Heiðdís Norðfjörð fæddist á Akureyri 21. desember 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð 7. janúar 2021.

Foreldrar hennar voru Jón Aðalsteinn Norðfjörð, bæjargjaldkeri og leikari, f. 30.10. 1904, d. 22.3. 1957 og Anna Guðrún Helgadóttir, f. 24.7. 1920, d. 15.6. 2000. Heiðdís ólst upp fyrst hjá föður sínum og stjúpmóður, Jónu Jónsdóttur, sem lést ári eftir að Heiðdís kom til hennar. Þá fór hún í fóstur til Gróu Hertervig og Hjörleifs Árnasonar þar sem hún var til 4 ára aldurs. Þá giftist faðir hennar aftur, Jóhönnu Ingvarsdóttur kjólameistara, f. 10.6. 1911, d. 30.12. 2008, sem gekk Heiðdísi í móðurstað og ættleiddi hana síðar.
Heiðdís giftist 1.12. 1959 Gunnari Jóhannssyni bifvélavirkja, f. 20.4. 1935. Foreldrar Gunnars voru Jóhann Valdemarsson, bóndi á Möðruvöllum í Eyjafirði, f. 22.6. 1911, d. 3.9. 2004 og Helga Magnea Kristinsdóttur frá Samkomugerði í Eyjafirði, f. 13.2. 1911, d. 18.1. 1965.
Synir Heiðdísar og Gunnars eru: a) Gunnar Gunnarsson Norðfjörð, organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík, f. 26.7. 1961. Kona hans er Gréta Matthíasdóttir, forstöðumaður námsráðgjafar hjá HR, og eru börn þeirra Heiðdís Norðfjörð, f. 1983, Birta, f. 1987 og Katrín Sól, f. 2001. Þau eiga 3 barnabörn. b) Jón Norðfjörð rekstrarstjóri, f. 19.3. 1966. Kona hans er Ragnheiður Björg Svavarsdóttir og eru börn þeirra Jón Heiðar, f. 1991, Svavar Árni, f. 2005, Eva María, f. 2010 og Helga Lind, f. 2017. Þau eiga 1 barnabarn. c) Jóhann V. Norðfjörð framkvæmdastjóri, f. 18.8. 1971. Sambýliskona hans er Linda Björk Rögnvaldsdóttir viðskiptafræðingur, f. 1989 og eru börn þeirra Gunnar Ögri, f. 2000 og Nína Rut, f. 2018. Bræður Heiðdísar, synir Jóns og Jóhönnu, voru Jón H. Norðfjörð, f. 1947 og Ásgeir Heiðar Norðfjörð, f. 1951, d. 1951. Fóstursystkini Heiðdísar, börn Jóhönnu, eru Ingibjörg Skarphéðinsdóttir, f. 1931, og Sverrir Steinar Skarphéðinsson, f. 1935. Systkini Heiðdísar, börn Önnu, voru Sigurrós Svavarsdóttir, f. 1945, d. 1945, Svavar Svavarsson, f. 1952, Helga Kristín Jónsdóttir, f. 1955, d. 1996 og Hulda Jónsdóttir, f. 1963.
Heiðdís lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og stundaði síðan nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði 1975 og starfaði við Elliheimilið í Skjaldarvík sem hún veitti síðan forstöðu í allmörg ár. Hún starfaði síðan sem læknafulltrúi við embætti héraðslæknis Norðurlands eystra og var síðar læknaritari á heilsugæslustöðinni á Akureyri um langt árabil.
Meðfram störfum sínum skrifaði Heiðdís sögur fyrir börn og unglinga og út komu nokkrar barnabækur eftir hana. Hún var dagskrárgerðarmaður hjá RÚV og var þá m.a. með morgunstund barnanna. Til eru margar hljóðupptökur með upplestri hennar. Hún orti einnig ljóð og samdi tónlist enda liðtækur píanisti. Þekktust eru lög Heiðdísar við ævintýrið um Pílu pínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Þau komu út á hljómplötu árið 1980. Seinna skrifaði Heiðdís leikrit við söguna um Pílu pínu sem var sviðsett af Leikfélagi Akureyrar 2016 í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsið Hof. Heiðdís var um árabil meðhjálpari við Akureyrarkirkju og hún var lengi þátttakandi í kórstarfi. Árið 2007 fékk hún viðurkenningu frá Beta-deild Alfa Kappa Gamma á Akureyri fyrir framlag til menningar og menntunarmála barna. Einnig fékk hún viðurkenningu Menningarsjóðs Akureyrar 2010 fyrir mikilvægt framlag til menningarlífs á Akureyri.
Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju 21. janúar 2021 klukkan 13.30. Streymt verður frá athöfninni:
https://tinyurl.com/y37qr6ay/.
Virkan hlekk á streymið má finna á:
https://www.mbl.is/andlat/.

