Birgir Svan fæddist 3. nóvember 1951. Hann lést hinn 25. desember 2020. Foreldrar hans voru Guðjón Símonarson skipstjóri og Elín Friðriksdóttir. Birgir var annar í röð þriggja barna þeirra hjóna. Elstur er Ólafur Haukur, f. 1947, en yngstur er Guðjón, f. 1964. Hálfbróðir þeirra er Friðrik Guðmundsson, f. 1944.
Birgir kvæntist 29.9. 1981 Stefaníu Erlingsdóttur, f. 1953. Foreldrar hennar voru Guðrún Gísladóttir, f. 1916 og Erlingur Eyland Davíðsson, f. 1916, sem bjuggu á Vatnsvegi 30 í Keflavík. Systkini Stefaníu eru Örn (lést 2019), Þorsteinn, Steinn, Steinunn og Pálína. Birgir og Stefanía skildu.
Börn Birgis og Stefaníu eru: 1. Steinar Svan, f. 1982, unnusta Marta Sóley Helgadóttir, f. 1983, og 2. Símon Örn, f. 1984, maki Íris Anna Randversdóttir, f. 1983, börn Helgi Randver og Kári Birgir, f. 2016, og Grímur Björn, f. 2018.
Unnusta Birgis til síðustu fimm ára er Guðný Jónsdóttir, f. 1957. Foreldrar hennar eru Guðríður Ólöf Kjartansdóttir, f. 1926 og Jón Andrésson, f. 1931, d. 2018. Guðný á þrjá uppkomna syni, Trausta, Ísak og Eystein og þrjú barnabörn.
Birgir Svan ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur á Framnesveginum. Hann útskrifaðist sem stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík og gat sér fljótt gott orð sem ljóðskáld. Á árunum 1975-1980 kom Birgir fram með Listaskáldunum vondu á upplestrum víða um land og gaf út vinsælar ljóðabækur. Árið 1977 kynntist Birgir fyrrverandi eiginkonu sinni, Stefaníu Erlingsdóttur, á Mokka á Skólavörðustígnum. Þau hófu búskap á Bárugötu í Reykjavík, fluttu þaðan í Þingholtsstræti 26 en keyptu svo gamalt einbýlishús á Urðarstíg í Hafnarfirði sem þau gerðu upp og varð heimili fjölskyldunnar. Birgir vann sem kennari á Reyðarfirði (1975-1976), Unglingaheimili ríkisins (1976-1977), Grunnskóla Mosfellsbæjar (1978-1979) og Meðferðar' og skóladagheimili við Kleifarveg (1979-1981). Fjölskylda Birgis og Stefaníu stækkaði og þau lögðu land undir fót. Birgir kenndi við Grunnskólann á Hellissandi á Snæfellsnesi (1981-1983), Grunnskólann Hallormsstað (1984-1985) og Grunnskóla Akureyrar (1985-1986). Árið 1986 hóf Birgir störf sem kokkur og háseti á togaranum Erlingi KE 45. Hann hafði áður farið á sjó sem unglingur á bát föður síns, Ásbjörginni RE55. Hann kenndi eitt ár við grunnskóla í Keflavík (1990-1991) og hóf svo störf í Kópavogi í Hjallaskóla (1991-1998), þar næst í Hvammshúsi, sérúrræði fyrir börn með hegðunar- og námsvanda. Þar starfaði Birgir sem kennari og forstöðumaður (1998-2009). Þar næst í sérúrræðinu Tröð (2010-2017) og  í ráðgjafateymi sem ferðaðist milli skóla í Kópavogi. Í einni slíkri heimsókn kynntist hann Guðnýju Jónsdóttur sem átti eftir að verða förunautur hans í lífi og list síðustu ár ævi hans. Meðfram kennslustörfum hélt Birgir áfram ritstörfum og gaf út á sínum ferli yfir 20 bækur - ljóð, prósa, örsögur, barnabækur og þýðingar.

