Belgía: Lögregla skýtur á ungling á vélhjóli Brussel, frá Kristófer Má Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

Belgía: Lögregla skýtur á ungling á vélhjóli Brussel, frá Kristófer Má Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. Í síðustu viku særðist fjórtán ára unglingur alvarlega þegar lögreglumaður úr ríkislögreglunni hugðist stöðva hann með því að ógna honum með byssu.

Unglingarnir voru tveir saman á vélhjóli. Þeir voru stöðvaður af lögreglu vegna þess að annar þeirra var ekki með hjálm. Þegar þeim hafði verið gefið stöðvunarmerki án þess að þeir hægðu ferðina tók einn lögregluþjónanna upp byssu til þess að hræða þá eins og hann sagði sjálfur eftir á. Lögregluþjónninn sem var í bíl sem elti unglingana tvo á vélhjólinu sagði að skot hefði hlaupið úr byssunni þegar bíllinn fór yfir ójöfnu.

Ríkislögreglan sem er undir yfirstjórn hersins hefur á undanförnum árum sætt mikilli gagnrýni vegna óhappa af svipuðu tagi og að ofan greinir. Á það hefur verið bent að hún sé ekki undir lýðræðislegri yfirstjórn og beri þess vegna ekki eðlilega ábyrgð á gerðum sínum. Mikið skorti á innra aðhald og eftirlit. Rannsóknir á meintum afglöpum liðsmanna ríkislögreglunnar séu yfirleitt málamyndarannsóknir framkvæmdar af lítilli alvöru.