Sveinn Þ. Guðbjartsson fæddist í „Kassahúsinu“ við Lækjargötu í Hafnarfirði 28. janúar 1938. Hann lést á Hrafnistu Hafnarfirði 1. september sl.

Foreldrar hans voru Herdís Guðmundsdóttir ljósmyndari, f. 30.5. 1898, d. 8.1. 1990, frá Skarði í Lundarreykjadal, og Guðbjartur Vigfús Ólafur Ásgeirsson, matsveinn og ljósmyndari, f. 23.12. 1889, d. 18.10. 1965, frá Ísafirði.  Systkini Sveins voru: Sveindís Ásgerður, f. 1918, d. 1937, Guðmunda Gíslína Elka, f. 1920, d. 2010, Magnús Óskar, f. 1921, d. 1994, Katrín Guðmundína, f. 1922, d. 2005, Guðný, f. 1923, d. 2010, Hallfríður, f. 1925, d. 1926, Ásgeir Halldór f. 1927, d. 2012, Sólveig Jóhanna, f. 1929, d. 2014, Þórarinn, f. 1931, d. 1933, Jón Ásgeir, f. 1934, d. 1935.

Sveinn kvæntist 12. febrúar 1959 Svanhildi Ingvarsdóttur, f. 11. október 1937, d. 4. mars á þessu ári. Foreldrar hennar voru hjónin Ingvar Jónsson frá Loftsstöðum í Flóa, f. 4. júní 1903, d. 3. júní 1979 og Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir frá Grænanesi, Norðfirði, f. 25. desember 1902, d. 28. október 1992.

Barn Sveins og Svanhildar er Katrín Sveinsdóttir, fædd 12. október 1962, gift Kristjáni Rúnari Kristjánssyni, dætur þeirra eru: Hildur Dís, í sambúð með Þorgeiri Albert Elíeserssyni, þeirra sonur er Sveinn Rúnar. Svana Lovísa, í sambúð með Andrési Garðari Andréssyni, þeirra börn eru Bjartur Elías og Birta Katrín.

Sveinn lauk próf­um í raf­einda­virkj­un frá Iðnskól­an­um í Reykja­vík, stundaði nám við Handíða- og mynd­lista­skól­ann og hjá ýms­um inn­lend­um og er­lend­um út­skurðar­meist­ur­um. Hann stundaði síðan nám í stjórn­un heil­brigðis­stofn­ana við Nordiska Hel­sev­ard-há­skól­ann í Gauta­borg og sótti ýmis sér­nám­skeið við sama skóla.

Hann var raf­einda­virki með eigið fyr­ir­tæki, Vél­ar og viðtæki. Í 35 ár var hann stjórn­andi á heil­brigðis­sviði, heil­brigðis­full­trúi Hafn­ar­fjarðar, fram­kvæmda­stjóri Heilsu­gæslu Hafn­ar­fjarðar og for­stjóri Sólvangs.

Sveinn var vara­formaður SUS um skeið, sat í stjórn full­trúaráðs sjálf­stæðis­fé­lag­ana í Hafnar­f­irði, var stofn­fé­lagi Golf­klúbbs­ins Keil­is í Hafnar­f­irði, formaður Íþróttabandalags Hafnarfjarðar, lands­for­seti JC á Íslandi og stofn­andi JC-fé­laga. Hann var einn af stofn­end­um Kiw­an­is á Íslandi og tók þátt í stofn­um fleiri Kiw­anis­klúbba, var formaður safnaðar­stjórn­ar Hafn­ar­fjarðar­kirkju. Sveinn sat líka í mörgum nefndum og stjórnum á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Útför Sveins verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 17. september 2020, og hefst athöfnin kl. 15.

Útförinni verður jafnframt streymt á skjái í safnaðarheimili kirkjunnar.

