Það þarf að hvetja fólk til að leita sér hjálpar og ræða hugsanir um sjálfsvíg

Talan 39 á appelsínugulum grunni á flennistórum auglýsingaskiltum hefur blasað við fólki á ferðinni undanfarna daga. Í gær var merking tölunnar afhjúpuð þegar hún birtist á forsíðu tímarits Geðhjálpar. „Talan stendur fyrir þá íbúa Íslands sem féllu fyrir eigin hendi á árinu 2019,“ segir í grein eftir Héðin Unnsteinsson, formann Geðhjálpar, og Kristínu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna Píeta, í Morgunblaðinu í gær.

Höfundar eru á því að nú sé þung undiralda í samfélaginu. „Við vitum að það verða fleiri sem taka líf sitt á þessu ári,“ skrifa þau. „Píeta-samtökin sinna yfir 300 viðtölum á viku við fólk sem glímir við sjálfsvígshugsanir og hringt er í hjálparsíma Rauða krossins og Píeta-símann á öllum tímum sólarhringsins. Við vitum að sjálfsvíg er dánarorsök 45% þeirra karlmanna sem látast fyrir fertugt.“

Stíga þarf varlega til jarðar þegar rætt er um sjálfsvíg og gæta þess að umræðan verði ekki til að ýta undir vandann, heldur leiði til úrbóta. Vandinn er hins vegar það djúpstæður að lítið mun þokast með þögninni.

„Við höfum í gegnum árin veigrað okkur við að ræða þessa tölu, þennan mælikvarða á geðheilsu okkar, opinberlega,“ skrifa þau og segja ástæðuna fyrir því að opinbera hana nú tvíþætta. „Annars vegar viljum við ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi, sársauka og sorg sem aðstandendur verða fyrir og hins vegar viljum við ræða þá ástæðu sem býr að baki og orsakaþætti geðheilbrigðis.“

Í Geðhjálparblaðinu er grein eftir Grím Atlason, framkvæmdastjóra samtakanna, þar sem hann tekur saman ýmsar upplýsingar, sem komið hafa fram áður, en eru sláandi þegar þær eru saman komnar á einum stað.

Á undanförnum átta árum hefur fjöldi grunnskólanemenda sem telja andlega heilsu sína sæmilega, slæma eða mjög slæma rúmlega tvöfaldast, farið úr 16% í 35%. Að sama skapi hefur hlutfall þeirra sem telja andlega heilsu sína góða eða mjög góða lækkað úr 84% í 65% á sama tíma.

Staðan er mun verri hjá drengjum en stúlkum. Munurinn á kynjunum er líka afgerandi þegar kemur að lyfjagjöf vegna athyglisbrests og ofvirkni. ADHD-lyfjanotkun barna yngri en 18 ára þrefaldaðist á árnum 2003 til 2018. Árið 2003 fengu fimm af hundraði drengja slík lyf, en 2018 var talan 12%. Greiningarnar hér á landi eru um helmingi fleiri en í Noregi og Finnlandi og ellefufalt fleiri en í Svíþjóð.

Í blaði Geðhjálpar er rætt við Signýju Rós Ólafsdóttur, sem í vor fékk verðlaun á kvikmyndahátíð í New York fyrir útskriftarverkefni sitt úr Háskóla Íslands. Hún passaði ekki inn í skólakerfið og segist hafa fengið þau ósögðu skilaboð að hún væri heimsk. Í tíunda bekk kom í ljós að hún væri með lesblindu og athyglisbrest. Í vetur ætlar hún að fara í grunnskóla í samstarfi við Geðhjálp og segja sögu sína.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, skrifar grein í blaðið þar sem hann segir að tvennt veki athygli sína þegar hann lítur yfir framvindu geðheilbrigðismála í hálfa öld. Í fyrsta lagi að geðræn vandamál hafi aukist verulega og í öðru lagi að ekki verði sagt að á þessu tímabili hafi orðið byltingarkenndar breytingar í meðferð geðsjúkdóma. Bendir hann sérstaklega á þörfina á að reisa nýtt hús yfir geðdeild Landspítalans og gagnrýnir óvægni og tillitsleysi í samskiptum fólks. „Fram undan eru erfiðari tímar en núlifandi Íslendingar hafa áður kynnst,“ skrifar Styrmir.

Vandinn að baki tölunni 39 er gríðarlegur og á honum finnst engin ein lausn. Það þarf að ráðast á hann á mörgum sviðum og hugsa út frá heildinni.

Skólakerfið er greinilega of einhæft. Hversu mörg börn ætli séu í sömu sporum og Signý Rós í skólastofum landsins? Finnst þau utangátta og finna til minnimáttarkenndar því þau ná ekki að fylgjast með þegar raunin er sú að það vantar ekki hæfileikana heldur er verið að reyna að steypa þau í mót sem passar ekki?

Það þarf að bæta viðbragðið í kerfinu þannig að hægt sé að vinna á vandamálum áður en þau verða svo alvarleg að öll sund virðast lokuð.

Umræðan um geðheilsu hefur breyst mikið á umliðnum árum. Hún er orðin opnari og fordómalausari. Það er jákvæður þáttur og auðveldar þetta erfiða verkefni, sem sem er brýnt að njóti forgangs. Að fá hjálp í tíma getur skipt sköpum um virkni eða örorku. Um leið þarf að draga umræðuna um sjálfsvíg fram í dagsljósið og hvetja fólk til að leita sér hjálpar þegar þyrmir yfir.

Að síðustu er rétt að minna á neyðarsíma Rauða krossins, 1717, og netspjall auk þess sem svarað er í síma Píeta-samtakanna, 552-2218, allan sólarhringinn.