Þórdís Karelsdóttir fæddist 24. október 1932 í Reykjavík. Hún lést á Landspítala Fossvogi 16. mars 2020.
Þórdís var dóttir hjónanna Karels Gíslasonar, f. 1894, d. 1950, og Aldísar Hugbjartar Kristjánsdóttur, f. 1912, d. 1990. Þórdís átti einn bróður, Matthías, f. 1935, d. 2007, og fóstursystur, Ingu Hallgerði Ingibergsdóttur, f. 1937, d. 1990.
Fyrri maður Þórdísar var Kristján E. Kristjánsson, f. 1929, d. 2009, þau skildu. Þeirra sonur var Karel, f. 1950, d. 2014. Maki hans var Þórdís Soffía Friðriksdóttir, f. 1953, d. 1993. Börn þeirra eru Friðrik Ingi og Þórdís.

Seinni maður Þórdísar var Þorbjörn Finnbogason skipstjóri, f. 1926, d. 1999. Dóttir Þorbjörns af fyrra hjónabandi er Jónína, f. 1952, hennar maki er Hjalti Magnússon. Börn Jónínu eru Ingibjörg, Kristín Laufey og Ívar.
Dætur Þórdísar og Þorbjörns eru: 1) Ágústa, f. 1958, hennar maki er Guðmundur Harðarson, börn þeirra eru Þorbjörn, Kristín og Bergsteinn. 2) Hlédís, f. 1962, hennar maki er Valdimar Ólafsson, börn þeirra eru Bergdís, Ólafur Valdimar og Þorbjörn.
Þórdís lærði til hárgreiðslu á Bylgjunni og starfaði við það fyrstu árin. Þórdís var lengi heimavinnandi og starfaði einnig sem ráðskona á barnaheimili, í mötuneyti Búnaðarbankans og mötuneyti Lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu.
Útför Þórdísar fór fram 27. mars 2020 í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Hún mamma fór ekki troðnar slóðir og gerði og upplifði margt sem margar konur af hennar kynslóð gerðu ekki.
Þegar móðir mín skildi við fyrri manninn sinn á sínum tíma þá var það ekki normið og ekki algegnt í þjóðfélaginu að vera ung einstæð móðir og samfélagið leit það ekki sömu augum og gert er í dag. Það var á brattann að sækja en hún stóð stolt og keik. Mamma fann ástina aftur, kynntist pabba og þau hófu búskap á Bugðulæk í Reykjavík. Þau fluttu síðan á Eyrarbakka, þar sem mamma átti ættir að rekja og stóran frændgarð. Þau byggðu hús, pabbi var með útgerð, mamma hugsaði um heimilið, saumaði öll föt á okkur systurnar, bakaði fyrir útgerðina og klippti vini og vandamenn.
Árið 1968 urðu þáttaskil í lífi okkar þegar pabbi þáði starf hjá Sameinuðu þjóðunum við kennslu fiskveiða í Pakistan. Heimsmyndin var önnur í þá daga og lítið hægt að gúggla hluti eða staði. Dvölin í Pakistan var okkur öllum lærdómsrík. Flóð, hvirfilbylur og óeirðir voru daglegt brauð en alltaf höfðu foreldrar mínir að leiðarljósi að tefla ekki í neina tvísýnu og bera virðingu fyrir menningu og siðum í því landi sem við vorum. Mamma lagði sérstaka áherslu á að við værum fulltrúar þjóðar okkar og ættum að kunna okkur og koma vel fyrir. Lítil saga af þessu er að í innanlandsflugi í Pakistan á þessum tíma var boðið nammi fyrir flugtak. Það var litið um lúxusvarning í Pakistan og þetta var mikil dagamunur. Önnur börn í flugvélinni fengu að taka lúkufylli af nammi en það voru skýr fyrirmæli frá mömmu að við máttum í mesta lagi taka tvö stykki. Við fengum oft lof frá flugfreyjunum, en ég hefði nú frekar vilja nammið. Annar staður sem við fjölskyldan dvöldum lengi á var Malasía. Þar naut mamma sín. Hún lærði malasísku, hlustaði á enskt linguaphone, saumaði út, fór á batík námskeið, lærði koparstungur og gerði mörg góð verk. Mamma var listræn. Hún hafði auga fyrir fegurð og hafði gaman af að skapa. Ég man eftir einu skipti í skólanum hjá mér þegar það átti að vera jólasýning. Við áttum að koma fram í þjóðbúningum og syngja jólalag frá heimalöndum okkar. Auðvitað vorum við ekki með íslenskan þjóðbúning með okkur en mamma dó ekki ráðlaus hún tók sig til og saumaði á mig íslenskan búning og hann var ekki síðri en aðrir búningar á sýningunni. Svona var mamma, hún dó ekki ráðalaus.
