Páll Skúlason lögfræðingur fæddist 30. júlí 1940 í Bræðratungu í Biskupstungnahreppi, Árnessýslu. Hann lést á heimili sínu á Prestastíg 9, Reykjavík, miðvikudaginn 25. mars 2020.

Foreldrar hans voru Skúli Gunnlaugsson, bóndi í Bræðratungu, f. 11. september 1880, d. 26. desember 1966, og kona hans, Valgerður Pálsdóttir, húsfreyja í Bræðratungu, f. 20. maí 1899, d. 14. mars 1983.

Önnur börn þeirra hjóna, systkini Páls, voru bræðurnir Sveinn, bóndi í Bræðratungu, f. 6. júlí 1927, d. 14. mars 2007, og Gunnlaugur dýralæknir, f. 10. júní 1933, d. 19. nóvember 2017.

Páll varð stúdent frá ML 1960, var við nám í læknisfræði við Háskóla Íslands

1960-1962 (lauk forprófi 1962), var 1962-1964 við nám í bókasafnsfræði við sama skóla (lauk I. og II. stigi) og lauk lögfræðiprófi (cand. juris) frá Háskóla Íslands 8. febrúar 1969.

Framhaldsnám stundaði Páll erlendis, fyrst í Evrópurétti og viðskiptarétti við Europea Instituut hjá Universitet van Amsterdam 1969-1970 (diplóma 1970), nám í félagarétti við Freie Universität í Vestur-Berlín vetrarmisserið 1971-1972 og nám í fjármunarétti, einkum félagarétti, við Lundarháskóla og Kaupmannahafnarháskóla 1977-1978.

Páll varð héraðsdómslögmaður 15. júlí 1969. Á löngum starfsferli vann hann á lögmannsstofu, var fulltrúi hjá ríkisskattstjóra, á bókasöfnum, fulltrúi hjá yfirborgarfógetanum í Reykjavík, stundaði útgáfu- og ritstörf og rak lögmannsstofu, var framkvæmdastjóri Félags menntaskólakennara og stundakennari við Háskóla Íslands. Hann gaf út tímaritið Bókaorminn og síðan tímaritið Skjöld. Meðal rita hans má nefna bækur um sameignarfélög, hlutafélög og einkahlutafélög.

Formaður Dansk-íslenska félagsins var Páll langa hríð.

Hinn 29. desember 1982 giftist Páll Elísabetu Sigríði Guttormsdóttur, stúdent frá MR 1963, BA í ensku, íslensku og frönsku, próf í félagsráðgjöf, deildarstjóra hjá Ráðningarstofu Reykjavíkurborgar, f. 26. maí 1943. Foreldrar hennar voru Guttormur Pálsson, bóndi og skógarvörður á Hallormsstað í Skógum, Vallahreppi, Suður-Múlasýslu, f. 12. júlí 1884, d. 5. júní 1964, og seinni kona hans, Guðrún Margrét Pálsdóttir húsfreyja, f. 24. september 1904, d. 19. nóvember 1968.

Elísabet stundaði nám og lauk prófum við Háskóla Íslands og erlenda háskóla og starfaði víða erlendis.

Páll og Elísabet bjuggu lengst af á Prestastíg 9, Reykjavík. Þau voru barnlaus. Elísabet dó 14. desember 2017.

Útför Páls fer fram í kyrrþey 7. apríl 2020, með þeim takmörkunum sem fylgja farsóttinni í þjóðfélaginu. Jarðsett verður í Bræðratungukirkju í Biskupstungum sama dag. Minningarathöfn verður haldin síðar.

Kynni okkar Páls hófust haustið 1956 þegar við settumst í 1. bekk Menntaskólans á Laugarvatni (ML) ásamt rúmlega 20 öðrum. Þennan vetur dvaldist karlpeningurinn í Björkinni en næsta vetur var rúm fyrir okkur í heimavistinni í aðalbyggingu skólans og þar vorum við næstu þrjá veturna ásamt bekkjarsystrum okkar, sem voru fyrir öryggis sakir aðskildar frá okkur með læstum dyrum um nætur! Þetta var á frumbýlingsárum skólans og húsnæði af skornum skammti og voru fjórir í flestum herbergjum. Hafði ég raunar vanist slíku í landsprófsbekk í Héraðsskólanum árið áður og víst ekki óalgengt að slíkt væri upp á teningnum í heimavistarskólum landsins á þessum tíma. Tvo vetur deildum við Páll herbergi með tveimur félögum, en þegar stúdentsveturinn gekk í garð var Páll skipaður stallari skólans og annar herbergisfélagi ármaður, og fylgdi þeim embættum sá lúxus að búa á tveggja manna herbergi. Fengum við sem eftir vorum þá mann úr öðru herbergi til liðs við okkur og voru þá þrír á því herbergi einnig.





Það fór vel á með okkur herbergisfélögunum og hefur engan okkar rekið minni til að risið hafi að heitið geti ágreiningur milli okkar, hvað þá að nokkur hafi verið lagður í einelti.




