ÍSLENSKIR SÓSÍALISTAR OG AUSTUR-ÞÝSKALAND Nýjar upplýsingar um tengsl sósíalista við A-Þýzkaland koma fram í sjónvarpsþætti Íslenzkur námsmaður njósnaði fyrir Stasi áÍ SJÓNVARPSÞÆTTI Vals Ingimundarsonar og Árna Snævarr, Í nafni sósíalismans, sem sýndur...

ÍSLENSKIR SÓSÍALISTAR OG AUSTUR-ÞÝSKALAND Nýjar upplýsingar um tengsl sósíalista við A-Þýzkaland koma fram í sjónvarpsþætti Íslenzkur námsmaður njósnaði fyrir Stasi

áÍ SJÓNVARPSÞÆTTI Vals Ingimundarsonar og Árna Snævarr, Í nafni sósíalismans, sem sýndur var á sunnudagskvöld, koma fram nýjar upplýsingar um tengsl íslenzku sósíalistahreyfingarinnar og kommúnistaflokksins í Austur-Þýzkalandi. Fram kemur að Guðmundur Ágústsson, núverandi útibússtjóri Íslandsbanka við Dalbraut, hafi unnið fyrir Stasi, austur-þýzku öryggislögregluna, á árunum 1963-1964. Jafnframt kemur fram að þess var farið á leit við Árna Björnsson þjóðháttafræðing að hann njósnaði fyrir Stasi. Öryggislögreglan fylgdist með þingmönnunum Svavari Gestssyni og Hjörleifi Guttormssyni, þeim síðarnefnda í því skyni að fá hann til starfa fyrir Stasi, samkvæmt skjölum, sem höfundar þáttarins hafa haft aðgang að.

Fram kemur í þættinum að taka verði skýrslum Stasi með þeim fyrirvara, að um persónulegt mat leyniþjónustumannanna, sem skrifuðu þær, sé að ræða.

Fá átti Hjörleif til að vinna fyrir Stasi

Fram kemur í skjölum Stasi að fylgzt var með Hjörleifi Guttormssyni, síðar alþingismanni og ráðherra, á árunum 1958-1961 en hann var þá í námi í Þýzkalandi. Í einni skýrslunni segir að njósnað hafi verið um Hjörleif með það fyrir augum að fá hann til að vinna fyrir Stasi.

Hjörleifur sagði í viðtali í þættinum að enginn, sem kynnt hefði sig sem fulltrúa Stasi, hefði nokkurn tímann talað við sig. "Ef þeim hefur verið það í huga, varð aldrei af því," sagði Hjörleifur.

Í þættinum segir að ekkert í skýrslunum gefi til kynna að Hjörleifur hafi sýnt því áhuga að vinna fyrir leyniþjónustuna. Útsendarar Stasi töldu Hjörleif hins vegar hliðhollan Þýzka alþýðulýðveldinu og kommúnistaríkjunum yfirleitt. Eftir því sem höfundar þáttarins komast næst, var hætt að njósna um Hjörleif í nóvember 1961.

Vann undir dulnefninu Karlsson

Í þættinum er sagt frá því að í leyniskjölum Stasi komi fram að Íslendingur, Guðmundur Ágústsson, sem lauk hagfræðiprófi frá Hochschule f¨ur Ökonomie í Berlín 1963, hafi gengið til liðs við öryggislögregluna á því ári.

Í þættinum segir: "Í þessum gögnum er því lýst hvernig Íslendingurinn, sem fyrst var aðeins nefndur A, hitti leyniþjónustumanninn Willmann höfuðsmann. Féllst hann á að ganga á mála hjá öryggislögreglunni á kaffihúsinu Budapest í Austur-Berlín. Þar kemur fram að Íslendingnum hafi verið tjáð að óvinurinn, Vestur-Þjóðverjar, ætlaði að efna til æsinga meðal námsmanna í Austur-Þýzkalandi. Stasi hefði gripið til gagnaðgerða og talið bezt að fá útlending til verksins, enda væri hann félagi í bræðraflokki SED."

Guðmundur hafnaði viðtali við höfunda þáttarins, en jafnframt segir í sjónvarpsþættinum: "Skýrslur Stasi sýna að hann vann nokkur verkefni fyrir öryggislögregluna á árunum 1963 og '64 undir dulnefninu Karlsson. Guðmundur gat ferðazt nokkuð óhindrað til Vestur-Berlínar og átt þangað erindi sem fréttaritari Þjóðviljans. Verkefni hans voru meðal annars að fá aðra Íslendinga í Vestur-Berlín til að vinna fyrir Stasi og afla upplýsinga um námsmenn og háskólalíf."

