Svavar Geir Tjörvason fæddist 22. maí 1942 í Keflavík. Hann lést 11. júlí 2020. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Tjörvi Bjarni Kristjánsson sjómaður, f. 1.7. 1917, d. 24.6. 1971, og María Guðgeirsdóttir húsmóðir, f. 10.6. 1918, d. 26.1. 2007. Bræður Svavars eru Kristján, f. 14.1. 1941, og Sævar, f. 31.1. 1948.

Hinn 30.11. 1963 kvæntist Svavar Sóldísi Björnsdóttur, f. 22.6. 1944. Börn þeirra eru: 1) Hrafnhildur, f. 9.5. 1963, maki Guðmundur Óskarsson, f. 1960, börn þeirra: Aron Geir, f. 1995, unnusta Lillý Ösp Sigurjónsdóttir, og Tinna Björk, f. 1998. Börn af fyrra hjónabandi Guðmundar eru: Óskar Frank, f. 1982, og Auður Bryndís, f. 1988, d. 2009. 2) Kjartan, f. 5.4. 1966, maki Mai-Lill Pedersen, f. 1966, barn þeirra: Elin Rahel, f. 2001. 3) María, f. 17.2. 1970, maki Vilhjálmur S. Kjartansson, f. 1966, börn þeirra: Fanney Halla, f. 2000, Védís Katla, f. 2002, og Ásta Lovísa, f. 2006. 4) Bryndís, f. 27.7. 1979, barnsfaðir Sigurður Þór Erlendsson, f. 1974 d. 2018, börn þeirra: Týr Huginn, f. 2008, og Iðunn Freyja, f. 2009. Barn Sigurðar frá fyrra hjónabandi Thor Michael Delahanty f. 1997, núverandi sambýlismaður Tomas Hallqvist, f. 1973.

Svavar var borinn og barnfæddur Keflvíkingur, kominn af þurrabúðarfólki og sjómönnum. Þegar hann var 15 ára hóf hann nám við múrverk hjá Guðmundi Þengilssyni í Keflavík, hann lauk sveinsprófi og öðlaðist meistararéttindi. Svavar starfaði við múrverk alla sína tíð til eða til 67 ára aldurs, bæði hjá fyrirtækjum en einnig rak hann um tíma sitt eigið fyrirtæki og var í stjórn Múrarafélags Suðurnesja.

Svavar var ötull garðyrkjumaður ásamt konu sinni og af elju ræktuðu þau garðinn sinn við hús sitt Langholti 19 og hlutu tvívegis verðlaun fyrir hann. Í seinni tíð tók Svavar virkan þátt í heilsueflingu eldri borgara í Keflavík undir leiðsögn Janusar Guðlaugssonar með góðum árangri.


Svavar var mikill Keflvíkingur og vildi hvergi annars staðar vera.

Útför Svavars Geirs fer fram frá Keflavíkurkirkju 28. júlí og hefst athöfnin klukkan 13.

Af hverju grætur amma? Amma Svavars var rammskyggn og þegar sambýlismaður hennar fórst í aftakaveðri 17. nóvember 1921 varð hún afar myrk­fælin. Eftir það sváfu börn hennar og barnabörn hjá henni í rúmi afans í 24 fm tómthúsi kyntu með kolakabyssu líkt og lúkar í fiskibáti.

Vorið 1950 var komið að vistaskiptum, Svavar átti að taka við af nýfermdum Kalla frænda sínum og verða næturgestur ömmu sinnar næstu árin. Ömmu sem var áhrifavaldur og kenndi honum seiglu, að láta ekki deig­an síga í lífsins ólgusjó.

Hann var rétt nýbyrjaður í skóla og daglega gekk hann þangað frá ömmu sinni. Farið var að hausta og þegar líða tók á nóttina gat orðið nístingskalt í kotinu þrátt fyrir dúnsæng afans. En til að honum yrði ekki kalt reis amman árla úr rekkju hvern morgun og bætti kolum á kólnandi glóðir ofnsins. Þegar Svavar vaknaði og fékk sinn árbít var orðið hlýtt og notalegt í kotinu. Hann lagði síðan af stað í skólann, kvaddi ömmu sína og hún bað Guð að gæta hans.

Lífshlaupið ræðst stundum ef ekki oft af fyrstu leikjum lífsskákarinnar. Lengi býr að fyrstu gerð! Þetta var á þeim tíma sem börn voru aðgreind og raðað í bekki eftir getu þar sem A kom á undan B. Stundum var Svavar úti á þekju, skynjaði illa fljúgandi, stökkvandi stafina, og kennararnir sögðu að hann ætti heima á öðru plani. Á stuttum tíma var sjö ára hnokkinn gengisfelldur í tvígang, færður líkt og sauð­fé milli dilka úr A- í B-bekk og úr B- í C-bekk. Þessar kaldrifjuðu móttökur í upphafi skólagöngu voru álíka og að flokka börn í skreið eða gúanó, og hann spurði sig síðar hvað hann hefði til sakar unnið til að eiga þessa aftöku skilið. Nokkuð sem sat í honum og hans líkum alla ævi líkt og opið sár sem aldrei grær. Rúmri hálfri öld síðar kom í ljós útbreidd les- og ritblinda í móðurlegg hans sem stóð fyrst og fremst bóknámi pilta fyrir þrifum.

