Lárus Sigfússon fæddist á Stóru-Hvalsá í Strandasýslu 5. febrúar 1915. Hann lést á Landspítalanum 13. maí. 2020.

Foreldrar Lárusar voru Sigfús Sigfússon, f. 7.8. 1887, d. 29.1. 1958, og Kristín Gróa Guðmundsdóttir, f. 8.10. 1888, d. 15.2. 1963.
Lárus var þriðji í röð 14 systkina en þau eru nú öll látin. Systkini hans í aldursröð; Guðmundur Sigfússon, Hans Hallgrímur Sigfússon, Anna Helga Sigfúsdóttir, Steingrímur Matthías Sigfússon, Salóme Sigfúsa Sigfúsdóttir, Guðrún Sigríður Sigfúsdóttir, Eiríkur Sigfússon, Garðar Sigfússon, Haraldur Gísli Sigfússon, Sólbjörg Sigfúsdóttir, Guðbjörg María Sigfúsdóttir, Salóme Sigfríður Sigfúsdóttir og Þorbjörn Sigmundur Sigfússon.
Lárus eignaðist sex börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Kristínu Hannesdóttur, f. 2.11. 1917, d. 1.12. 2008. Börn Lárusar og Kristínar eru Sverrir Lárusson, f. 16.9. 1937, d. 12.9. 1998, Gréta Kristín Lárusdóttir, f. 29.1. 1941, Indríður Hanna Lárusdóttir, f. 14.9. 1944, Ingunn Erna Lárusdóttir, f. 11.1. 1949, d. 11.2. 2018, Sigfríður Lárusdóttir, f. 8.1. 1951, og Svanur Sigurjón Lárusson, f. 7.8. 1952. Afkomendur Lárusar og Kristínar eru vel á annað hundrað. Lárus skilur eftir sig sambýliskonu til margra ára, Kristínu Gísladóttur.
Lárus hóf búskap á Kolbeinsá í Hrútafirði árið 1937 og var grenjaskytta í Bæjarhreppi. Haustið 1946 varð hann landpóstur og gegndi því starfi til ársins 1956, fyrst á hestum, en síðar á bíl. Ferðirnar hans tóku í besta falli 5 daga en urðu oft 6-7 ef var ófærð. Eftir erfiði veikindi árið 1956 ákvað hann að bregða búi, flutti Reykjavíkur og hóf að vinna hjá Sambandinu árið 1957. Frá áramótum 1957-1958 starfaði hann sem leigubílstjóri hjá Bifreiðastöð Steindórs og síðar hjá Bæjarleiðum. Hann gerðist svo ráðherrabílstjóri og sinnti því starfi í 21 ár. Hann keyrði meðal annarra Kristján Eldjárn, Halldór Sigurðsson, Steingrím Hermannsson, Kjartan Jóhannsson, Einar Ágústsson, Sverri Hermannsson og Þorstein Pálsson.
Þegar þessu tímabili lauk keypti Lárus jörðina Hellishóla í Fljótshlíð og bjó þar í nokkur ár með Svani syni sínum og Sigurborgu tengdadóttur sinni. Eftir að Lárus hætti búskap á Hellishólum hélt hann áfram að halda hesta.
Lárus var með ökuréttindi fram undir hundrað ára afmælið, eignaðist fyrsta bílinn 1933 og þann síðasta 2015.
Síðustu árin bjó Lárus við Hvassaleiti í Reykjavík með sambýliskonu sinni, Kristínu Gísladóttur.
Útför hans fer fram í kyrrþey.