Hafði sjálfur frumkvæði

Eitt verkefna Guðmundar var að fylgjast með undirbúningi og öryggisaðgerðum lögreglunnar í Vestur-Berlín vegna mótmælaaðgerða á degi verkalýðsins 1. maí 1963.

Í viðtali við Holger Kulick, blaðamann og sérfræðing um málefni Stasi, kemur fram að skýrslur öryggislögreglunnar sýni að Guðmundur hafi ekki aðeins tekið við verkefnum, heldur komið með hugmyndir að eigin frumkvæði og bent á einstaklinga, sem kynnu að vera áhugaverðir í augum öryggislögreglunnar.

Kom á sambandi við Árna

Fram kemur í Stasi-skjölum að Guðmundur Ágústsson hafi haft milligöngu um að koma Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi í samband við Stasi. Árni kenndi Íslenzku við Freie Universit¨at í Vestur-Berlín 1963-1965, en hafði áður stundað kennslu í Greifswald í Austur-Þýzkalandi. Háskólayfirvöld höfðu nývarað Árna við því að hann yrði beðinn að njósna fyrir Rússa, er Stasi hafði samband við hann og bað hann að stunda njósnir.

Árni segist í viðtali í þættinum hafa fengið skilaboð að austan "þar sem ég er beðinn um að gefa vissar upplýsingar um eitt og annað þarna í háskólanum. Þetta er nú víst í eina skiptið á ævinni, sem ég hef verið beðinn að stunda njósnir," segir Árni. "Ég lét skila til baka að ég hefði engan áhuga á svona löguðu og þar með hélt ég að málið væri úr sögunni. En svo var nú aldeilis ekki."

Féllst á að hitta Stasi-mann

Að sögn Árna kom í heimsókn til hans systurdóttir hans, sem eitt kvöldið skilaði sér ekki aftur frá Austur-Berlín, þar sem hún hafði farið í leikhús, og hann grennslaðist fyrir um hana á landamærastöð. "Ég var settur þarna inn í herbergi og látinn bíða heillengi," segir Árni í þættinum. "Loksins kom þarna inn maður, sem spurði mig hvort ég hefði ekki fengið skilaboð frá þeim í öryggisþjónustunni einhvern tímann í sumar. Ég játaði því en spurði um þessa ungu frænku mína í leiðinni. Hann spurði mig þá hvort ég vildi ekki endurskoða afstöðu mína og ræða við þá. Ég var hræddur um stelpuna og á endanum féllst ég á að hitta manninn nokkrum dögum seinna. Síðan kom í ljós að stelpan hafði bara gist hjá vinkonum sínum fyrir austan. Nú var spurningin sú: Átti ég nú að standa við orð mín og hitta ólukku manninn? Ég var hræddur um að ef ég gerði það ekki, myndi ég lenda í eilífum vandræðum í hvert skipti, sem mig langaði til að skreppa austur fyrir. Þannig að það varð úr að ég hitti manninn og talaði við hann í svona hálfan annan tíma þarna á kaffihúsi."

Í Stasi-skýrslu kemur fram að leyniþjónustumaðurinn hafi viljað að Árni aflaði upplýsinga um háskólastarf í Austur-Berlín. Í skýrslunni kemur sömuleiðis fram, að því er sagt er frá í sjónvarpsþættinum, að Árni hafi fallizt á að íhuga málið, en verið tregur til samstarfs. Hann hafi sagt að kæmist upp að hann væri í tengslum við Stasi, myndi það hafa slæmar afleiðingar fyrir Sósíalistaflokkinn á Íslandi og hann sjálfan.

Árni segir í sjónvarpsþættinum: "Maður var hálfsmeykur um sjálfan sig, í þessu landi þar sem ekki var einu sinni íslenzkt sendiráð til að leita til. Þannig að maður þorði ekki að vera mjög ögrandi við manninn. En mér tókst að humma þetta fram af mér með því að ég skyldi lofa að hugsa málið. Svo varð ekkert frekar úr þessu."

