Magnea Kolbrún Sigurðardóttir, Maddí, fæddist í Reykjavík 8. apríl 1939. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 22. júlí 2020. Foreldrar Maddíar voru hjónin Sigurður Einarsson pípulagningarmeistari, f. 29.2. 1908, d. 27.2. 1988 og Guðrún Gísladóttir húsmóðir, f. 2.5. 1911, d. 30.1. 1994. Börn Sigurðar og Guðrúnar eru Katla, f. 1933, d. 1933, Þórdís Katla, f. 1935, Jóhanna Sigríður, f. 1937, d. 2015, Gísli, f. 1941, Einar, f. 1943, d. 2016, Örlygur, f. 1945, Sigurjón, f. 1947, Þorleifur Garðar, f. 1948, Sigrún, f. 1951, og Flosi, f. 1955.

Eftirlifandi eiginmaður Maddíar er Bjarni Pétursson skrifstofusjóri, f. 30.4. 1936. Þau giftust 9.11. 1961. Foreldrar Bjarna voru Pétur Bjarnason, f. 8.12. 1903, d. 10.12. 1944, og Guðrún Davíðsdóttir, f. 6.10. 1914, d. 18.10. 1995.

Börn Maddíar og Bjarna eru 1) Guðrún, f. 5.12. 1963, gift Melchior Lippisch, f. 16.2. 1950. Barn Guðrúnar og Melchiors er a) Lea Véný Felice, f. 18.8. 1992. 2) Pétur, f. 20.12. 1967, kvæntur Brynju Ástráðsdóttur, f. 7.1. 1970. Börn þeirra eru a) Bjarni Þór, f. 20.5. 1991, í sambúð með Bryndísi Jónsdóttur, f. 25.10. 1989, og langömmubarn Magneu er Kolbrún Edda, f. 17.4. 2020 b) Andrea Sif Pétursdóttir, f. 17.8. 1996, og c) Baldur Ingi Pétursson, f. 21.3. 2004. 3) Sigurður, kvæntur Dröfn Guðmundsdóttur, f. 20.2. 1973. Börn þeirra eru a) Júlía Kolbrún, f. 7.2. 1999 og b) Jasmín Eva, f. 27.6. 2005.

Heimili Maddíar og Bjarna var lengst af í Holtsbúð í Garðabæ en þau fluttust 2017 á Sautjándajúnítorg einnig í Garðabæ og síðar á hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ.

Maddí ólst upp á Brávallagötunni og stundaði nám í Melaskóla og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Síðan lá leiðin í Samvinnuskólann á Bifröst. Magnea lærði til stúdentsprófs við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands. Hún vann sem einkaritari hjá Sambandinu og Samvinnutryggingum, á lögmannsstofunni Höfðabakka 9 og síðast sem fjármálastjóri Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Hún var virk í kvenfélagi Garðabæjar og leshring bókasafns Garðabæjar. Hún hafði unun af lestri, klassískri tónlist, ferðalögum og samverustundum með stórfjölskyldunni á Brávallagötu.

Útför Maddíar fer fram frá Vídalínskirju í Garðabæ í dag, 30. júlí 2020.

Ég minnist mömmu með miklum söknuði. Hún var manneskja friðar og umhyggju. Hún elskaði alla og ekki einungis þá sem stóðu henni næst heldur alla í kringum hana. Hún elskaði sérstaklega öll börn og það skipti engu þótt þau væru henni ókunn. Þegar börn löbbuðu framhjá henni hnippti hún í þau og spurði þau hvað þau væru að gera og sagði þeim hvað þau væru flott. Mér fannst það stundum óþægilegt þar sem um ókunn börn var að ræða en svona var hún umhyggjusöm um alla í kringum sig. Mamma lærði mjög snemma að lesa, eða um fjögurra ára aldur. Hún lærði af eldri systrum sínum, þeim Kötlu og Hönnu, þegar þær voru að læra að lesa. Hún fór snemma til ömmu sinnar og afa austur á Hornafjörð í sveit á Móum svo síðar í Bjarnanesi. Undi hún sér þar mjög vel og var með Steina frænda, sem er jafn gamall og hún. Áttu þau margar góðar stundir og hafa verið mjög náin síðan. Alltaf þegar Steini frændi kom í bæinn gisti hann hjá mömmu. Við strákarnir urðum fljótt hændir að honum, þar sem hann var duglegur að kenna okkur að tefla og spila á spil. Mamma var mjög góður námsmaður og fékk aldrei leið á því að læra. Hún var alltaf með ágætiseinkunn í hverju því fagi sem hún tók. Hún var mjög dugleg að aðstoða okkur börnin með lærdóminn og hafði mikinn áhuga á námi okkar. Hún var mjög stolt af því að öll börnin hennar tóku stúdentspróf.

Mamma hafði unun af því að gera krossgátur og lesa. Minningin um hana við eldhúsborðið með allar bækurnar og blöðin með krossgátunum er ógleymanleg. Hún var svona einn dag að lesa heila bók og gat lesið svo klukkustundum skipti.
Mamma var mjög yfirveguð og róleg og aldrei var um neinn æsing að ræða hjá henni. Nema einu sinni þegar hún var búin að fá nóg af okkur bræðrum og sló okkur með blautri eldhústuskunni. Sem betur fer fékk hún smá útrás þar, en við lærðum að sjálfsögðu ekkert á þessu. Þetta var eina skiptið sem mamma reiddist okkur og er undantekningin sem sannar regluna. Við vorum reyndar frekar hressir við bræður og kveið fólk því stundum þegar mamma kom með okkur báða í heimsókn.