Það er mikil gæfa fyrir þá sem vakna heilbrigðir hvern morgun og geta haldið glaðir út í daginn. Elsku Heiðdís systir mín átti því miður ekki því láni að fagna hin síðari ár. Það var erfitt að sjá þessa góðu og fjölhæfu konu hverfa inn í tómleika hugar og athafna. Við áttum bernskuárin okkar saman með mömmu og pabba á Ægisgötunni á Akureyri og ég á góðar minningar frá þeim tíma og hún passaði mig þá eins og sjáaldur auga síns. Mamma kenndi okkur mikið af kvæðum og vísum sem við lásum og sungum saman. Mér eru ofarlega í minni Gutta- og Aravísur og kvæðið skemmtilega En hvað það var skrýtið. Heiðdís var líka dugleg að segja mér sögur um allt mögulegt sem hún bjó til, stundum jafnóðum og það var sagt. Skálda- og leikhæfileikar hennar komu fljótt fram og söngur átti hug hennar alla tíð. Pabbi okkar féll frá árið 1957 og í framhaldi fluttum við mamma til Reykjavíkur, en Heiðdís var þá heitbundin Gunnari sínum og varð eftir á Akureyri. Við hittumst þó oft og ýmist fórum við mamma norður eða að þau komu suður. Sumarið eftir að pabbi lést fór ég í sveit að Háagerði í Eyjafirði og þá kom Heiðdís reglulega til mín og við fórum í bíltúr og búðarráp á Akureyri. Þegar sveitardvöl minni lauk sótti hún mig og sagði: Nú skulum við kaupa eitthvað fallegt handa mömmu. Heiðdís vildi alltaf gleðja aðra. Við fórum í KEA-búð beint á móti Hótel KEA og fundum þar fallega Jesúmynd sem ég fór með suður og gaf mömmu.
Í gegnum tíðina hefur Heiðdísi verið margt til lista lagt. Hún samdi nokkrar vinsælar barnabækur og falleg ljóð og hún annaðist dagskrárgerð hjá ríkisútvarpinu um skeið. Í hvert sinn sem ég heyrði hana lesa upp, komu upp í huga minn upphafsorð ljóðsins um Sólskríkjuna, Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein, en rödd Heiðdísar var einmitt svo hugljúf og hrein. Hún las einnig sögur og ævintýri inn á fjölmargar snældur og samdi lög við eigin texta og annarra, sem flutt hafa verið á hljómplötum og snældum. Þekktust eru lög Heiðdísar við ævintýrið um Pílu pínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Þau komu út á hljómplötu árið 1980 og seinna skrifaði hún leikrit við sögu Kristjáns og það var mikið gleðiefni þegar leikritið um Pílu pínu var flutt hjá Leikfélagi Akureyrar árið 2016.
Heiðdís hefur hlotið viðurkenningar fyrir ritstörf sín og framlag til menningarmála, meðal annars frá Menningarsjóði Akureyrar árið 2010 fyrir mikilvægt framlag til menningarlífs á Akureyri. Hún var heiðruð af DKG, alþjóðlegum samtökum kvenna í fræðslustörfum, árið 2007 fyrir framlag sitt til menningar- og menntunarmála barna.
Heiðdís var alla tíð einlægt trúuð og var lengi meðhjálpari í Akureyrarkirkju. Hún spilaði marga fallega sálma á píanóið heima. Meðal þeirra var sálmurinn Amazing Grace sem hún hélt mikið upp á. Hún gerði eftirfarandi íslenskan texta við sálminn sem hún nefndi Vorkoma.

Nú birta fer í bæ og sveit
því bráðum kemur vor,
þá vermir okkur vorsól heit
og veitir kraft og þor.

Og vorið nýja vekur sýn
þá vaknar allt og grær,
og blærinn ilminn ber til þín
sem bjó hann til í gær.

Þá hjörtun ungu örar slá
því ástin tekur völd,
með blik í augum blíð er þrá
hin björtu fögru kvöld.

Margar góðar minningar rifjast upp og það voru alltaf gleðistundir þegar við fjölskyldurnar hittumst og ávallt hefur samband okkar einkennst af mikilli einlægni og væntumþykju.
Heiðdís varð áttræð á vetrarsólstöðudaginn 21. desember síðastliðinn. Við héldum upp á þennan dag sem markar bjartari tíma fram undan og vorkomu innan tíðar. Síðustu ár hefur hún notið góðrar umönnunar á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri þar sem eiginmaður hennar til rúmlega sextíu ára, Gunnar Jóhannsson, dvelur einnig. Sárt er að missa sína segir í saknaðarljóði Gínu mömmu í sögunni um Pílu pínu og í dag tökum við sannarlega undir þau orð. Við Lóa vottum elsku Gunnari og sonum þeirra og fjölskyldum innilega samúð og Guðsblessunar. Blessuð sé minning elsku Heiðdísar.

Jón Norðfjörð (Nonni litli bróðir)

Elsku amma mín!

Það bærist um í mér hrærigrautur af tilfinningum, hugsunum og minningum þegar ég sest niður og reyni að finna einhver orð til að kveðja þig. Það er langt síðan ég byrjaði að sakna þín, en núna er komið að kveðjustund.

Veikindin þín voru ósanngjörn og erfið. Þau rændu þig svo miklu. Sögunum og ljóðunum. Svo miklum og dýrmætum tíma. Þau rændu því að þú fengir að kynnast drengjunum mínum og ó, hvað þú hefðir haft gaman af þeim!

