Skýjahöllin valin á hátíðina í Berlín SKÝJAHÖLLIN, kvikmynd Þorsteins Jónssonar, hefur verið valin til sýninga á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín á sérstakri barnakvikmyndahátíð sem haldin er í tengslum við aðalhátíðina.

Skýjahöllin valin á hátíðina í Berlín

SKÝJAHÖLLIN, kvikmynd Þorsteins Jónssonar, hefur verið valin til sýninga á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín á sérstakri barnakvikmyndahátíð sem haldin er í tengslum við aðalhátíðina. Skýjahöllin er þar í hópi níu annarra kvikmynda sem valdar voru í keppnina. Þorsteinn Jónsson segir að það eitt að komast með kvikmyndina inn á þessa hátíð breyti miklu fyrir sig. Forsýning var á barnamyndunum fyrir blaðamenn í Berlín sl. miðvikudag og í umsögn þýska dagblaðsins Tage Spiegel segir að fallegasta myndin á hátíðinni komi frá Íslandi.

Þorsteinn segir að kvikmyndahátíðin í Berlín sé önnur af tveimur stærstu kvikmyndahátíðum heims. Hátíðin er með barna- og fjölskyldumyndahluta. Kvikmyndahátíðin hófst sl. miðvikudag og Þorsteinn hélt utan til Berlínar í fyrradag ásamt aðalleikara myndarinnar, Kára Gunnarssyni.

Innan hátíðarinnar verða fjórar sýningar á Skýjahöllinni og verður hún sýnd þar í þýskri útgáfu með þýsku tali. Einnig verður hún sýnd fjórum sinnum á svokölluðum markaði, þá með íslensku tali og enskum sýningartextum.

Gekk ekki vel í Reykjavík

"Þetta opnar hiklaust markaði fyrir myndina og er besti stökkpallur fyrir sölu á henni sem hægt er að hugsa sér. Myndin gekk ekki nógu vel hér heima. Það sáu hana um 10 þúsund manns í Reykjavík en það á eftir að sýna hana úti á landi," sagði Þorsteinn.

Þorsteinn sagði að til hefði staðið að fara með annan af aðalleikurunum, hundinn, til Berlínar en íslenskir hundar eru ekki bólusettir fyrir hundaæði svo ekki varð af því.

Verðlaunaafhending verður 21. febrúar næstkomandi.

ÞORSTEINN Jónsson.