Því er lokið. Vinur minn Sveinn Guðbjartsson hefur kvatt jarðlífið og horfið til austursins eilífa. Sigldi yfir móðuna miklu í kjölfarið á eiginkonu sinni, Svönu, sem hann var kvæntur í sextíu og eitt ár, en hún lést 4. mars 2020 og var jarðsungin 25. júní 2020.
Stuttu eftir að ég flutti til Hafnarfjarðar árið 1975 var mér boðin þátttaka í einkagufuklúbbi þar sem Sveinn var aðalmaðurinn. Þá var hann heilbrigðisfulltrúi í Hafnarfirði og var kallaður Svenni heilbrigði. Gott viðurnefni að vera kenndur við heilbrigði. Klúbburinn hét Gufuklúbburinn Sér allt og Heyrir allt (se og hör pa dansk). Klúbbfélagar hittust einu sinni í viku, réðu lífsgátuna og leystu bæði innanlandsmál og heimsmálin. Þegar klúbburinn fékk ekki lengur að vera einkagufuklúbbur var honum breytt í gönguklúbb þar sem við hittumst á sunnudagsmorgnum klukkan 10 austan við kirkjugarðinn í Hafnarfirði. Heilsan var þá ekki alltaf upp á það besta hjá sumum klúbbfélögum, en eftir göngu í tvo tíma í nágrenni Hafnarfjarðar var landið farið að rísa. Gufu- og gönguklúbburinn voru öðrum þræði matarklúbbar og héldu áfram að vera það þótt klúbbstarfsemin liði undir lok. Gönguklúbburinn fór í margar innanlands- og utanlandsferðir. Við fórum til Lúxemborgar og þaðan með rútu um Þýskaland, til Parísar og Orlando í USA. Í Þýskalandi voru vínbúgarðar heimsóttir og smakkað á veigunum. Eftir því sem heimsóknunum og vínsmökkununum fjölgaði faðmaði Svenni og kyssti fleiri og fleiri konur sem urðu á vegi okkar. Svenni gaf þá skýringu á þessu kossaflensi að allar þessar konur væru frænkur sínar sem hann sagðist ekki hafa séð lengi og flestar aldrei fyrr og þyrfti því að heilsa þeim með kossi. Þetta voru miklar menningarferðir þar sem aðeins bestu veitingahúsin voru heimsótt og matarlystinni kirfilega fullnægt. Áttum við okkur sérstaka söngbók. Þar voru lög sem sjaldan sáust í venjulegum söngbókum. Brast oft á með söng við ólíklegustu tækifæri svo sem í matarveislum og við lok gönguferðar á sunnudagsmorgnum. Sveinn tók miklu ástfóstri við eitt lag sem varð síðan hans einkennislag og ekki bara í klúbbunum heldur víða annars staðar þar sem Svenni hélt uppi húmornum. Lagið var Svantes lykkelige dag og alltaf söng Svenni það á prentsmiðjudönsku. Svenni var ekki besti söngvarinn eða sá lagvissasti en söng lagið með þvílíkum tilþrifum og leikrænni túlkun að allir sem á hlýddu skemmtu sér konunglega.
Svenni var af Kassahúsættinni í Hafnarfirði. Nafngiftin er þannig til komin að Sveinn fæddist og bjó, ásamt foreldrum sínum og systkinum, í Lækjargötu 12b í Hafnarfirði. Af einhverjum ástæðum dróst að setja þakið á húsið og var það því eins og kassi í laginu. Margir sómamenn og konur eru af Kassahúsættinni svo sem eins og núverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði. Fólkið af Kassahúsættinni er mjög listrænt og með auga fyrir formum. Góðir ljósmyndarar eru þar fyrirferðarmiklir, sumir heimsfrægir. Ólafur Eiríksson, sem hannaði hjúpinn um Hörpuna, er af Kassahúsættinni. Sjálfur var Svenni mjög listhneigður og stundaði nám í myndlistaskóla, málaði, teiknaði, tók ljósmyndir, myndskreytti ljóðabók vinar síns Árna Grétars Finnssonar, skar út, renndi tré, las upp og stundaði menningarviðburði af margskonar tagi. Eitt sinn var Svenni á einhverju heimsþingi. Þar kynnti Svenni sig sem Guðbjartsson. Það gat enginn borið þetta nafn fram svo Svenni breytti kynningunni svo úr varð; Sven von Kasenhausen. Það nafn gátu allir munað og borið fram.
