Vigdís Finnbogadóttir tekur við forsetaembætti í þriðja sinn FORSETI Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, hóf þriðja kjörtímabil sitt s.l. mánudag, 1. ágúst, þegar hún tók við kjörbréfi sínu frá Hæstarétti og sór embættiseið.

Vigdís Finnbogadóttir tekur við forsetaembætti í þriðja sinn

FORSETI Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, hóf þriðja kjörtímabil sitt s.l. mánudag, 1. ágúst, þegar hún tók við kjörbréfi sínu frá Hæstarétti og sór embættiseið. Margt fólk safnaðist saman á Austurvelli til að hylla forsetann við þetta tækifæri.

Embættistakan fór fram í Alþingishúsinu en áður var athöfn í Dómkirkjunni þar sem séra Ólafur Skúlason vígslubiskup flutti ávarp og blandaður kór söng. Lögregla stóð heiðursvörð frá kirkjudyrum að dyrum Alþingishússins og Lúðrasveit Reykjavíkur lék á Austurvelli.

Áður en athöfnin í dómkirkjunni hófst gengu frú Vigdís Finnbogadóttir, Magnús Thoroddsen forseti Hæstaréttar, Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra, Þorvaldur Garðar Kristjánsson forseti sameinaðs Alþingis, séra Ólafur Skúlason vígslubiskup, Guðmundur Benediktsson ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, Kornelíus Sigmundsson forsetaritari og Erla Jónsdóttur hæstaréttarritari úr Alþingishúsinu í kirkju um heiðursvörð lögregluþjóna.

Að kirkjuathöfninni lokinni gengu boðsgestir, um 350 talsins, í Alþingishúsið. Þegar allir höfðu komið sér fyrir söng Dómkórinn eitt lag, en að því loknu lýsti Magnús Thoroddsen forseti Hæstaréttar forsetakjöri og útgáfu kjörbréfs og mælti fram eiðstafinn sem forseti Íslands undirritaði síðan í tveimur eintökum. Forseti Hæstaréttar afhenti frú Vigdísi þá kjörbréf sitt.

Forsetinn gekk út á svalir Alþingishússins með kjörbréfið og minntist fósturjarðarinnar með ferföldu húrrahrópi. Þrátt fyrir verslunarmannahelgina hafði töluvert af fólki safnast saman á Austurvelli til að hylla forsetann við þetta tækifæri.

Frú Vigdís flutti loks ávarp í Alþingishúsinu og athöfninni lauk með því að allir viðstaddir risu úr sætum og sungu þjóðsögninn, Ó Guð vors lands.

Morgunblaðið/Einar Falur

Gengið úr kirkju í Alþingishús. Fremst ganga forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir og handhafar forsetavalds þeir Magnús Thoroddsen forseti Hæstaréttar, Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra og Þorvaldur Garðar Kristjánsson forseti sameinaðs Alþingis. Næstur þeim gengur séra Ólafur Skúlason vígslubiskup og síðan ráðherrar ríkisstjórnarinnar.

Frú Vigdís Finnbogadóttir flytur ávarp sitt í Alþingishúsinu. Handhafar forsetavalds, forsætisráðherra, forseti Hæstaréttar og forseti sameinaðs Alþingis, sitja við borð. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitja í fremstu stólaröðinni til vinstri á myndinni en dómendur Hæstaréttar og hæstaréttarritari hægra megin. Fyrir aftan hæstaréttardómara sitja forsetar Alþingis, fyrrum forsætisráðherrar og fyrrum forsetar sameinaðs þings og eiginkonur handhafa forsetavalds. Þar fyrir aftan sitja varaforsetar þingdeilda og formenn stjórnmálaflokka og þingflokka og loks embættismenn.