Páll var dagfarsprúður maður. Hann átti létt með nám og var menningarlega sinnaður. Það var því að vonum að hann var kosinn formaður menningarnefndar skólans. Sem slíkur tók hann upp á því að fara með mig við annan mann til Böðvars Magnússonar, sem látið hafði land undir skólana á sínum tíma og sat nú í hárri elli á staðnum, og fá hann til að kenna okkur rímnalög (stemmur). Síðan var rímnakveðskapur uppistaðan í einni kvöldvöku skólans.
Páll lagði fyrir sig lögfræði í Háskóla Íslands. Okkur félögum hans kom það nokkuð á óvart. Enda þótt hann hefði verið í stærðfræðideild (og við þriðja mann unnið að smíði geigerteljara stúdentsveturinn), fannst okkur að hann mundi eiga best heima í norrænu deildinni. Löngu seinna barst þetta val í tal milli okkar Páls og sagði hann þá að sökum feimni hefði hann ekki getað séð sig sem kennara.
Ekki er mér kunnugt um annað en að Páll hafi staðið sig vel í lögfræðináminu. Eftir að því lauk sinnti hann ýmsum störfum á sviði lögfræðinnar, varð héraðsdómslögmaður og sótti framhaldsnám erlendis. Samskipti okkar voru ekki mikil á þessum árum; sjálfur fór ég í nám til Danmerkur haustið eftir stúdentspróf og var þar samfleytt í 11 ár. En þegar Páll tók að sér formennsku í Dansk-íslenska félaginu fékk hann mig til að setjast í stjórn þess. Þetta samstarf stóð með stuttu hléi í tugi ára. Páll sinnti þessu starfi af lífi og sál og hafði allar klær úti í fjáröflun til að halda starfseminni gangandi. Voru á þessum árum haldnir margir menningarviðburðir tengdir samskiptum landanna í fortíð og nútíð og fjallað um dvöl íslenskra fræðimanna, listamanna og stúdenta í Danmörku fyrr og síðar. Átti Páll hugmyndina að nánast öllum þessum atburðum, og okkar hinna í stjórninni var að fallast á þær með örfáum ábendingum og taka þátt í framkvæmd þeirra. Þarna komu fram margir innlendir og danskir listamenn og menningarfrömuðir. Þegar Páll frétti af segulbandsupptöku á söng tvöfalds kvartetts Íslendinga í Kaupmannahöfn undir stjórn Axels Arnfjörðs frá árinu 1963 linnti hann ekki látum fyrr en honum hafði tekist að grafa upp spóluna og koma henni út á geislaplötu.
Á þessum árum stóð Páll fyrir útgáfu nokkurra bóka á dönsku, m.a. Islandske folkesagn og Min fars smukke land, með þýddum ritgerðum, smásögum og söguköflum eftir íslenskra höfunda, og Danmarks dejligst vang og vænge með ljóðum sem íslensk skáld höfðu ort á dönsku, m.a. Jónas Hallgrímsson og Þórbergur Þórðarson.
Lokaspretturinn í starfi Páls sem formanns var svo þegar félagið varð 100 ára. Á því ári voru haldnir viðburðir í samvinnu við önnur félög, svo sem Verkfræðingafélag Íslands, og í Listasafni Íslands var haldin sýning á málverkum listamanna sem höfðu numið eða dvalist í Danmörku. Vegleg hátíðarsamkoma var svo haldin í Norræna húsinu. Með stuðningi íslenska sendiherrans í Danmörku tókst Páli að koma því til leiðar að Jóakim Danaprins kæmi á hátíðina ásamt spúsu sinni, Marie.
Skömmu eftir þetta lét Páll af formennsku, enda starfsþrekið farið að dvína. Þá var og kona hans, Elísabet Guttormsdóttir, sem verið hafði honum stoð og stytta, komin á sjúkrahús og átti ekki afturkvæmt þaðan. Um sama leyti hætti Páll útgáfu tímaritsins Skjaldar, sem hann hafði gefið út um áratuga skeið (fyrst undir nafninu Bókaormurinn) og kynnt sem málgagn sitt. Þar hafði birst margvíslegt efni tengt menningu og listum og skemmtileg viðtöl.
Páll var áreiðanlega vel að sér í lögfræði og það gat verið gott að leita aðstoðar hans í þeim efnum. Hann rak um skeið lögfræðistofu í Hafnarstræti 16. Þangað var gott að koma, ekki síður eftir að hann lauk þeim starfsferli og helgaði sig öðrum málum. Þar mátti oft hitta góða menn að máli.
Ég hygg að áhugi Páls á lögum hafi miklu fremur verið fræðilegs eðlis en að hann hafi haft gaman af að standa í málarekstri. Allt fram undir það síðasta var hann að fást við þessi fræði. Hinn 23. janúar sl. flutti hann erindi á vegum öldungadeildar Lögfræðingafélags Íslands um rannsóknir sínar á 15. grein mannhelgisbálks Jónsbókar.
Páll hafði metnað en óframfærni hans var honum fjötur um fót. Hann átti í fórum sínum efni sem var vel fallið til doktorsritgerðar. Þegar lagt var að honum að láta verða af ritun slíkrar var svar hans: Gaukur (Jörundsson) sagði: Þú hefur allt nema kjarkinn. Svo var það ekki rætt frekar.
Þótt bannað væri að hafa vín um hönd í ML fór það svo að þar drakk ég fyrsta sopann. Þá þegar held ég að Páll hafi verið kominn á bragðið og síðan átti hann og Bakkus skap saman. Það var gaman að gleðjast með Páli á góðri stundu og flugu þá mörg snjallyrðin. Síðar varð Bakkus þó fullaðsópsmikill í samskiptum þeirra og kom æ oftar fyrir að Páll naut sín varla nema í fylgd hans. Þá komst andinn oft á flug og gat hann stundum ekki á sér setið að veita honum símleiðis til vina og kunningja. Voru þá sögð deili á mönnum og málefnum og einatt rifjuð upp gömul atvik frá skólaárunum, sem sum hver lágu í þagnargildi þess utan. En á ég að segja þér svolítið? var þá oft viðkvæðið. Allt var þetta í góðu og aldrei var mér álasað, miklu fremur átti hann það til að hrósa mér í hástert og gat ég ekki að því gert að þykja lofið gott, vissi að það var fölskvalaust. Og reyndi að gjalda líku líkt; sem var auðvelt.
Ég mun sakna Páls Skúlasonar.

Eysteinn Pétursson.