Lárus Sigfússon fæddist á Stóru-Hvalsá í Hrútafirði. Var hann þriðji í röðinni af fjórtán börnum hjónanna Kristínar Gróu Guðmundsdóttur og Sigfúsar Sigfússonar. Öll náðu börnin fullorðinsaldri, utan ein stúlka, Salóme, sem lést tveggja mánaða gömul úr kíghósta. Lárus eða Lalli eins og hann var alltaf kallaður er síðasti þeirra systkina að kveðja þennan heim.
Í gegnum árin sagði hann mér eitt og annað sem á dagana hafði drifið og m.a. að fyrsta minning Lalla var frá frostavetrinum mikla 1918 en þá lagði allan Hrútafjörð. Allar vörur voru uppurnar á Borðeyri og var því efnt til sleðaferðar til Hvammstanga frá Stóru-Hvalsá. Farið var með hesta og sleða þvert yfir Hrútafjörðinn, Heggstaðanes og Miðfjörð til Hvammstanga að sækja vörur. Lalli mundi þegar þeir voru að búa sig af stað og heyrði marrið í snjónum eftir meiðana á sleðunum.
Í æsku Lalla var farandkennsla og gengu börn á milli bæja. Skólinn var mánuð á hverjum stað, varð Lalli læs fimm ára. Reykjaskóli var stofnsettur 1931. Ekki rúmaði skólinn alla sem um sóttu um. Lán Lalla var að séra Jón Guðnason, prestur á Prestbakka, fékk hann til að vera hjá sér að vorlagi. Sinnti Lalli selveiði og sá um skepnurnar. Séra Jón sá svo til þess að hann komst í Reykjaskóla um haustið.
Strax sem barn hafði Lárus ákaflega gaman af hestum og fór snemma að tolla á baki. Foreldrar hans áttu mjög góða hesta og hefur það hugsanlega eflt áhugann. Hann var alltaf á hestbaki ef hann hafði tækifæri til.
Fyrsta hestinn eignaðist hann þegar hann var vetrarmaður á Heggstöðum í Miðfirði, veturinn eftir ferminguna. Hann hafði fengið hnakk í fermingargjöf frá foreldrum sínum, hafði yndi af hestum og keypti rauðan fola á fimmta vetri.
Eitt sinn fóru þeir þrír saman, Lalli, Hansi bróðir hans og Jón á Kjörseyri austur í Miðfjörð að kaupa hesta og fóru með þá vestur á Barðaströnd og seldu. Þetta var þeirra sumarfrí og mikil skemmtun.
Konuefni sínu, Kristínu Hannesdóttur, kynntist Lalli á skólaárum sínum. Hún var vestan úr Dölum. Kristín réðst norður í Bæjarhrepp í vist og giftu þau sig 1939. Það var kallað brúðkaup aldarinnar því þarna voru gefin saman fimm hjón og skírð þrjú börn í sömu athöfninni.
Lalli og Mundi bróðir hans bjuggu félagsbúi fyrstu árin. Þurftu þeir fjóra dráttarhesta og sex hesta undir heybönd. Hestasláttuvél var notuð á heimatúnið. Tveir hestar voru notaðir við sláttuvélina.
Sá hestur sem var Lalla einna kærastur og ákaflega mikils virði var enginn gæðingur. Hesturinn hét Skuggi, var brúkunarhestur, sterkur og traustur. Hann notaði Lalli lengst af í grenjaleitir og fór iðulega á honum einhesta.
Haustið 1946 hóf Lalli starf sem póstur og gegndi því starfi til ársins 1956. Fyrstu árin sótti hann póstinn inn að Stað í Hrútafirði. Oftast var pósturinn á tveimur töskuhestum en stundum urðu þeir þó þrír. Lalli fór að heiman inn að Stað og gisti þar fyrstu nóttina. Morguninn eftir fór hann heim eða út að Guðlaugsvík. Staðirnir sem Lalli afgreiddi póst til fyrsta daginn voru Borðeyri, Bær og Guðlaugsvík. Næstu daga fór hann að Óspakseyri, Gröf, Stóra-Fjarðarhorni, Kirkjubóli og Hólmavík.
Misjafnt var hvenær Lalli gat lagt af stað til baka frá Hólmavík en oftast var það um hádegi á þriðja degi og komst hann þá að Kirkjubóli og gisti þar. Daginn þar á eftir heim á Kolbeinsá og svo síðasta daginn inn að Stað.
Ferðin tók fimm til sex daga og var farið hálfsmánaðarlega.
Lalli lét smíða tveggja hesta sleða og notaði hann ef færi var, fannst það betri kostur og léttara fyrir hestana. Nýjan Willys-jeppa keypti hann 1947 og fór á honum í póstferðirnar ef hann mögulega gat. Með því sparaðist heill dagur ef vel gekk. Oftast gat hann notað jeppann inn Hrútafjörðinn og fór svo með hestana norður.