Pétur og Guðrún fóru snemma í sveit en þegar kom að mér sagði hún hingað og ekki lengra, ég ætla að hafa hann með mér. Ég flæktist um allt með mömmu og fór í margar góðar og skemmtilegar heimsóknir upp í Búrfell til Ölla (bróður hennar) og Sigrúnar, á Hlemmiskeið þar sem hún var sjálf í sveit og upp á Laugarvatn til Sigrúnar (systur sinnar) og Terry. Það var alltaf svo gaman að fara með mömmu til Kötlu og Hönnu og undi ég mér að leika við frændsystkini mín og tala nú ekki um að fá að horfa á Tomma og Jenna hjá Hönnu og Binna. Það kom sér vel að Nonni bróðir hennar mömmu var bæklunarlæknir þannig að þegar ég meiddist í íþróttunum var tilefni til heimsóknar til Nonna og Siggu í Kópavoginn.

Það var svo gaman að fara með mömmu til ömmu og afa á Brá. Þar hitti maður alla í litlu íbúðinni þeirra og alltaf fékk ég Síríuslengju frá ömmu. Afi kenndi mér öll spilin sem hann kunni og einnig að leggja kapal.
Hún kynnti okkur systkinin fyrir öllum frændgarðinum hennar megin sem var mjög stór og hefur alltaf verið mikill samgangur og samkennd í systkinahópnum hennar. Mamma, Hanna og Katla skipulögðu svo ásamt Flosa jólaboð fyrir alla stórfjölskylduna og þegar mest var komu um 100 manns en oftast hefur þetta verið um 80. Mamma var byrjuð að hlakka til um haustið og sagði við mig: Siggi, hafðu nú samband við hana Agnesi frænku þína og biddu hana um að setja inn jólaboðið á Facebook-grúppuna.
Hún var alltaf til staðar fyrir mig. Hún studdi mig þegar ég var að taka fyrstu skref mín í íþróttunum og fylgdi mér hvert á land sem var til að fylgjast með keppnum. Þegar ég fór í 3ja flokk hætti hún að mæta, þar sem hún hélt að við myndum tapa ef hún kæmi. Seinna þegar ég var í Þýskalandi heimsótti hún mig og mætti á leiki aftur og ef leikurinn tapaðist sagði hún að hún hefði ekki átt að mæta.

Hún passaði svo mikið upp á mig, kallaði mig lillann. Þegar ég fékk snert af heilahimnubólgu sá hún alltaf til þess að ég væri með húfuna mína. Hún kallaði á eftir mér þegar ég fór út að leika: Siggi, ertu með húfuna? Hún sá alltaf til þess að ég fengi nóg af borða og á uppvaxtarárum mínum var ég alltaf svangur. Þegar ég kom inn þambaði ég tvo lítra af mjólk og fékk mér stóra skyrdós. Alltaf sá hún til þess að það væri nóg handa mér í ísskápnum og ég hlakkaði alltaf til þegar hún kom heim úr búðinni og hjálpaði henni að bera pokana úr bílnum og inn í eldhús og beið spenntur eftir því sem upp úr pokunum kom.
Etir að ég flutti að heiman var alltaf svo gott að koma til mömmu, hún var alltaf yfirveguð og í ró og með fullan ísskápinn. Hún var einstakur kokkur og eldaði dýrindis máltíðir og veigraði sér ekki við að bjóða helling af fólki.

Hún var mjög félagslynd og undi sér með fólki. Hafði hún mjög gaman af klassískri tónlist og fór ég með henni á ófáa tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hafði hún sérstaklega unun af píanókonsertum og var afar stolt af henni Jasmín Evu minni að læra á píanó.
Mamma var trúnaðarvinkona dætra minna. Ef Júlía Kolbrún mín var eitthvað ósátt við mig sagði hún bara: Ég flyt þá bara til ömmu. En samband þeirra Júlíu var einstakt og það var mér mjög kært að sjá þær ná svona náið saman. Síðustu árin voru erfið fyrir hana hvað heilsuna varðaði en alltaf var hugurinn einstakur og hreinn. Hún barðist við sjúkdóminn í mörg ár. Hún varð svo spennt yfir því að eignast langömmubarn að hún ákvað að berjast aðeins lengur. Það var ógleymanlegur svipur á henni þegar hún var viðstödd skírn Kolbrúnar Eddu nöfnu sinnar og grétum við mamma af gleði saman þegar nafnið hennar var sagt upphátt í fyrsta sinn. Elsku mamma ég kveð þig í miklum söknuði og trega. Þú varst stoð mín og stytta og leyfðir mér alltaf að njóta mín og stóðst með mér þegar á reyndi og leiddir mig á rétta braut aftur. Hvíldu nú í friði hjá ömmu, afa, Hönnu og Einari.

Sigurður Bjarnason.