Af hálfu höfunda Í nafni sósíalismans kemur svo fram að Stasi-skjölin staðfesti að ekki hafi komið til neinnar samvinu Árna og Stasi úr þessu.

Heppilegt að Þjóðviljinn fengi austur-þýzka prentvél

Í þætti Vals og Árna er skýrt frá því að Stasi hafi haft auga með Svavari Gestssyni, núverandi alþingismanni, en hann var við nám í Austur-Berlín 1967-1968. Skýrslur voru haldnar um Svavar, en þær voru eyðilagðar af ókunnum ástæðum 25. júní 1989, að því er fram kemur í þættinum.

Jafnframt er frá því sagt að eftir innrás Varsjársbandalagsríkjanna í Tékkóslóvakíu árið 1968 hafi bein flokksleg tengsl íslenzkra sósíalista við Sozialistische Einheitspartei Deutschlands (SED), systurflokkinn í Austur-Þýzkalandi, rofnað. Engu að síður hafi Einar Olgeirsson, fyrrverandi formaður Sameiningarflokks alþýðu-Sósíalistaflokksins, farið fram á að Austur-Þjóðverjar kæmu því til leiðar að fréttaritari Þjóðviljans gæti starfað áfram í Austur-Berlín eins og áður hefði tíðkazt.

"Mæltist hann til að þetta yrði ekki rætt við forystu flokksins [Alþýðubandalagsins] heldur beint við Svavar Gestsson, þáverandi ritstjóra blaðsins [Þjóðviljans], sem væri hlynntur því að taka upp nánara samband við austantjaldsríkin," segir í þættinum. "Benti Einar á að vænleg leið til að efla tengslin væri að Austur-Þjóðverjar sæju Þjóðviljanum fyrir prentvél."

Svavar segir í þættinum að hann hafi aldrei heyrt áður að skýrslur hafi verið haldnar um sig hjá Stasi. "Það kæmi mér ekkert á óvart þótt einhverjir pappírar einhverra stúdenta hafi týnzt einhvers staðar í þessum geggjuðu haugum, sem ég hef lesið í Spiegel að séu til þarna," segir Svavar.

Hvað varðar tengsl Austur-Þjóðverja við Þjóðviljann og ábendingar Einars Olgeirssonar, segir Svavar í þættinum: "Ég var auðvitað eini ritstjóri Þjóðviljans - virki ritstjóri Þjóðviljans á þeim tíma sem þetta viðtal á sér stað samkvæmt þessari skýrslu, sem þú hefur sýnt mér, þannig að ég ímynda mér að það sé þess vegna, sem hann hefur bent á mig. Hitt, til dæmis með prentvélina og þetta - ég hef aldrei heyrt það fyrr." Svavar gat sér þess til að Einar hefði ekki verið sáttur við afstöðu Alþýðubandalagsins gagnvart kommúnistaríkjunum eftir 1968 og skýrslan kynni að endurspegla óskir hans eða Austur-Þjóðverja um breytingar á sambandinu.

Ragnar Arnalds andsnúinn endurnýjuðum tengslum

Samkvæmt austur-þýzku skjölunum, sem í var vitnað í sjónvarpsþætti þeirra Árna og Vals, vildu nokkrir félagar í alþjóðanefnd Alþýðubandalagsins fylgjandi því, eftir 1968, að taka upp nánari tengsl við austantjaldsríkin til að knýja á um stefnubreytingu til vinstri í Alþýðubandalaginu. Ragnar Arnalds, fyrsti formaður Alþýðubandalagsins, hefði hins vegar verið slíku mjög mótfallinn.

Guðmundur

Ágústsson:

Vann nokkur verkefni fyrir Stasi.

Árni

Björnsson: Sagðist myndu hugsa málið en hafðist ekki að.

Svavar

Gestsson:

Skýrslur Stasi um hann eru týndar.

Hjörleifur

Guttormsson:

Átti að fá hann til að njósna fyrir Stasi.

Sjónvarpið

Stasiskýrsla um Guðmund Ágústsson greinir frá því að hann hafi verið fenginn til starfa fyrir Stasi á fundi á kaffihúsi.

Stasi sagði um Hjörleif Guttormsson að hann væri hliðhollur kommúnistaríkjunum. Myndirnar eru úr Í nafni sósíalismans.

Stasi taldi Guðmund Ágústsson sýna eigið frumkvæði í störfum sínum og benda á einstaklinga