Halla Soffía Guðmundsdóttir fæddist á Akureyri 21. apríl 1936. Hún lést á heimili sínu Víðilundi 24 á Akureyri 12. nóvember 2020.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Magnússon múrarameistari f. 14.11. 1910 d. 30.10. 1972 og Kristín Guðbjörg Magnúsdóttir f. 11.10. 1913 d. 21.10. 2011. Systkini hennar eru Magni f. 1933, Viðar f. 1939, Margrét f. 1945, Oddný f. 1943 og Sigurgeir f. 1952.

Eiginmaður Höllu er Halldór Karl Karlsson f. 20.02. 1930. Þau gengu í hjónaband 19.05. 1956. Börn Höllu og Halldórs eru: 1. Guðmundur Karl Halldórsson f. 27.11. 1955, maki Þórdís Þórisdóttir f. 25.09. 1958. Sonur þeirra er Guðmundur Ívar. 2. Karl Ásgrímur Halldórsson f. 16.05. 1957, maki Þórunn Jónsdóttir f. 13.07. 1957. Þau eiga þrjár dætur, Margrét Rún, Elva Rán og Andrea Ösp. 3. Þórhalla Halldórsdóttir f. 10.03. 1960, maki Svavar Tulinius f. 04.06. 1960. Þeirra börn eru Helgi Már, Halldór Örn og Halla Soffía. 4. Kristín Guðbjörg Halldórsdóttir f. 22.03. 1967, maki Magnus Rönnlund f. 16.09. 1967. Börn þeirra eru Viktor Alexander, Rebekka Lind og Kristófer Gunnar. Langömmubörn Höllu eru 13.

Halla flyst med foreldrum sínum til Reykjavíkur 1953 og aftur til Akureyrar eftir að Halldór og hún giftu sig 1956. Þau bjuggu síðan á Akureyri allan sinn búskap. Hún var heimavinnandi þar til börnin voru komin á legg, þá fór hún út á vinnumarkaðinn og starfaði lengst af við verslunarstörf í vefnaðarvörudeild KEA.

Útför hennar fer fram frá Akureyrarkyrkju í dag 20 nóvember 2020 kl. 13.30.

Athöfninni verður streymt á Facebooksíðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju – beinar útsendingar:

https://tinyurl.com/y5cpxdvz

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat


Amma og afi bjuggu lengst af í okkar minningu í Byggðaveginum og voru heimsóknirnar þangað nokkuð tíðar enda þangað alltaf ákaflega gott að koma. Móttökurnar voru ávallt innilegar og heimilið var alltaf hlýlegt og notalegt enda amma mikil húsmóðir. Hún passaði vel upp á að alltaf væri til eitthvert góðgæti í hornskápnum í eldhúsinu og þegar við komum í heimsókn var yfirleitt það fyrsta sem amma gerði að spyrja hvort við værum ekki svöng og vippa fram kræsingum sem oft á tíðum voru heimagerðar. Kleinurnar hennar ömmu voru í sérstöku uppáhaldi enda þær allra bestu og ófáar minningar tengdar bakstrinum á þeim enda fengum við barnabörnin stundum að hjálpa til við að snúa áður en þær voru steiktar og var amma ávallt tilbúin til að leiðbeina og kenna við það sem og flestallt annað sem við tókum okkur fyrir hendur hjá henni.

Það voru ófá skiptin þegar við fengum að gista hjá ömmu og afa og voru þau skipti það næsta því sem við komumst að gista á 5 stjörnu hóteli. Morgunmaturinn alltaf heitur og tilbúinn þegar við vöknuðum, oftast ristað brauð með eggjum og kavíar. Í hádeginu var síðan oft boðið upp á skyr í matinn en ömmu tókst einhvernveginn að hræra skyrið allt öðruvísi en öllum öðrum, a.m.k. var skyrið hennar ömmu alltaf miklu betra en annars staðar. Ef til vill var það vegna þess að amma setti yfirleitt slurk af sykri saman við það. Matseldin hjá henni var yfirleitt mjög hefðbundin og oft á tíðum einfaldlega upp á gamla mátann svona alvöru heimilismatur sem var vel brasaður og ljúffengur. Það var alltaf hægt að stóla á að maður færi saddur og sáttur frá ömmu og afa þegar maður hafði setið þar að snæðingi og oftar en ekki var einhverju góðgætinu úr skápnum góða í horninu laumað í poka og í vasann hjá manni áður en maður fór. Það var einnig óbrigðult að maður var kvaddur með kossi og knúsi sem var svo fast og innilegt að aldrei fór á milli mála að maður fann innst inn að hjartarótum hvað maður var elskaður.

