Pétur Mikkel Jónasson fæddist í Reykjavík 18. júní 1920. Hann lést á Pleje og rehabiliteringscenter Hegnsgården í Nærum í Danmörku 1. október 2020.
Foreldrar Péturs voru Jónas Halldór Guðmundsson skipasmiður, f. 2.9. 1891 á Hrauni í Keldudal í Dýrafirði, d. 20.2. 1970, og Margrét Guðmundsdóttir húsmóðir,  f. 19.2. 1890 á Ingunnarstöðum í Kjós, d. 10.12. 1964.
Eiginkona Péturs var Dóra Kristín Gunnarsdóttir, f. 4.11. 1926 í Reykjavík, d. 2.2. 2018. Dóra var húsmóðir og ritari í Sáttmálasjóði. Þau gengu í hjónaband 1964 í Kaupmannahöfn. Foreldrar Dóru voru hjónin Gunnar Árnason verkamaður, f. 27.4. 1892, frá Tréstöðum í Hörgárdal, d. 20.12. 1984, og Guðrún Halldórsdóttir verkakona, f. 18.8. 1895, fædd í Pálsseli í Laxárdal í Dalasýslu, d. 7.12. 1973. Þau voru búsett í Reykjavík. Dætur Dóru og Péturs eru: 1) Margrét, f. 15.9. 1964, gift Claus Parum. Þeirra börn eru: Marcus, f. 1999, og Liv, f. 2002. 2) Kristín, f. 3.10. 1967, gift Henrik Thorval og eiga þau soninn Peter Vilhelm Frederik, f. 2003. Börn Henriks frá fyrra hjónabandi eru Andreas og Natasia.
Systkini Péturs voru Guðmundur, f. 12.11. 1921, d. 14.10. 2015, skipasmiður í Reykjavík, Jón Örn (Jón á ellefu), f. 25.2. 1923, d. 19.10. 1983, skipasmiður í Reykjavík, og Ása Valdís, f. 26.2. 1926, d. 15.6. 2001, húsfreyja og verslunarkona í Reykjavík.
Pétur var alinn upp í Vesturbænum. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Stýrimannastíg 7 en síðar byggðu foreldrar hans hús á Framnesvegi 11. Árið 1939 flutti fjölskyldan síðan á Fjölnisveg 8.
Pétur útskrifaðist sem stúdent frá MR árið 1939 og flutti í kjölfarið til Danmerkur, þar sem hann hóf nám í vatnalíffræði við  Kaupmannahafnarháskóla.
Eftir að námi lauk vann hann sem sérfræðingur á sviði straumvatnsrannsókna. Hann helgaði líf sitt fræðistörfum og var frumkvöðull í rannsóknum á vistkerfum vatna víðsvegar um heim, einkum þó á Mývatni og Þingvallavatni.
Fyrir fræðistörf sín hlaut hann fjölda viðurkenninga og var virkur vísindamaður fram á síðasta dag og lagði mikið af mörkum til náttúruverndar.
Í Danmörku kynntist Pétur Dóru eiginkonu sinni og lífsförunaut. Þau héldu lengst af heimili í Hilleröd en árið 2017 fluttu þau í íbúð fyrir eldri borgara í Gammel Holte, þar sem Pétur bjó einn eftir að Dóra lést.
Útför Péturs fer fram frá Skansekapellet í Hilleröd í dag, 20. október 2020, og hefst athöfnin klukkan 12.

Pétur átti farsælan starfsferil og hlaut viðurkenningu samstarfsmanna sinna, nú síðast með sérútgáfu af Náttúrufræðingnum í tengslum við 100 ára afmæli sitt í sumar. Sem ungur maður í Kaupmannahöfn skipaði vatnalíffræðin stóran sess í lífi hans en fræjum var sáð í hjarta hans fyrir áhuga á íslenskri vatnalíffræði í sumarfríum hans hjá ömmu hans og afa í Miðfelli í Þingvallasveit. Fyrsti stóri áfangi hans sem vatnalíffræðingur var á fyrsta alþjóðafundi hjá International Society of Limnology (SIL) í Sviss árið 1948, þar sem hann kynnti niðurstöður sínar um rannsóknir á Suså í Danmörku. Rannsóknin þótti svo athyglisverð að hann varð einn af aðalfyrirlesurum fundarins. Þessi áfangi mótaði upphaf að alþjóðlegu starfi hans. Árið 1972 hlaut hann doktorsnafnbót vegna rannsókna sinna á Esrom-vatninu í Danmörku sem hann vann ásamt nánustu samstarfsfélögum sínum, þeim Christian Overgaard Nielsen og Einar Steeman Nielsen. Hann var fyrsti norræni vatnalíffræðingurinn í Baldi Lecture, 1977, og varð prófessor sama ár. Árið 1987 hlaut hann Naumann-Thienemann-verðlaunin fyrir framlag sitt til rannsókna á ferskvatni. Hann var forseti SIL á árunum 1989-1995 og meðlimur í vísindafélögum í Danmörku, Íslandi og Noregi. Árið 2001 hlaut hann heiðursnafnbót við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Við vorum og erum öll stolt af honum og velgengni hans var hreint ekki skrifuð í stjörnurnar þegar hann fæddist inn í tiltölulega fátæka fjölskyldu á Íslandi árið 1920. Pabbi var hógvær en lærði um leið að njóta þeirrar velgengni sem hann hafði náð og gat með stolti sagt að hann væri vel að þessu kominn.

