Jón Halldórsson fæddist í Hafnarfirði 21. ágúst 1936. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Fossvogi 26. desember 2020.
Foreldrar Jóns voru hjónin Ólöf Gísladóttir frá Vesturholtum í Þykkvabæ, f. 13. júlí 1898, d. 27. febrúar 1969, og Halldór Halldórsson frá Sauðholti í Holtum, f. 21. desember 1895, d. 24. júlí 1941. Jón var áttundi í röð tíu systkina, en þau voru í aldursröð: Þórhallur, Jóna, Karl, Gísli, Óskar, Svavar, Halldór, Jón, Þórdís og Sveinn. Gísli og Þórdís eru enn á lífi.

Jón ólst upp í Hafnarfirði og bjó þar alla tíð. Hann starfaði hjá Varnarliðinu í Keflavík frá 22 ára aldri til enda starfsferilsins, en Jón vann til sjötugs. Hinn 25. október 1958 kvæntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Ragnhildi Jónsdóttur, f. 28. september 1940. Börnin eru fjögur: 1) María Sigrún, gift Þorsteini Gíslasyni, þeirra börn eru: a) Eir, börn hennar eru Elísa Eir og Bjarki Steinn. b) Hlín, börn hennar eru Sóley Sara, María Malín og Ísmael Ísak, barn Sóleyjar Söru er nýfæddur drengur. 2) Sigrún, dóttir hennar er Anna María, gift Viggó Erni Guðbjartssyni, þeirra börn eru: Aníta, Hanna Silja og Daníel Tristan. Barn Hönnu Silju er Hrafntinna María. 3) Hrafnhildur, gift Eyvindi Gunnarssyni, börn þeirra eru: a) Elísabet Ósk, sambýlismaður hennar er Mattias Lindau. Barn Elísabetar er Emil Darri. b) Ragnhildur Jóna, sambýlismaður hennar er Birgir Steinn Einarsson. Börn Ragnhildar Jónu eru Embla Björg, Jóel Bessi, Ásdís María og Aníta Mist. c) Benedikt Elí. 4) Úlfar, giftur Helgu Sigurgeirsdóttur, þau eiga þrjú börn: a) Aron, b) Unni Elsu og c) Hilmar Jón.

Jón starfaði mestallan sinn feril hjá Varnarliðinu í Keflavík sem verkstjóri í viðhaldsdeild húseigna. Hann lauk námi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði en menntaði sig síðar ásamt vinnu, þá helst á sviði forritunar. Jón lék knattspyrnu á yngri árum, var ávallt mikill Haukamaður og mætti á nær alla handboltaleiki á Ásvöllum. Hann stundaði golfíþróttina af miklu kappi hjá Golfklúbbnum Keili og sinnti þar stjórnunarstörfum um tíma.
Útför Jóns verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. janúar 2021, og hefst athöfnin klukkan 13. Vegna takmarkana á fjölda gesta við útförina er fólki bent á streymi frá athöfninni á https://livestream.com/accounts/5108236/events/9471837