Ófáar voru ævintýrastundirnar sem við áttum með þeim í Fnjóskadalnum þar sem þau höfðu landskika í landi Fjósatungu undir hjólhýsið sitt. Fátt var skemmtilegra en að fá að fara með ömmu og afa í volvoinum þar sem Villi Vill og Ríó tríó hljómuðu ásamt fleiri klassískum smellum, lá leiðin í hjólhýsið þeirra þar sem við áttum margar góðar stundir saman og ávallt voru þau til í að taka þátt í leik og starfi okkar barnabarnanna. Þar var byrjað snemma með morgunmat að hætti ömmu og dagurinn í framhaldi fullur af ýmsum ævintýrum. Göngutúrar við ána, tína fallega steina og drullumalla í gömlu tóftunum þar sem amma tók þátt í öllu. Það kom einstaka sinnum fyrir að maður fékk skammir ef maður fylgdi ekki alveg reglunum við ána en skammir frá ömmu voru einhvernveginn þannig að maður vissi upp á hár að maður hafði ekki gert rétt. En henni tókst samt á einhvern undraverðan hátt að lauma með svolitlu brosi svo maður fann og vissi að skammirnar voru bara fyrir einskæra ást og umhyggju fyrir okkur.

Þessi umræddi svipur hjá ömmu dúkkaði líka stundum upp við aðrar uppákomur. Til dæmis mátti sjá honum bregða fyrir þegar við systkinin komum í heimsókn og búið var að bæta við nýju gati í eyrað eða enn einu húðflúrinu. Þá setti sú gamla upp svipinn sem var svo auðlesinn og mátti þar lesa: Ég hefði nú kannski kosið að þið hefðuð látið vera að gera þetta en ég er samt svo ánægð að þið eruð hamingjusöm og svo fylgdi alltaf innilega ástarknúsið hennar ömmu með í kjölfarið og koss á kinnina.

Amma fylgdist alla tíð vel með öllu sínu fólki og bar hag okkar allra fyrir brjósti og vildi fá fréttir af öllu sem dreif á okkar daga sama hvar við vorum stödd í heiminum eða hvað bar upp á daginn hjá okkur. Fjölskyldan öll var henni sem gull og gersemar og var hún afar stolt af öllum afkomendum sínum og stuðninginn frá henni vantaði aldrei. Það var alveg sama hvað var tekið sér fyrir hendur, það mátti alltaf stóla á stuðning frá ömmu. Hún var alla tíð hófsöm og hæglát kona sem tók sinn tíma í að ígrunda áður en hún tók ákvarðanir, hún var sanngjörn og tillitssöm við allt og alla og kannski örlítið gamaldags í háttum og hefðum en afar stolt og góðvild hennar fylgdi henni alla tíð og náði langt út fyrir fjölskylduna.

Faðmur hennar var alltaf opinn og eigum við eftir að sakna þess að fá ekki lengur að njóta alls þess sem hún veitti okkur öllum. Minningarnar eru margar og góðar og við munum geyma þær hjá okkur um ókomna tíð. Elsku amma, takk fyrir þetta allt og alla þína ást og hlýju. Þú hefur klárlega haft áhrif á það hver við erum og hvaða einstaklingar búa innra með okkur um ókomna tíð.

Þín barnabörn,


Helgi Már Tulinius Halldór Örn Tulinius Halla Soffía Tulinius