Opið hús í Norræna húsinu Í "OPNU húsi" í Norræna húsinu fimmtudagskvöldið 4. ágúst kl. 20.30 talar sr. Heimir Steinsson þjóðgarðsvörður um Þingvelli, hvert hlutverk þeirra hafi verið í vitund þjóðarinnar og sögu.

Opið hús í Norræna húsinu

Í "OPNU húsi" í Norræna húsinu fimmtudagskvöldið 4. ágúst kl. 20.30 talar sr. Heimir Steinsson þjóðgarðsvörður um Þingvelli, hvert hlutverk þeirra hafi verið í vitund þjóðarinnar og sögu.

Spjall Heimis verður flutt á dönsku, enda er dagskráin í "Opnu húsi" einkum ætluð norrænum ferðamönnum, en Íslendingar eru engu að síður velkomnir.

Eftir kaffihlé verður sýnd kvikmyndin "Þrjár ásjónur Íslands" með norsku tali.

Í anddyri hússins stendur nú yfir sýning á íslenskum steinum og í sýningarsal er sýning á landslagsmálverkum eftir Jón Stefánsson.

Bókasafnið og kaffistofan verða opin til kl. 22.00 eins og venja er á fimmtudögum meðan "Opið hús" verður á dagskrá í sumar. Í bókasafni liggja frammi bækur um Ísland og íslenskar hljómplötur.

Aðgangur er ókeypis.