Mamma kunni þá list að segja frá og hafði gaman að því, pabbi tók mikið af myndum og þegar farið var heim í frí var mamma með slides-sýningu fyrir vini og vandamenn. Mamma þuldi upp nöfn og staði, útskýrði og fólk drakk í sig fróðleik um þessa framandi staði. Eftir áratuga starf hjá Sameinuðu þjóðunum fannst pabba nóg komið. Staðirnir voru ekki orðnir fýsilegir og við stelpurnar komnar á hættulegan giftingaraldur. Við fluttum því heim til Íslands. Þegar heim var komið settist fjölskyldan að í Vogahverfinu í Reykjavík og pabbi hóf fljótlega störf sem veiðieftirlitsmaður hjá Hafrannsóknarstofnun. Mamma sinnti ýmsum störfum í mötuneytum og tók virkan þátt í félagsstarfi Kvennadeildar Slysavarnafélags Íslands. Hún var í húsakaupanefnd sem sá um að kaupa húsnæði fyrir kvennadeildina sem var mikil lyftistöng fyrir félagið.
Sælureitur mömmu var á Eyrarbakka og eftir að hún eignaðist heilsárhús, Brennu 2, var hún þar löngum stundum. Þau pabbi byrjuðu á að taka húsið í gegn og síðan var garðurinn skipulagður. Mamma var með græna fingur og hafi mikinn áhuga á garðrækt og þegar mamma hafði áhuga á einhverju þá var það tekið með stæl, haldin dagbók og teknar endalausar myndir af blómum og mikið spekúlerað. Enda líktist garðurinn frekar skrúðgarði en heimilisgarði. Mömmu þótti mjög gaman að ganga og anda að sér sjávarloftinu á Bakkanum og vildi meina að það væri allra meina bót. Það var oft glatt á hjalla í Brennunni og gestkvæmt og oft teknar nokkrar bertur í brids.
Mamma stóð með sínu fólki, hugsaði um pabba í hans erfiðu veikindum, fór til hans á hverjum degi upp á Landakot og barðist fyrir sinn mann þegar henni fannst læknarnir ekki vera að gera það sem rétt var. Eflaust hefur hún gengið alltof nærri sér þar. Hún stóð einnig þétt við bakið á bróður mínum í öllum hans veikindum og börnum hans eftir að hann dó. Þegar ég fór að hlaða niður börnum á stuttum tíma og vantaði hjálp þá flutti hún til mín og hjálpaði mér í gegnum erfitt tímabil þó hún hefði enga heilsu í það. Ég verð henni ávallt þakklát fyrir það.
Síðustu tuttugu og tvö árin hélt móðir mín heimili í Ofanleiti 25. Þar var hún með lítinn garð, góða íbúð og góða nágranna. Hún stytti sér stundir við bókalestur, bókahlustun, prjónaskap og spilaði endalaust brids við Ómar Sharif í tölvunni og ekki fannst henni verra þegar gesti bar að garði og barnabörnin voru alltaf aufúsugestir.
Mamma átti við heilsuleysi að stríða síðustu ár og reyndust síðustu tvö ár henni einkar erfið. Hún var inn og út af spítala, oft mjög veik en þrátt fyrir allt missti hún aldrei þennan hárfína húmor. Hún gat komið með einhverja litla skemmtilega athugasemd sem létti andrúmsloftið og gerði henni lífið bærilegra. Þegar ég átti afmæli í febrúar síðastliðnum var hún á spítala og var mjög veik. Henni fannst leiðinlegt að hún væri ekki búin að kaupa eitthvað handa mér og var alveg með það á hreinu hvað hún ætlaði að gefa mér; augnskugga, ég hef ekki notað svoleiðis síðan ég gifti mig árið 2001, og tösku undir alla handavinnuna mína, ég hef ekki tekið í handavinnu síðan ég út skrifaðist úr grunnskóla.
Ég vil nota tækifærið og þakka öllu heilbrigðisstarfsfólki fyrir frábæra umönnun á liðnum árum. Alls staðar mætti henni hlýja, virðing og kærleikur.
Takk fyrir allt mamma mín og farðu í friði.
Þín dóttir,



Hlédís Þorbjörnsdóttir.