldan í Vestmannaeyjum en eftir gos settust þau að á Hlíðarvegi í Kópavogi. Í Hamralundi, Hamragörðum, bjó Guðjón sér og sínum unaðsreit þar sem hann undi hag sínum best.
Útför Guðjóns verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 13. janúar 2020, klukkan 13.

Margs er að minnast, margs er að sakna.
Laugardaginn 4. janúar voru óveðursský á himni. Vegir voru víða lokaðir og náttúran minnti okkur á að hún hefur sinn gang óháð vilja mannanna og við getum enga stjórn haft þar á. Á þessum drungalega degi birtust önnur dökk ský á andlegum himni sem minntu okkur á að lífið í þessum heimi er Guðs gjöf, fengið að láni í skamman tíma. Góður drengur kvaddi þennan heim eftir baráttu við illvígan sjúkdóm. Guðjón eða Gaui, eins og hann var oftast kallaður, kom inn í líf okkar fyrir um níu árum þegar hann og Sísí urðu ástvinir og fljótt var ljóst að þar var alvara á ferð og þeirra vinskapur var djúpur. Þegar við hugsum til baka þá er það fyrsta sem kemur upp í hugann hvað hann varð á skömmum tíma partur af okkar fjölskyldu og innan skamms var eins og hann hefði alltaf verið með okkur. Gaui varð hluti af okkar lífi og átti sinn stað í fjölskyldunni á öllum okkar fjölskyldustundum. Það fór ekki mikið fyrir Gauja. Hann hafði jafnaðargeð og við minnumst þess ekki að hann hafi nokkru sinni skipt skapi. Já einstaklega ljúfur og góður drengur sem sárt er saknað.
Börnin okkar litu á hann sem afa sinn og barnabörnin kölluðu hann langafa. Hann var einstaklega ljúfur við börnin okkar og langafabörnin sín. Þau fundu þá hlýju sem geislaði frá honum og gerðu sér far um að umgangast hann.

Alltaf var hann tilbúinn að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda og þau eru ófá handtökin þar sem hann hefur lagt okkur og börnum okkar lið, alltaf jákvæður, alltaf tilbúinn og alltaf með lausnir á öllum hlutum.

Með Gauja eignaðist Sísí ekki bara ástvin heldur stóra fjölskyldu í börnum hans, tengdabörnum, barnabörnum og systkinum sem reyndust henni vel. Sérstaklega var sambandið við systkini Gauja og þeirra maka frá fyrstu stundu einstaklega hlýtt og áttu þau með þeim góðar samverustundir bæði hérlendis og erlendis. Þar myndaðist ákaflega dýrmætur vinskapur sem lifir áfram. Þeim verður seint þakkað hversu ástúðlega þau tóku á móti henni í fjölskylduna.
Gaui átti sinn sælureit í Hamralundi og vildi helst hvergi annarstaðar vera. Þar kom í ljós hversu handlaginn hann var og þar var hann búinn að byggja upp yndislegan stað sem gott var að koma á. Synir hans voru óþreytandi við að aðstoða pabba sinn við uppbygginguna og gaman að sjá hversu náið samband þeirra feðga var. Þar var hann í essinu sínu, kominn í vinnugallann sinn og út að vinna hvort sem það var við að smíða, gefa fiskunum eða dytta að bílum eða dráttarvélum (sem hann átti dágott safn af). Við hjónin fengum stundum að dvelja þar í hjólhýsinu og eigum þaðan yndislegar minningar með honum og Sísí.
Já, Gaui var alltaf að og fannst ekki gaman að sitja með hendur í skauti. Þegar orkan fór að þverra fór hann oft í karlar í skúrum þar sem hann dundaði við ýmislegt og naut félagsskaparins. Hann barðist við sjúkdóm sinn af hugrekki, von og trú og aldrei var uppgjöf inni í myndinni til síðasta dags.
Já, margs er að minnast og margs er að sakna. Minningarnar um yndislegan mann verma okkur og hann dvelur nú í húsi með margar vistarverur sem Guð hefur lofað þeim sem trúa.

En komin eru leiðarlok
og lífsins kerti brunnið,
og þín er liðin æviönn
á enda skeiðið runnið.
Í hugann kemur minning mörg
og myndir horfinna daga,
frá liðnum stundum læðist fram
mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst
og tengd því sanna og góða,
og djúpa hjartahlýju og ást
þú hafðir fram að bjóða.
Og hjá þér oft var heillastund,
við hryggð varst aldrei kenndur.
þú komst með gleðigull í mund
og gafst á báðar hendur.

Svo vinur kæri vertu sæll,
nú vegir skilja að sinni.
Þín gæta máttug verndarvöld
á vegferð nýrri þinni.
Með heitu, bljúgu þeli þér
ég þakka kynninguna,
um göfugan og góðan dreng
ég geymi minninguna.
(Höf. ókunnur)

Elsku mamma, tengdamamma og aðstandendur Gauja. Okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jakob og Elsa.