Með miklum söknuði kveð ég pabba, en hann hafði glímt við veikindi í næstum tvö ár og var búinn að vera á spítala frá í júlí. Það var erfitt að sjá þessa þróun á pabba sem hafði alltaf hugsað vel um heilsuna og mataræðið, stundað golfið af kappi seinustu 45 ár eða svo, en svona er gangur lífsins.
Það var vont að geta ekki heimsótt hann að neinu ráði seinustu vikur og mánuði út af takmörkunum, en það var mjög vel hugsað um hann á spítölunum og fyrir það erum við fjölskyldan hans afar þakklát. Frá því hann var lagður inn ætlaði hann bara að stoppa stutt við, hann var ákveðinn í að fara heim. Í hvert sinn, sem eitthvert af okkur sem máttum heimsækja hann kom, spurði hann hvort hann mætti ekki koma með heim. Eitt sinn spurði hann mig hvort ég gæti ekki skutlað honum heim í leiðinni, hann þyrfti bara að klæða sig og svo gætum við farið. Í byrjun október hafði honum hrakað mikið og vorum við systkinin og mamma kölluð til þar sem e.t.v. væri hann að yfirgefa okkur þá. En hann hjarnaði við og náði sér býsna vel, í nokkrar vikur. Já, þrjóskur var hann í þessu sem mörgu öðru, hann ætlaði að ná bata.
Á Þorláksmessu fékk hann óvænt pláss á Hrafnistu í Hafnarfirði og var fluttur þangað um miðjan dag. Gísli bróðir hans, sem dvalið hefur á Hrafnistu undanfarin 15 ár, hlakkaði mikið til að taka vel á móti Nonna bróður sínum. Þótt pabbi hafi ekki getað tjáð sig um nokkurn tíma þá horfðust þeir í augu í drykklanga stund, það var ljóst að pabbi þekkti bróður sinn. Tíu tímum síðar missti pabbi meðvitund og var fluttur á Landspítalann í Fossvogi. Ferðalagið á Hrafnistu hafði svo sannarlega fallegan tilgang.
Við fengum að vera hjá pabba seinustu tvo sólarhringana og hann fékk friðsælt andlát í faðmi fjölskyldunnar. Þótt sorgin sé mikil þá er það líka mikið þakklæti sem kemur upp í hugann, fyrir allt sem hann gaf okkur, en fjölskyldan var alltaf aðalatriðið hjá honum.
Pabbi hafði alltaf mikinn áhuga á íþróttum, var Haukamaður í húð og hár og sótti alla heimaleiki handboltans á Ásvöllum meðan hann hafði heilsu til. Hann stundaði badminton lengi vel en síðan kynntist hann golfíþróttinni hjá Golfklúbbnum Keili í kringum fertugt, og það varð ekki aftur snúið. Ásamt félögum sínum stundaði hann golfið af kappi og náði góðum árangri, en pabbi var með mjög flotta sveiflu sem skilaði honum m.a. tvisvar sinnum holu í höggi!
Það var örlagaríkur dagur þegar hann tók mig með á golfvöllinn níu ára gamlan og skildi mig eftir með pútter og eina kúlu á æfingaflötinni við klúbbhúsið meðan hann skrapp níu holur. Þetta nægði mér til að liggja kylliflatur fyrir golfinu og fljótlega þurfti ég fleiri kylfur en pútter. Golfvöllurinn var góð barnapía fyrir mig, það þurfti ekki að hafa áhyggjur af mér þar. Golfið hefur gefið mér ótrúlega mikið; ánægju og ástríðu, vini, afreksferil og starfsferil. Golfið verður með mér til æviloka rétt eins og var hjá þér, fyrir það er ég þér og mömmu, sem sá oft um skutlið og kylfuberastörf, óendanlega þakklátur.
Við fórum í fyrstu golfferðina saman þegar ég var 16 ára, ásamt golffélögum þínum Gústa og Balla, til Írlands. Þar keyrðum við um eyjuna þvera og endilanga á 10 dögum og spiluðum jafn marga golfvelli, einn á dag, en kappið var mikið og mikilvægt að nýta tímann vel, sem við gerðum. Eftir það spiluðum við saman í Flórída, Spáni og víðar. Seinasta ferðin okkar saman var til Póllands sumarið 2018 þar sem við Helga mín spiluðum með ykkur mömmu í fimm daga. Einnig fórum við nokkrum sinnum saman í fjölskylduferðir til Spánar, þér leið best í hita og sól, með fjölskyldunni. Minningar frá svona ferðum saman eru dýrmætar og ylja manni.
Þú einfaldlega elskaðir að ferðast og varst alltaf jafn spenntur að leggja af stað suður í Leifsstöð, það var svo sannarlega passað upp á mæta að vel tímanlega. Alltaf voru a.m.k. 1-2 ferðir skipulagðar fram í tímann, það var gott að hafa markmið og komast á suðrænar slóðir á veturna.
Pabbi hafði mikinn áhuga á tölvum og forritun og fyrir framan tölvuna heima gastu tekið á loft í golfhermi þar sem þú varst flugstjórinn og réðst áfangastaðnum. Pabbi hafði mörg áhugamál og vildi einfaldlega alltaf hafa nóg fyrir stafni og eftir starfslok lærðirðu tréskurð og að mála, og varst mjög fær á þeim sviðum, enda einstaklega vandvirkur og laghentur. Að elda góðan mat, sérstaklega að grilla fyrir hópinn, það fannst honum nú ekki leiðinlegt. Það var alltaf gott að geta leitað til þín með ráð varðandi heimilið, ég hringdi nú, oftar en ein jól, til að fá ráð með hamborgarhrygginn og sósuna. Eða þá endurbætur á heimilinu, hvort sem það var rafmagn eða ýmsar viðgerðir, enda með gríðarlega reynslu í þínu starfi.
Margt áttum við sameiginlegt, og eitt af því var að fá okkur smá koníak eftir góðan mat. Í haust náðum við nokkrum sinnum að njóta koníakstára sem ég laumaði með mér þegar ég mátti heimsækja pabba á spítalann, og gat líka sagt honum hversu góður pabbi og afi hann væri.
Pabbi varð 84 ára, 62 ár giftur mömmu, fjögur börn, fimm ættliðir. Minningin lifir áfram.
Takk fyrir lífið og hvíl í friði elsku pabbi.
Þinn sonur,

Úlfar.