Á þessum árum var Lalli líka grenjaskytta í sveitinni. Grenjaskyttur höfðu ákveðið svæði sem þær sáu um. Svæði Lárusar var allur Bæjarhreppurinn. Oftast var Mundi bróðir hans með honum á grenjum. Fyrir kom að Lalli fékk einskonar hugboð og sagði þá gjarnan við þann sem með honum var á greninu að hann ætlaði aðeins að færa sig. Var þetta svo áberandi að Mundi sagði að það brygðist ekki að þá kom Lalli með tófu til baka.
Lalli var 12 ára þegar hann lá fyrst á greni. Var hann oft einn í grenjaleit því Mundi bróðir hans og drengirnir þeirra, þeir Sverrir og Hilmar, þurftu að sinna selveiðinni. Þurftu þeir að verka skinnin, taka netin úr sjó, hreinsa þau og þurrka. Selveiðin hófst um Jónsmessuleytið og stóð tvær til þrjár vikur. Oft voru þeir bræður með um tuttugu net.
Árið 1953 veiktist Lalli af heilahimnubólgu og var lengi að ná sér. Var eiginlega þannig í tvö ár að hann gat ekki unnið neina erfiðisvinnu og treysti sér ekki lengur til að vinna við búið. Þá seldi hann jörðina Hilmari, bróðursyni sínum, og fluttist með fjölskylduna í Kópavog.
Þar keypti Lárus hálfbyggt hús sem hann svo lauk við að byggja. Hann fór að vinna við Reykjavíkurhöfn en var þar ekki lengi og upp úr áramótunum 1957 fór hann að vinna sem sölumaður hjá Sambandinu.
Lárus hóf leigubílaakstur um áramótin 1957-58. Byrjaði að keyra um helgar hjá Steindóri og vann líka hjá Sambandinu. Steindór átti alla bílana á stöðinni. Yfirleitt var nóg að gera um helgar þegar samkvæmislífið var í hámarki. Árshátíðir voru haldnar upp úr áramótunum og fínustu hátíðirnar voru haldnar á Hótel Borg og Hótel Sögu sem voru þá stærstu staðirnir. Pressuböllin og árshátíð Stangveiðifélagsins þóttu flottastar. Þegar Glaumbær tók til starfa var mikið að gera. Glaumbæ var breytt í samkomuhús, en hafði áður verið frystihúsið Herðubreið.
Þegar Lalli fékk sitt atvinnuleyfi á leigubíl fór hann að keyra frá leigubílastöðinni Bæjarleiðum. Seinna gerðist Lalli ráðherrabílstjóri og starfaði við það í 21 ár. Var hann með leigubílinn líka og hafði stundum bílstjóra á honum. Lalli keyrði m.a. Kristján Eldjárn forseta, Halldór Sigurðsson, Steingrím Hermannsson, Kjartan Jóhannsson, Einar Ágústsson, Sverri Hermannsson og Þorstein Pálsson. Óhjákvæmilega verða ráðherrar að treysta bílstjórum fyrir ýmsu. Það var góður og mikill trúnaður milli Lalla og þeirra sem hann ók.
Þegar þessu tímabili lauk keypti Lalli jörðina Hellishóla í Fljótshlíð og bjó þar í nokkur ár með Svani syni sínum og Sigurborgu Óskarsdóttur, tengdadóttur sinni. Eftir að Lalli hætti búskap á Hellishólum var hann áfram með hesta en hætti hestamennskunni nokkru seinna.
Lárus hefur átt marga bíla um ævina og oftar en ekki fleiri en einn í einu. Það var með bílana eins og hestana, Lárus hafði gaman af að selja, kaupa og braska með þá. Þegar hann seldi síðustu bílana tók hann nýjustu tækni í sína þjónustu og fór eftir það um á rafmagnsknúnu farartæki.
Eitt var það í fari Lárusar sem vert er að nefna og það er hve bóngóður hann var. Ef Lárus var beðinn um eitthvað þá svaraði hann því játandi ef hann átti nokkurn möguleika á að sinna bóninni. Hann svaraði aldrei að hann ætli að athuga eða reyna eða ef hann geti. Hann svaraði annaðhvort með já eða nei og það stóð.
Þó að Lárus hafi alla tíð verið kappsamur og duglegur til handa var hann einnig mikill hugsuður. Hann samdi m.a. textann Nóttin og þú við lag Steingríms bróður síns. Eitt sinn er hann var að handmoka Willys-jeppann upp úr snjóskafli fyrir ofan Ljótunnarstaði í Hrútafirði, þá samdi hann á meðan ljóðið Heim, heim.

