Magnea Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík þann 28. nóvember 1969. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 6. júlí 2020.



Foreldrar hennar eru Hulda Bjarnadóttir f. 1952 og Ólafur Ingi Reynisson f. 1952. Slitu þau samvistir. Í dag er Hulda gift Jóhanni Geirdal og Ólafur er giftur Önnu Maríu Eyjólfsdóttur.

Hálfsystkin Magneu sammæðra eru: Sigríður Lára Jóhannsdóttir f. 1979 gift Rúnari Þór Arnarsyni og Steinþór Jóhannsson f. 1981. Hálfsystkin samfeðra eru: Ísak Ólafsson f. 1977, Ólafur Fannar Ólafsson f. 1981 og Marta Sif Ólafsdóttir f. 1986, sambýlismaður Andri Pétur Þrastarson. Magnea átti líka uppeldisbræður í móðurbræðrum sínum þeim Guðjóni Þórhallssyni f. 1957, kvæntur Guðveigu Sigurðardóttur, og Lárusi B. Þórhallssyni f. 1961, kvæntur Hrönn A. Gestsdóttur. Magnea eignaðist eina dóttur, Söru Antoníu Magneudóttur, þann 1. júlí 2004.

Magnea ólst upp í Keflavík hjá móðurafa og ömmu, þeim Þórhalli Guðjónssyni, f. 1931, d. 1998, og Steinunni Þórleifsdóttur, f. 1932, d. 2014.

Magnea gekk í barnaskólann í Keflavík, nú Myllubakkaskóla. Svo fór hún í Gagnfræðaskóla Keflavíkur, sem nú er Holtaskóli. Þaðan lá leiðin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og lauk hún þaðan stúdentsprófi árið 1988. Eftir stúdentspróf  fór hún til Þýskalands árið 1989 í nokkra mánuði og lagði stund á þýskunám við Goehte-stofnunina.  Á árunum 1993-1996 lagði hún stund á kennaranám við Kennaraháskóla Íslands og lauk þaðan B.ed.-gráðu. Hún tók löggildingarnám í fasteignaviðskiptum á árunum 1998-2000.  Á árunum 2011-2020 stundaði hún með hléum meistarnám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.

Magnea kenndi við nokkra skóla í gegnum tíðina en lengst af kenndi hún á unglingastigi við Akurskóla í Reykjanesbæ eða frá árinu 2010 og þar til hún lést.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku mamma mín.
Ég sit í sófanum hennar Steinunnar ömmu og skoða myndir af okkur saman. Myndin sem við tókum á afmælinu mínu í fyrra er sérstaklega í uppáhaldi hjá mér. Ekki grunaði mig að ég myndi kveðja þig í hinsta sinn rétt rúmu ári seinna.
Í rauninni er eins og þú sért ekki farin, nema kannski rétt út í búð eða í heimsókn til Hrefnu vinkonu í næsta húsi, enda varst þú vinamörg alla tíð.
Þú sagðir oft: Heima er best og varst þú ávallt mjög heimakær manneskja og fannst þér fátt betra en að kveikja á ilmkertum og slaka á fyrir framan sjónvarpið enda hafðir þú góða ástæðu fyrir því að vera heimakær, þar sem heimilið okkar var einstaklega fallegt. Húsgögn og ýmsir antíkmunir af bæði ítölskum og frönskum stíl gáfu heimilinu ákveðinn persónuleika sem minnti á eigandann sjálfan. Þú sást líka alltaf til þess að heimilið væri svo hreint og strokið að það liti út fyrir að það væri sýnishorn úr tölublaði Húsgagnahallarinnar.

Heimilið okkar var ekki aðeins fallegt, heldur notalegt, uppfullt af hlýju, hlátri og kærleika. Það eru margar skemmtilegar minningar sem voru skapaðar í þessari íbúð eins og m.a. sögurnar af músinni, honum Gunnari Valdimarssyni, endalausir brandarar og grínsketsar, heimalærdómur sem við hjálpuðumst að við að gera og dægurlög sem við sungum hástöfum saman undir glamrinu í skemmtara nágrannans.

Íbúðin geymir einnig lexíur og heilráð sem þú kenndir mér, enda varst þú algjör lífsreynslubolti og hafðir tekist á við alls konar hluti í gegnum tíðina. Þeir hlutir mótuðu þig að þeirri manneskju sem við þekktum öll. Þessari kröftugu, gáfuðu, þrautseigu og jákvæðu konu sem lét ekkert stöðva sig.

Þú varst alltaf mikill og góður námsmaður, skaraðir fram úr í öllum greinum, þó sérstaklega tungumálum. Þú varst kennari af Guðs náð og varst alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd þegar fólk átti í vandræðum með nám, hvort sem það voru nemendur eða ég sjálf. Alltaf varstu boðin og búin að aðstoða af bestu getu, sama hvert vandamálið var.

Ásamt því að vera tungumálamanneskja og kennari af Guðs náð varstu einnig frábær penni. Ljóð, sögur, gamanvísur og pistlar flæddu af fingurgómum þínum frá unga aldri, stuttu eftir að þú lærðir að lesa (á hvolfi). Stærsta sagan hingað til var örlagasaga Jönu langömmu frá Færeyjum sem var jafnframt lokaverkefnið þitt í Háskólanum á Bifröst. Ég heiti þér því að þessari sögu verður ekki stungið ofan í skúffu, heldur mun ég halda ferlinu áfram og reyna að láta draum þinn rætast og gera söguna að kvikmynd. Einnig mun Sagan af stelpuskottu ekki enda hér, heldur er hún rétt að byrja.

Þú varst góður kennari en enn þá betri mamma, góðhjörtuð, blíð og skilningsrík og lengi mætti telja. Þú hughreystir mig þegar ég þurfti á því að halda, hrósaðir mér fyrir árangur sem ég náði og hjálpaðir mér í því sem ég tók mér fyrir hendur. Þess vegna er svo skrýtið að það sé enginn í mömmuholu til að halda utan um mig.

Þú vildir alltaf vera vel til höfð, þó svo að þú værir einungis á leiðinni út í búð. Alltaf með maskara á þér og angandi af ilmvatni. Ilmvötn einkenndu þig og ekki neinn einasti dropi úr flöskunum fór til spillis. Aldrei varst þú með grátt hár á höfði enda hafðir þú sagt við mig að það væri þín versta martröð. Þú varst falleg að innan sem utan og falleg orka geislaði af þér líkt og þú værir sól á heiðskírum degi.

Þú varst og ert fyrirmyndin mín, í einu og öllu. Hvernig þú mættir öllu mótlæti með bros á vör og jákvæðni. Hvernig þú syntir á móti straumnum og lést engan valta yfir þig. Hvernig þú stóðst á þínu, sama hvað. Hvernig þú hvattir mig til að fylgja draumunum mínum. Það ætla ég svo sannarlega að gera, ég lofa þér því. Ég mun gera þig stolta af mér, sama hversu stolt þú varst fyrir.

Ég sé þig stundum í skýjunum, rauða hárið þitt flaxandi og þú brosir svo blítt til mín. Ég veit að þú hefur það gott í Sumarlandinu, þar sem þú situr við eldhúsborðið andspænis Steinunni ömmu og Halla afa þar sem þið spjallið saman um tímann og veginn. Þú ert komin heim.
Ég kveð þig því að sinni með ást og þakklæti í hjarta, elsku mamma mín.
Ég elska þig til enda veraldar.
Þín dóttir,

































Sara Antonía.