Áheitaganga Leifs Leópoldssonar: Gekk með ísaðri girðingu í blindaþoku LEIFUR Leópoldsson er nú kominn langleiðina yfir landið endilangt eftir að hafa gengið í 33 daga.

Áheitaganga Leifs Leópoldssonar: Gekk með ísaðri girðingu í blindaþoku

LEIFUR Leópoldsson er nú kominn langleiðina yfir landið endilangt eftir að hafa gengið í 33 daga. Þegar Morgunblaðið hafði samband við Leif hafði hann lagt að baki um 580 km en átti um 40 km eftir. Göngunni lýkur væntanlega við Arnarstapa á laugardag. Tilgangurinn meðgöngu Leifs er að safna áheitum til styrktar Krýsuvíkursamtökunum, en meginmarkmið þeirra er að koma á fót meðferðarstofnun fyrir unglinga í vímuefnavanda í Krísuvíkurskóla.

Leifur var staddur á Snæfellsnesi þegar Morgunblaðið náði tali af honum. Nánar tiltekið undir Elliða hamri, miðja vegu milli Kerlinga skarðs og Fróðárheiðar. Hann sagði veður hafa verið gott yfir helgina, en í síðustu viku lenti hann í nokkrum hrakningum. "Ég lenti í heilmiklu slarki á miðvikudeginum og á fimmtudaginn, þegar það skall á með slyddu og hagléli. Þetta var versta veður sem komið hefur á leiðinni. Hiti var við frostmark og ég gekk meðfram ísaðri girðingu í blindaþoku. Þetta var á leiðinni upp af Bröttubrekku, á mótum Borgarfjarðar- og Dalasýslu. Um nóttina svaf ég síðan undir berum himni í 2 stiga hita, en þá var ég kominn niður í Mjóadal, ekki langt frá Hítardal."

Leifur er nú einn á ferð, en hundurinn Vaskur sem lagði af stað með honum frá Reyðarfirði varð fljótt sárfættur og sá Hjálparsveit Skáta á Akureyri um að koma honum til síns heima úr Herðubreiðarlindum.

Leifur Leópoldsson skoðar bækling þann sem Krýsuvíkursamtökin hafa sent frá sér, þar sem markmið þeirra og málstaður eru kynnt.