Lífið hafði ekki alltaf verið dans á rósum hjá honum. Að komast til Kaupmannahafnar árið 1939, sem ungur fátækur námsmaður, var erfitt. Sem betur fer hafði eiginmaður Bínu frænku hans gefið honum aukavasapening sem bjargaði honum fjárhagslega fyrstu dagana ytra.

Næstu sjö til átta árin var æfing í lestri og um leið þurfti hann að afla nægilegs fjármagns til að lifa af. Þetta voru erfið ár, þar sem hann bjó í óupphituðu herbergi og reyndi að borða nóg á Kannibal køkkenet við Kaupmannahafnarháskóla. Hann endaði með því að vera sá íslenski námsmaður í Kaupmannahöfn sem hlaut flesta námsstyrki en þá hlutu duglegir nemendur. Óttinn við að skorta fjárráð einkenndi hann til æviloka og geymslan okkar var alltaf full af mat og bílskúrinn var fylltur með ýmsum vörum sem erfitt gæti verið að fá á krepputímum.

Þegar kemur að því að minnast pabba er það ómögulegt án þess að minnast mömmu líka. Þau voru samheldin hjón og í okkar augum eru þau eitt. Með samvinnu náðu þau að samtvinna fjölskylduna ævistarfi pabba. Hann fékk tækifæri til að helga sig starfi sínu sem prófessor í vatnalíffræði við Kaupmannahafnarháskóla, ferðast á ráðstefnur víðsvegar um heiminn og vera virkur í vísindasamfélaginu. Mamma studdi hann og hvatti til dáða alla tíð, sem er meginástæða þess hve farsælt hans ævistarf varð. Þegar mamma lést árið 2018 missti pabbi mikið. Hún var ekki lengur til staðar til að hvetja hann til að setjast niður við skrifborðið, draga hann með á tónleika, ballett eða í leikhús, né til að skiptast við hann á málefnalegum skoðunum. Sem betur fer voru þau þá flutt í íbúð fyrir eldri borgara, þar sem hann gat borðað kvöldmatinn í góðum félagsskap annarra íbúa hússins. Við skynjuðum hversu mikið hann saknaði mömmu en hann kvartaði aldrei.

Þótt pabbi hafi helgað sig vísindastarfi sem vatnalíffræðingur og unnið hörðum höndum að rannsóknum sínum alla tíð var hlutverk hans heima fyrst og fremst að vera höfuð fjölskyldunnar, góður pabbi og síðar afi. Hann var alls ekki dæmigerður pabbi sem lék sér með okkur, heldur var hann miklu meira vinur, sem við gátum rætt við um allt milli himins og jarðar sem við stelpurnar veltum fyrir okkur á fyrstu skólaárum okkar. Hann vildi vita hvað við hefðum lært í skólanum og setti sig vel inn í okkar hugarheim.

Pabbi var einkar jákvæður maður og hvetjandi, sagði alltaf: Why not do it? Því ef maður fengi tækifæri eða ætti sér draum skyldi maður endilega láta á hann reyna og prófa. Maður ætti ekki að lifa í sinni takmörkun og svo hann sagði alltaf frågen er fri á sænsku, sem þýðir einfaldlega kostar ekki að spyrja. Með öðrum orðum að maður ætti að reyna ná þeim áföngum sem mann dreymdi um. Sennilega þekkja margir þessa hlið á pabba. Hann sagði líka science is fun og gaf þar með í skyn að það væri spennandi að rannsaka nýjar hugmyndir í nýju samhengi. Það væri spennandi að vera sá fyrsti til að rannsaka eitthvað. Hann hafði þennan viljastyrk sem fræðimaður en nýtti sér það einnig á öðrum vettvangi. Hann var óspar á að hvetja okkur til mennta og ól okkur upp við það að við hefðum nákvæmlega sömu möguleika og strákar.