Útför fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði
8. janúar klukkan 15. Steymt verður frá útför:

https://livestream.com/accounts/15827392/events/9465980

Virkan hlekk á slóð má finna á

https://www.mbl.is/andlat

Á jóladag kvaddi ég pabba minn

Þá hafði hann barist í rétt rúman áratug við illvígan krabba sem að lokum sigraði hann og varð honum að aldurtila.

Okkur pabba kom vel saman. Áttum ótal stundir sem nú fara í minningabankann. Eins og þegar hann studdi mig í gegnum veikindi mín, bjargfastur sem klettur og hafði óbeilandi trú á því að lækning fyndist handa frumburðinum. Sú varð og raunin. Hann studdi mig í gegnum grunnskólann. Þrátt fyrir ömuleg æskuár í grunnskóla, tíu ára einelti í Lækjarskóla, leikfimiskennara sem niðurlægði mig fyrir framan bekkinn í öll þessi ár, komst ég samt í gegnum þau og fékk að lokum verðlaun í smíðum og góða umsögn frá mörgum kennurum í skólanum kenndum við Lækinn.

Ég minnist þess þegar hann minnti mig á hversu ég hefði verið duglegur að spara á mínum yngri árum, hvort ekki væri ráð að skrapa saman þeim örfáu krónum hér og hvar sem mér höfðu áskotnast og sjá hvort ekki dygði fyrir útborgun í íbúð. Sú varð og raunin. 25 ára flutti ég að heiman inn í tilbúið undir tréverk og fyrir tilstilli minnar eigin ráðdeildar, aðstoð pabba og mömmu tókst að standsetja íbúðina og gera mér kleift að flytja inn. Síðan þá eru nú liðin hartnær sextán ár. Í upphafi taldi ég nær ógerlegt að ég gæti sökum bágrar stöðu borið hitann og þungann af útgjöldum af eigin húsnæði, pabbi sagði mér að þær áhyggjur væru óþarfar. Hann myndi brúa bilið ef þyrfti. Þess þurfti ekki. Mér tókst það sem ég ætlaði mér og hann trúði að ég gæti gert, staðið á eigin fótum og gert það með glæsibrag. Ég minnist parketlagnar þeirra mömmu og pabba þegar þau ákváðu að leggja misfellunum og vinna saman að einbeittu markmiði, nefnilega að parketleggja hjá frumburðinum, eftir að pabba hafði tekist að tryggja eðalparket með KR-afslætti hjá Agli nokkrum þótt ekki hafi hann verið Skallagrímssonur.



Ég minnist eins magnaðasta símtals sem rekið hefur á fjörur mínar. Þegar pabbi ráðþrota, með mömmu sér við hlið, tekur upp símann eftir að hafa dottið niður á símanúmer hjá heila- og taugaskurðlækni, vegna veikinda minna. Pabbi hringir í einn færasta lækninn í bransanum, Kristin Björnsson, og spyr hvort þetta sé ekki örugglega rétti maðurinn, pabbi ber upp erindið, læknirinn biður um að fá að tala við drenginn sem málið snerist um, eftir stutt spjall okkar í milli var ég á leiðinni undir hnífinn og þessi maður átti skömmu síðar eftir að bjarga lífi mínu. Þökk sé bjargfastri trú pabba á að láta reyna á hjálpsemi og liðsinni læknisins.

Um leið minnist ég fólksins sem fylgdi pabba, risans, vinar pabba, oft nefndur Jói nokkur stóri. Hvernig leiðir rúmlega tveggja metra manns og pabba gátu legið saman var mér flókin þraut úrlausnar og að skilja. En ég kunni vel við þeirra vinarþel sem og annarra sem í kringum pabba voru. Jóa nokkurs Herbertssonar, vinar og samstarfsfélaga til nokkurra ára, þeirra vinátta var bjargföst og traust og stóð í áraraðir.