Það var svo óskaplega sárt að sjá þig lokast inni og verða loks bara að skugganum af því sem þú eitt sinn varst.

En núna ertu frjáls. Laus úr þessum fjötrum. Farin á betri stað. Og hjá mér, sem horfi á eftir þér, gerist eitthvað undravert, og óvænt. Það er eins og reiðin og gremjan yfir þessum ómaklegu örlögum dofni burtu líka. Sjúkdómurinn er ekki lengur í forgrunni og allt í einu skapast rúm fyrir allar þessar dásamlegu minningar sem ég á, til að stíga aftur fram og kveðja sér hljóðs. Minningar klæddar í sorg og söknuð, en ekki síst þakklæti.


Ég held að það hafi enginn átt betri ömmu en ég. Þegar ég sé þig fyrir mér þá man ég hvernig mér leið í hvert sinn sem ég kom til þín í Hraungerðið. Ég fann hvað ég var velkomin og elskuð. Þú mættir mér alltaf með stærsta brosinu sem þú áttir og opnum faðmi, eins og ég væri sólin sjálf sem hefði ákveðið að heiðra þig með nærveru minni. Sjáaldur augna þinna, til að nota þín eigin orð. Allar minningar um þig eru litaðar af þessari gleði og birtu, og ég er ekki í minnsta vafa um að þessi gleði hafði mótandi áhrif á litla skottu.


Já, það voru ófá skiptin sem ég rölti til þín í Hraungerðið. Ég kom stundum með heimalexíurnar mínar og vann þær við eldhúsborðið hjá þér. Ég á þér að þakka að margföldunartöflurnar sitja sem fastast í hausnum á mér. Mér gekk ekki alveg nógu vel að leggja þær á minnið fyrr en þú sagðir (og ég skal viðurkenna að mér fannst þetta frekar asnalegt á þessum tíma) að ég ætti bara að syngja þær! Þá myndi ég sko ekki gleyma þeim. Ég hélt nú ekki! Glætan!
Jú! sagðir þú. Þú getur meira að segja rappað þær! Svo gerðirðu þér lítið fyrir og rappaðir sex-sinnum-töfluna.
Auðvitað hafðirðu rétt fyrir þér. Ekki bara lögðust töflurnar á minnið, heldur sé ég líka ömmu gömlu fyrir mér að rappa í hvert sinn sem ég þarf að margfalda með sex.


Það var líka fátt betra en að fá að gista hjá þér um helgar. Þú varst alltaf vöknuð fyrir allar aldir. Og svo var heilög stund hjá okkur þegar þú vaktir mig til að horfa á barnatímann. Þú pakkaðir mér ofan í sjónvarpsstólinn þinn með teppi á fótunum og púða við bakið, og færðir mér svo eitthvað gotterí til að maula.

Eftir hádegið fékk ég svo að skottast með þér í öll erindi. Við fórum í kaffi til Kristjáns frá Djúpalæk og Unnar hans. Ég man þegar ég sat í fanginu á þér og bruddi kandís, og þú sagðir mér að Kristján hefði samið söguna um Pílu pínu. Hann hlaut að vera heimsfrægur fannst mér. En samt fannst mér þú eiga ansi mikið í sögunni líka, það varst jú þú sem gæddir hana lífi með lögunum þínum. Stundum fórstu með mig í leikhúsið. Þá klæddum við okkur í okkar fínasta púss. Í hléinu bentirðu mér á málverkið af langafa sem hékk þar á vegg. Hann var leikari, sagðirðu mér, og ég fann að hann hafði verið merkilegur karl.

Stundum fórum við bara í bíltúr og fengum okkur ís. Svo keyrðirðu með mig um Oddeyrina og sagðir mér sögur af þér þegar þú varst lítil stelpa. Það sem við hlógum í þessum bíltúrum, því þú varst víst algjör óþekktarormur og sögurnar þínar fyndnar eftir því. Stundum þurftum við að stoppa bílinn til að geta hlegið almennilega.


Það er náttúrulega engin leið að gera öllum okkar dásamlegu stundum skil í svona litlu bréfi. Eftir því sem ég set fleiri minningar á blað, þeim mun fleiri koma upp í hugann. Og þær hlýja mér allar.

Núna, þegar ég sem fullorðin kona hugsa um þig og þína litríku ævi, þá velti ég því stundum fyrir mér hvaða brautir þú hefðir valið ef þú hefðir fæðst kynslóð síðar. Ef þú hefðir ekki misst pabba þinn 15 ára gömul, eða verið ættleidd í tvígang. Ef þú hefðir ekki farið í húsmæðraskóla heldur listaháskóla. Þú varst svo mikill listamaður og þú hafðir svo stórkostlega sýn á lífið. Þú fannst náðargáfunni þinni farveg í sögunum þínum og söngvum sem munu lifa áfram.

Þú gafst mér svo mikið og þú gerðir það af öllu hjarta.

Elsku amma mín! Góða ferð inn í ljósið. Það mun skína bjartar vegna þín.

Þín sonardóttir,

Heiðdís Norðfjörð yngri.