Bestu vinum sínum kynntist hann í gegnum námið og var Saumaklúbburinn sérstaklega mikilvægur. Karlarnir í klúbbnum voru annaðhvort vatnalíffræðingar eða dýrafræðingar.

Einnig eignuðust mamma og pabbi vini í gegnum íslensk sambönd hér í Danmörku og í gegnum skóla og áhugamál okkar stelpnanna. Þeim þótti mikilvægt að við fjölskyldan værum hluti af dönsku samfélagi, eins og Danir. Innan veggja heimilisins vorum við samt íslensk fjölskylda og þar var oftast töluð íslenska. Það þykir sjálfsagður hlutur í dag en það var það ekki fyrir 50-60 árum. Þess vegna var fólk líka yfirleitt mjög hissa þegar það komst að því að pabbi væri Íslendingur því hann talaði fullkomna dönsku.

Pabbi var duglegur að bjóða heim gestum og mamma var alltaf tilbúin að taka á móti erlendum vísindamönnum og íslenskum ferðamönnum, sem lögðu leið sína til Danmerkur.

Þar hitti fólk hann í faðmi fjölskyldunnar, þar sem áherslan var meiri á hið daglega líf en vísindin. Áhugi okkar hinna á heimilinu var heldur ekki endilega tengdur raunvísindum og völdum við systur aðra braut en pabbi, fórum í hagfræði og lögfræði. Heima á Helsevej var pabbi metinn sem góður eiginmaður, faðir og síðar afi en ekki eftir fjölda útgefinna vísindagreina.

Lífið í Danmörku var öðruvísi en á Íslandi. Hér var ekkert náið fjölskyldusamband sem pabbi og mamma voru vön frá Íslandi. Aðeins Bína móðursystir pabba bjó í Birkerød. Bína hafði mikla þýðingu fyrir okkur öll. En Bína átti líka sína stóru fjölskyldu. Þess vegna urðum við fjölskyldan mjög náin. Föðuramma okkar Margrét var pabba afar mikilvæg. Þegar hún vissi að hann langaði til að mennta sig hvatti hún hann óspart. Hún sannfærði hann um að hann gæti náð langt ef viljinn væri fyrir hendi. Hún var honum fyrirmynd alla ævi.

Pabbi var félagslyndur með eindæmum og var yfirleitt alltaf í góðu skapi. Hann var öllum vinsamlegur og þrátt fyrir að hann bæri prófessorstitilinn með stolti umgekkst hann alla af sömu virðingu, óháð stétt eða stöðu. Hann var áhugasamur um annað fólk og þeirra líf. Þetta viðhorf fylgdi honum til æviloka.

Pabbi var með langan lista af því sem hann ætlaði að framkvæma í lífinu og listinn lengdist með árunum. Það er e.t.v. ekki dæmigert fyrir eldri mann en varð til þess að hann gleymdi að verða gamall! Eitt á listanum hans var t.d. að verða 100 ára, sem í hans huga var alls ekki að vera gamall, og það tókst! Þegar hann dó var hann með bók í smíðum og ætlaði sér að ljúka við hana, enda með nokkrar hugmyndir að greinum um ýmis mál, sem hann var ekki enn búinn að ljúka við. Þegar mamma og pabbi fluttu í íbúðina í Gammel Holte frá Hilleröd var ekki pláss fyrir bókasafnið. Þá var hann ekki í vafa um að það skyldi gefið Náttúruminjasafni Íslands og afhenti það sjálfur við hátíðlega athöfn í Reykjavík á fullveldisdaginn 2018.

Ef okkur væri til lista lagt að mála mynd af mömmu og pabba væri umhverfið íslenskt. Málverkið myndi skarta íslenska hestinum og fossi í baksýn. Mamma væri hesturinn sem fer á tölti og tryggir að vegurinn sé greiðfær. Pabbi er fossinn sem steypist fram í öllu sínu veldi, flæðandi hugmyndum og áhrifakrafti til breytinga. Líf pabba hafði sannarlega áhrif á framtíðina.

Við kveðjum pabba með þakklæti, hann var jákvæður pabbi og afi sem hvatti okkur öll til mennta og að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast í lífinu. Viljastyrkur hans hefur stuðlað að gæfu og vegsemd okkar allra. Nú er hann farinn á nýjar slóðir og vonandi hefjast ný ævintýri þar sem hann mun hitta mömmu, foreldra sína og gamla vini. Við þökkum fyrir að hafa fengið að hafa þig elsku Pétur, pabbi og afi.

Ástarkveðjur frá

Margréti, Kristínu, Claus, Henrik, Marcusi, Liv og Pétri.