Nóttin og þú

Þú ert allt sem ég á,

ást mín og þrá

með augun blá.

Nótt, kom þú nú hljóð,

af kærleikans glóð,

kvikar órótt mitt blóð.



Nótt, hljóðlát og hlý,

hrek þú burt ský,

vektu vorblóm á ný.

Nótt, drjúpi nú döggin þín,

döggvist uns sólin skín,

ást mín.



Þú, þú ert blíð eins og blær,

björt, björt sem nýfallinn snær.

Ó, ó hve þú ert mér kær.

Þú og ég, nú er nótt,

nálgast dulúðin hljótt.



Heim heim

Heim, heim til þín, mín hjartans vina kær,

minn hugur leitar hverja vökustund.

Hvort andar vorsins mildi, blíði blær

eða bitur vetrarstormur fer um grund.



Heim, heim til þín, mín hjartans dýpsta þrá

er helguð þér og lífsins innstu glóð.

Í mildum hugblæ töfratónum frá

ég túlka þér mín bestu ástarljóð.



Ég elska þig og allt sem á ég til

og er mér heilagt vil ég gefa þér.

Á milli lífs og hels má brúa bil,

ef birta kærleikans um hug vorn fer.



Hún leiðir okkur lengra en brautin nær

og lætur okkur nýja vegi sjá.

Og þaðan hjartans innsti gróður grær

og gefur frjómagn lífsins dýpstu þrá.



Seinna sömdu þeir bræðurnir Lalli og Halli lag við þetta ljóð. Lárus hefur ort fleiri góða texta og einnig samið lög.
Í mörg ár hafa þau búið saman Lalli og Kristín Gísladóttir í Hvassaleiti 56-58 í Reykjavík. Það var afskaplega gott og gaman að heimsækja og tóku þau alltaf höfðinglega á móti gestum. Kristín er ættuð vestan úr Dalasýslu og við kynni er hún hlý og skemmtileg manneskja. Við hjónin höfðum fyrir sið seinustu árin sem við rákum Frum að bjóða þeim Lalla, Kristínu og Halla í bollukaffi á bolludaginn og eigum góðar minningar um þær samverustundir enda margt spjallað og mikið hlegið.
Núna þegar vorið og sólin kveikja lífið og litina í náttúrunni kveð ég Lalla frænda minn og vona að litirnir hinum megin taki á móti honum enn fegurri og bjartari en hér eru. Kveð ég hann og þakka af öllu hjarta og með söknuði fyrir hverja þá stund sem við áttum saman.
Við Gunnhildur vottum ástvinum okkar dýpstu samúð.

Finnur Eiríksson.