Amman man tímana tvenna, hafði orðið að ganga gegnum óvenjumiklar þrengingar á langri ævi, misst maka sína í tvígang frá átta börnum, þurft að segja sig á sveit og í kjölfarið glatað kosningarétt­inum. Böl Bakkusar hvíldi líkt og álög á yngri börnum hennar og hugarangur samviskubitsins gaf henni engin grið, hvorki dag né nótt, hvert sem hún fór, lét hana aldrei í friði. Út á við beit hún á jaxlinn og lét sem ekkert væri. En stundum vaknaði Svavar á nóttunni þegar amma hans grét í hljóði með ekkasogum án þess að mæla eitt einasta orð. Þegar amman skildi við hann á morgnana eftir að hún bað Guð að blessa hann gekk hann í skólann með þetta góða vega­nesti hennar en spurði sig: Af hverju grætur amma á nóttunni?

Svo Svavar hafði um margar leikfléttur hversdagsins að hugsa í lífsins skák, ekki aðeins á leiðinni í og úr skóla heldur allt lífshlaupið. Og líkt og allir lék hann alls kyns leiki í kaflaskiptri skák sóknar og varnar. Framan af eignaðist hann konu og fjögur börn, byggði sér hús samtímis sem hann lauk við sitt iðnnám um tvítugt og átti eftir að reisa sér ævarandi minnisvarða í Reykjanesbæ og víðar sem meistari múrverksins. Eflaust skipta þær bygg­ing­ar þúsundum sem hann kom að á hálfrar aldar starfsævi, lagði hönd á plóginn, setti sitt múraramark á, frá hvers konar steypu­vinnu, járnabind­ing­um, hleðslu, múrhúðun, fínpússun, gólf­lögnum og flísalögnum að alls kyns viðhalds- og viðgerðar­verkefnum. Þarna reyndi á lipurð í samskiptum, að hann gerði ekki manna­mun, taldi ekkert eftir sér, var greið­vikinn, ráðagóður, deildi sinni þekkingu og færni.

Miðtafl lífsins náði að mestu leyti til hins hefðbundna fjölskyldulífs og vinnunnar en hann lét af störfum 67 ára. Fyrir rúmum fjórum árum urðu furðuleg umskipti í lífi hans. Fyrir slysni axlarbrotnaði hann, sem átti eftir að verða lán í óláni. Við innlögn komu hugsanlega fyrstu einkenni þess sjúk­dóms fram sem lagði hann síðar að velli. En þessi uppákoma virkaði líkt og vítamínsprauta vitrunar, varð algjör viðsnúningur á lífsstíl hans og fékk hann 74 ára til að snúa baki við sálufélaga sínum, Bakkusi. Með þrautseigju og hjálp góðra vina vann hann sig smám­ saman upp, stundaði reglulega líkamsrækt með þeim og náði að rétta úr kútnum.

Hvers virði er að eignast allt
í heimi hér,

en skorta þetta eitt
sem enginn getur keypt.

Hversu ríkur sem þú telst
hversu fullar hendur fjár
þá áttu minna en ekki neitt

ef þú átt engan vin.
(Ólafur Haukur Símonarson)

Þegar ekki sást lengur til lands, engin mið til að sigla eftir og lífið lá beinlínis undir var þessi landtaka kannski hans stærsti og sætasti sigur!

Synd að hann skyldi þurfa að játa sig sigraðan fyrir vægðar­lausum sjúkdómi þegar hann sá til sólar aftur. Í októberlok 2019 fékk hann eftir ristilskoðun greiningu á þriðja stigs meininu sem átti eftir að draga hann til dauða. Líkt og amman bar hann ekki sorgir sínar á torg, beit á jaxlinn og var bjart­sýnn á framhaldið þegar hann hitti félaga sína. Eflaust hafði hann haft einkennin lengur sem ætti að vera okkur öllum áminn­ing um að fara í slíka skoðun fyrr en seinna.

Síðast þegar ég hitti hann laugardaginn 11. júlí var mikið af honum dregið, hafði misst 20 kg, átti erfitt með mál en var með á nótunum, hlustaði, kinkaði kolli og brosti þegar ég sagði honum ólíkindasögur af ömmu okkar. Hann vissi hvert stefndi, og var æðru- og óttalaus þegar hann leit út um gluggann og horfði píreygður út á himin­lána. Rétt fyrir klukkan 17 var hann orðinn örmagna á fimmaurabröndurunum, leit á mig með hálfopn­um augum eins og hann vildi segja mér eitthvað. Þegar ég lagði eyrað að vitum hans heyrði ég hans síðasta orð: Sofa.

Og hann sofnaði svefni hinna réttlátu, sáttur við sig, sína, alla, og kvaddi þetta líf klukku­stund fyrir miðnætti.

Takk fyrir samfylgdina kæri bróðir!

Sævar Tjörvason.