Tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri TVÆR sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri á morgun, laugardag, annars vegar sýning á teikningum og krítarmyndum eftir Alfreð Flóka í austur- og miðsal og hins vegar sýning á málverkum eftir Joris...

Tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri

TVÆR sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri á morgun, laugardag, annars vegar sýning á teikningum og krítarmyndum eftir Alfreð Flóka í austur- og miðsal og hins vegar sýning á málverkum eftir Joris Jóhannes Rademaker í vestursal.

Alfreð Flóki fæddist árið 1938 en andaðist um aldur fram árið 1987. Hann gaf helstu straumum og stefnum 20. aldarinnar langt nef og hallaði sér að 19. aldar symbolistum og súrealistum til að finna huga sínum næringu. Myndmál hans er í senn myrkt og dularfullt, þar sem persónur hans eru helteknar, hvatir og kynórar ráða ferðinni. Á sýningunni eru myndir frá 1970 til 1987 auk fjölda skissa frá ýmsum tímum en þær eru í eigu Listasafns Reykjavíkur.

Joris Jóhannes Rademaker er fæddur í Hollandi, en hefur verið búsettur á Akureyri frá árinu 1991. Hann var við myndlistarnám í heimalandi sínu á árunum 1977 til 1986. Á sýningunni sýnir hann málverk á striga og vegg safnsins. Verkin eiga það sameiginlegt að fjalla um rými með fíngerðu netmynstri sem lifnar í augum áhorfendans, segir í frétt frá safninu.

Sýning Alfreðs Flóka stendur til 26. febrúar en sýningu Joris Jóhannesar lýkur 19. febrúar. Safnið er opið daglega nema mánudag frá kl. 14.00 til 18.00.

Aukasýningar

á Barpari

LEIKFÉLAG Akureyrar efnir til tveggja aukasýninga á hinu vinsæla leikverk Barpari eftir Jim Cartwright, en fyrirhugað er að taka það upp á myndband. Sýningarnar verða á þriðjudags- og miðvikudagskvöld í næstu viku, 7. og 8. febrúar, í Þorpinu og hefjast kl. 20.30. Leikmyndin verður síðan endanlega rifin niður, þannig að nú eru síðustu forvöð að sjá þessa metsýningu LA.

Í næstu viku verða þrjú verk í sýningu hjá félaginu og er það í fyrsta skipti í sögu þess sem svo mörg leikrit eru á fjölunum í einni og sömu vikunni. Þetta eru verkin Barpar, Óvænt heimsókn og Á svörtum fjöðrum, sem samið var fyrir LA vegna aldarafmælis Davíðs Stefánssonar.