Fyrstu meðaldrægu kjarnaflaugunum eytt Sarjozek í Sovétríkjunum. Reuter. STEPPUR Kazakhstan skulfu á mánudag þegar Sovétmenn eyðilögðu fyrstu meðaldrægu kjarnaflaugarnar sem risaveldin hafa samið um að eyða á næstu þrem árum.

Fyrstu meðaldrægu kjarnaflaugunum eytt Sarjozek í Sovétríkjunum. Reuter.

STEPPUR Kazakhstan skulfu á mánudag þegar Sovétmenn eyðilögðu fyrstu meðaldrægu kjarnaflaugarnar sem risaveldin hafa samið um að eyða á næstu þrem árum. Fjórar SS-12 flaugar voru sprengdar í loft upp í Sarjozek í Kazakhstan þar sem Sovétmenn hafa komið upp sérstakri stöð til þess að eyðileggja sovésku eldflaugarnar.

Sarjozek er í um 200 kílómetra fjarlægð frá Alma-Ata, höfuðborg Kazakhstan, og er á lágsléttu sem umlukin er óbyggðu fjalllendi. Sovétmenn hyggjast sprengja töluverðan hluta þeirra 1.752 eldflauga, sem samningur risaveldanna kveður á um að skuli eytt, í Sarjozek. Einnig hefur verið sett upp bækistöð til að eyðileggja flaugar í Kap ústín Jar við ána Volgu.

Viðstaddir atburðinn á mánudag voru sovéskir og bandarískir embættismenn, fáeinir blaðamenn og meðlimir friðarhreyfinga sem sovésk yfirvöld höfðu boðið að vera viðstaddir þegar flaugarnar fjórar voru sprengdar í loft upp.

Kjarnaoddar höfðu verið fjarlægðir úr flaugunum sem var raðað upp hlið við hlið. Yfirmaður stöðvarinnar í Sarjozek, Alexander Borodín, sagði að kjarnaoddarnir yrðu notaðir í "friðsamlegum tilgangi eingöngu", en hann lét þess ekki getið í hvaða tilgangi Sovétmenn hyggðust nota þá. Í Sovétríkjunum er algengt að neðanjarðarkjarnorkusprengjur séu notaðar við námavinnslu og vegagerð.

Dýnamít-túpum var komið fyrir umhverfis flaugarnar. Sovéskur embættismaður sagði að um tvö tonn af dýnamíti yrðu notuð til að eyðileggja flaugar í Sarjozek. Sprengingin skyldi eftir gíg sem var um 20 metrar í þvermál. Tíu bandarískir embættismenn fylgdust með því sem fram fór af hæð einni í um þriggja kílómetra fjarlægð.

Samningurinn um eyðingu meðal- og skammdrægra kjarnorkueldflauga á landi, sem undirritaður var á fundi þeirra Ronalds Reagans, Bandaríkjaforseta, og Míkhaíls Gorbatsjovs, Sovétleiðtoga, í desember á síðasta ári kveður á um eyðingu 800 flauga Bandaríkjamanna og 1.752 sovéskra flauga á næstu þremur árum. Samningurinn tók gildi 1. júní síðastliðinn. Bandaríkjamenn hafa ekki látið uppi hvar eða hvenær þeir hefji eyðingu sinna flauga.

Reuter

Vígtólin voru til sýnis fyrir blaðamenn og friðarsinna sem boðið var að fylgjast með eyðingu fjögurra af 1.752 meðaldrægum flaugum sem Sovétmönnum ber að eyðileggja á næstu þremur árum. Á innfelldu myndinni sést skýið sem myndaðist yfir Sarjozek við sprenginguna.