Stundum töluðum við lengi saman í síma. Alltaf á léttu nótunum. Einu sinni sagði hann við mig í lok símtals: Komstu nokkurn tímann að, Guðmundur minn? Já, já Svenni minn. Ég sagði þrisvar já og einu sinni nei. Það er líka alveg nóg fyrir þig, svaraði Svenni og kvaddi.
Sveinn var sérstaklega þægilegur samferðamaður, gaf lífinu lit gerði það skemmtilegra og auðugra. Hann sagði oft við mig að það tæki því ekki að taka sjálfan sig of hátíðlega og betra væri að lifa lífinu lifandi og hafa skemmtilegt því hann hefði vissu fyrir því að hann kæmist ekki lifandi frá þessu jarðlífi.
Tvö orð lýsa Svenna vel; lífskúnstner og húmoristi. Svenni kunni að meta lífsins lystisemdir, mikill matmaður og aldrei hafði hann neitt á móti víni, þótt heilsan leyfði ekkert slíkt síðustu ár Það var aldrei leiðinlegt að vera í návist Svenna.
Svenni var mikið félagsmálatröll. Var í ótrúlega mörgum félögum, sat í fjölmörgum stjórnum, ráðum og nefndum og alltaf valinn til forustu. Var honum veitt margvísleg viðurkenning fyrir félagsstörf sín. Mikill sjálfstæðismaður alla tíð og mikill frímúrari. Var safnaðarnefndarformaður í Hafnarfjarðarkirkju í mörg ár. Ég spurði hann undir það síðasta út í þetta félagsmálastúss og hvers vegna hann hefði gengið í öll þessi félög. Hann svaraði því til að hann hefði alltaf átt erfitt með að segja nei ef einhver bað hann um eitthvað og gekk til allra starfa af krafti og heilindum. Þetta svar lýsti Svenna vel.
Svenni átti við mikla vanheilsu að stríða í á annan áratug. Sagðist vera sérstaklega góðan kúnna heilbrigðiskerfisins. Hjartað var að plaga hann og í lokin var hann ekkert nema skinnið og beinin. Við sem þekktum hann sögðum að húmorinn héldi í honum lífinu. Mikið til í þeirri speki.
Læt í lokin fylgja með eina sögu af okkur Svenna. Einu sinni var ég að vegsama trémynd eftir Svenna sem hann hafði rennt og var listavel gerð. Þetta var mynd af konu sem hóf hendurnar upp eins og hún væri að taka flugið. Þegar ég hafði dáðst að listaverkinu um stund, sagði Svenni: Já, Guðmundur minn, þetta er mynd af konunni þinni. Ég varð hvumsa við og sagði, en Svenni, konan er kviknakin! Hafðu engar áhyggjur, Guðmundur minn, konan þín sat ekki fyrir hjá mér nakin, nei ekkert svoleiðis. Ég gerði þessa mynd af konunni þinni algjörlega eftir minni. Mér létti auðvitað stórum við að heyra þetta.
Sveinn var trúmaður og predikaði oft í messum. Hafði hug á að verða prestur en sagðist hafa hætt við af því hann hefði ekkert garantí fyrir því að hann yrði biskup.
Við ferðalok þakka ég almættinu fyrir að hafa eignast Svenna fyrir vin og samferðamann. Ljúfur, örlátur, hjálpsamur, skapgóður og skemmtilegur. Maður friðarins.
Takk fyrir samfylgdina, kæri vin.
Ástvinum Svenna sendum við hjónin dýpstu samúðarkveðjur og biðjum hinn hæsta höfuðsmið himins og jarðar að veita þeim styrk og huggun í sorginni.

Guðmundur Óskarsson.