Gamla mannsins Jóns Þorleifs sem pabbi kynntist í prentsmiðjunni Letri. Sigurjóni, hugsjónamanni í útgáfu neðanjarðarskáldanna. Hann hafði óbilandi trú þvert á fortölur annarra um rétt sérhvers höfundar með brýnt erindi að koma kveri viðkomandi út og það í áþreifanlegu formi. Verksmiðjan skyldi ræst og eintökunum skellt í kassa og allt geirneglt og innsiglað með gæðastimpli trúaða heiðursmannsins Sigurjóns í Letri.



Ég minnist uppreisnar pabba eftir misþyrmingu eins útgefenda á ritverki hans, sem birtist í því þegar einkennismerki útgefandans var sett sem veggfóður á bók pabba. Sennilega átti þetta sér stað sökum ritstjórnarfrelsins gefins af pabba við útgáfu bókarinnar. Eftir þau örlagaríku mistök ákvað pabbi að hans bækur skyldu gefnar út af honum sjálfum og á hans kostnað og þá undir þeim merku einkunnarorðum sem hann gerði að sínum og skreyttu flest ritverk hans, nefnilega Fótmál neðanjarðar. Því fylgdu sem að líkum lætur kostir og gallar. Þegar fjölskylduhagir eru bágbornir sem þeir voru oftast nær á mínum æskuárum verður reikningsdæmið ekki einfaldara þegar fyrirvinnan tekur vænan skerf úr heimilisbókhaldinu og hendir í vonlausa útgáfu án kynningar. En hugsjónin spyr vissulega ekki alltaf um stað, stund og rök. Þá verða oft örþrifaráð skynseminni yfirsterkari.



Einnig leitar hugurinn á vit æskuheimilis míns, Urðarstígsins númer 2, þeim í Hafnarfirði, gula hússins sem pabbi tók í nefið og endurbyggði svo gott sem frá grunni, hann gerði bágborið hús að prýðilegri vistarveru fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Með árunum fór þó húsið ört minnkandi þótt áfram teldi það sama fjölda fermetra. Þá fór pabbi í smíðagallann þótt ekki væri hann smíðamenntaður og reisti með dyggri aðstoð fagmanna viðbyggingu við húsið, sem gerði okkur mögulegt að láta húsið fylgja okkur þar til kom að því að smáfuglarnir flugu úr hreiðrinu.



Þrátt fyrir neðanjarðarútgáfu í áratugi upplifði pabbi vissulega frægð og frama þegar hann tók þátt í ritlistarhópnum Listaskáldunum vondu. Með þau skáld var flogið landshluta á milli líkt og um rokkstjörnur væri að ræða, hljómsveit látin fylgja þeim meðan hópurinn flutti æstum fjöldanum fagnaðarerindið í formi ljóðlistar.

Pabbi kynntist fjöldanum öllum af listamönnum tengdum útgáfu sinni, á sviði prófarkalestrar, ritsmíða, myndlistar og fagurfræði. Það fólk studdi pabba við neðanjarðarútgáfuna með margvíslegum hætti, s.s. með leyfisgjöf fyrir notkun á mynd sinni til að skreyta bókakápur o.fl.



Vinátta mín og pabba varði í hartnær þrjá áratugi, en við mótun einstaklinga er hætt við að einstaklingar fjarlægist hvor annan, sérstaklega þegar annar á erfitt með að sleppa takinu af frumburðinum. Ég minnist hans þó sem góðs vinar, góðhjartaðs manns sem hafði óbilandi trú á góðmennsku náungans sem þó ekki alltaf kom honum að gagni. En trúin flytur vissulega fjöll og hvað er svo sem betra en að trúa á að hið góða sigri í það minnsta einn góðan veðurdag?



Eftir pabba liggja tugir ritverka, ljóðabóka, barnasögur, lög o.fl.

Nú lifir minnig hans föður míns, rödd, ásýnd, nærvera heyrir nú sögunni til og þó, vissulega fá framtíðarkynslóðir áfram að njóta ritverka, laga, lagatexta úr smiðju hans, hugnist þeim svo.





Steinar Svan Birgisson.