Hestakona Rán Flygenring í Gryfjunni. Hún hefur bæði gaman af því að fara á hestbak og teikna hesta.
Hestakona Rán Flygenring í Gryfjunni. Hún hefur bæði gaman af því að fara á hestbak og teikna hesta. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Rán Flygenring, einn þekktasti teiknari Íslands, veit sem er að það er virkilega erfitt að teikna hest.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Rán Flygenring, einn þekktasti teiknari Íslands, veit sem er að það er virkilega erfitt að teikna hest. Rán tekst nú á við þá áskorun með opinni vinnustofu í Gryfjunni í Ásmundarsal sem ber yfirskriftina Erfitt að teikna hest , mætir þangað alla þá daga sem safnið er opið og leyfir gestum að virða afraksturinn fyrir sér og spjalla við hana, hafi þeir áhuga á því. Vinnustofan hófst 4. maí og lýkur 20. júní og verða þá væntanlega allir veggir þaktir teikningum Ránar af hestum.

Fyrst fuglar, nú hestar

Rán er að ræða við gest þegar blaðamann ber að garði og ljóst er að truflanir eru og verða tíðar í hinni opnu vinnustofu. Hún tekur þeim truflunum þó með bros á vör.

En hvers vegna ákvað hún að teikna hesta vikum saman? Jú, fyrir þremur árum kom út bók hennar og Hjörleifs Hjartarsonar, Fuglar , helguð fuglum Íslands og næst á dagskrá er bókin Hestar . Hún fjallar um íslenska hestinn og hvernig hann hefur mótað bæði land og þjóð frá landnámi. Munu myndirnar sem Rán vinnur nú að í Gryfjunni prýða bókina.

Rán bendir á að fuglabókin sé strangt til tekið ekki fræðibók heldur bók sem hafi að geyma ýmsan fróðleik, sögur og skemmtilegt og áhugavert efni tengt fuglum landsins. Ætlunin sé að gera svipaða bók um íslenska hestinn, bók sem ætlað sé að ná ekki aðeins eyrum og augum áhugamanna um dýrið heldur einnig þeirra sem hafa lítinn og jafnvel engan áhuga á því.

Þarfasti þjónninn

„Hjörleifur er búinn að skrifa, ég er að myndlýsa og svo brýt ég textann svolítið upp, vinn hann inn í myndir og hengi beint upp á veggina. Fólk getur komið hingað, kíkt í hestabækur, skoðað og fengið um leið innsýn í hvernig bók verður til,“ útskýrir Rán fyrir blaðamanni og les upp textabrot úr bókinni sem finna má uppi á vegg innan um teikningar og skissur: „Í meira en þúsund ár hefur íslenski hesturinn verið einstakur meðal allra heimsins hrossa. Í meira en þúsund ár hefur hann þraukað í köldu landi með kaldlyndu fólki sem hann hefur þjónað af einstakri þrautseigju og lítið þegið að launum fyrir utan nafnbótina „þarfasti þjónninn“.“

Hlutverk íslenska hestsins er gjörbreytt frá því sem áður var, nú er hann ekki lengur þarfasti þjónninn en Rán segir að í bókinni verði farið enn lengra aftur í tímann en til landnáms Íslands, allt aftur til hellamálverka og þess tíma er hinn vitiborni maður fékk þá flugu í höfuðið að temja hest.

Þrjár leiðir

Teiknistíll Ránar ætti að vera flestum kunnur því hún hefur myndlýst fjölda bóka og sinnt margvíslegum teikniverkefnum, eins og sjá má á vefsíðu hennar ranflygenring.com. Rán er einnig rithöfundur því í fyrra kom út bók hennar um Vigdísi Finnbogadóttur sem hún bæði skrifaði og myndlýsti.

Rán er þaulreyndur teiknari en segir þó alltaf áskorun að teikna hest. „Ég sé eiginlega þrjár leiðir í þessu,“ segir hún um ólíkar nálganir teiknara á viðfangsefnið. „Það er þessi anatómískt rétti hestur sem ég ætla ekkert að reyna við, það er á færi margra sem gera ekkert annað en að teikna hest anatómískt rétt. Svo er það algjör stílísering og þá getur maður gert alls konar grín með form hestsins sem verður mjög abstrakt,“ útskýrir Rán og bendir á nokkrar spaugilegar teikningar af hestum uppi á vegg. „Þriðja leiðin er sú sem mig langar að ná en það er hestur með sterkan persónuleika og sérstaklega þennan íslenska karakter.“

Halldór meistarinn

Rán bendir blaðamanni á dæmi þar um og segir Halldór Pétursson hafa náð þessum karakter fullkomlega í verkum sínum, eins og sjá má til dæmis í hinni sígildu barnabók Helgi skoðar heiminn . „Það kemst enginn með tærnar þar sem hann hefur hælana,“ segir Rán um Halldór.

Hún segist hafa leitað að þessum karakterum fuglanna í fuglabókinni fyrrnefndu. Vilji fólk vita hvernig tiltekinn fugl líti út geti það gúgglað hann en hún hafi aftur á móti viljað túlka fuglinn, sýna karakter flórgoða, svo dæmi sé tekið. „Það sama á við um þessa bók, ég leyfi stílnum eða tólunum að ráðast af því sem mig langar að segja frá hverju sinni,“ útskýrir hún.

Vill helst vakna kl. 5

En hvernig er dæmigerður vinnudagur hjá Rán, þarf hún að komast í teiknistuð með einhvers konar upphitun eða hvaða hátt hefur hún á?

„Ég er algjör A-manneskja, vandræðalega mikil. Ég vil helst vakna klukkan fimm, fara í sund og setjast svo niður og byrja að teikna,“ svarar hún kímin og bætir við að hún vilji helst vera laus við áreiti á borð við tölvupóst og síma fram að hádegi. „Ég er ekki hörð á því en ef maður vill komast í flæði er gott að hafa þetta þannig.“ Rán segir opna vinnustofu samt fína áskorun og skemmtilega. „Svo er náttúrlega rosalega gott að hafa svona skýran ramma utan um verkefni. Hér er ég bara að teikna og hugsa um hross,“ segir hún.

Farartæki fyrir sögur

Rán lærði grafíska hönnun og er því ekki lærð í myndlýsingu, því sem kallað er illustration á ensku. „Ég kem svolítið að þessu út frá hönnunarhugsuninni og sé teikninguna næstum eins og farartæki fyrir sögur eða einhvers konar skilaboð,“ segir hún. Því taki hún helst eftir því í verkum annarra teiknara hvernig þeir noti myndir til að segja eitthvað frekar en stíl þeirra eða efnunum sem þeir noti í verkin.

Rán er að lokum spurð að því hvort hún muni ekki á endanum fá nóg af því að teikna hesta og svarar hún nei, síður en svo. „Æfingin skapar meistarann,“ segir hún brosandi og greinilega ekki af baki dottin.