Jórdanir þöglir um næsta skref varðandi framtíð Vesturbakkans Amman, Reuter.

Jórdanir þöglir um næsta skref varðandi framtíð Vesturbakkans Amman, Reuter.

JÓRDANIR frestuðu því í gær að skýra nánar frá því hvernig standa á að framkvæmd þeirrar ákvörðunar stjórnarinnar, að rjúfa allt samband við vesturbakka Jórdanár, en í henni felst að Jórdanir láta af tilkalli sínu til svæðisins og telja sig jafnframt ekki hafa frekari skyldum að gegna við íbúa svæðisins. Talsmaður Frelsissamtaka Palestínu (PLO) sagði í Bagdað, að boðað hefði verið til skyndifundar þjóðarráðs Palestínu um málið, en það er e.k. útlagaþing PLO. Gert er ráð fyrir að það komi saman innan mánaðar, að líkindum í Bagdað, höfuðborg Íraks.

Í ráði er að nefnd háttsettra PLO-manna haldi til Amman í næstu viku, til þess að ræða við Hussein Jórdaníukonung, en Yasser Arafat, leiðtogi samtakanna, verður þar þó ekki á meðal. Arafat var boðið til Amman í mars og var búsit við honum í upphafi þessa mánaðar. Nú er hins vegar óvíst hvort af því verður og vörðust talsmenn PLO og Jórdaníustjórnar allra frétta um það.

Jórdanir vildu reyndar sem allra minnst segja um málið og kváðust ekkert geta spáð fyrir um hverjar afleiðingar ákvörðun Husseins myndi hafa í för með sér.

Raja'i Dajani, innanríkisráðherra Jórdaníu, vildi hvorki neita né játa staðhæfingum þess efnis, að afturkalla ætti eða hætta útgáfu vegabréfa til þeirra íbúa Vesturbakkans, sem til þessa hafa talist jórdanskir ríkisborgarar. "Það er enn of snemmt að segja nokkuð um málið," sagði hann í viðtali við Reuters-fréttastofuna. "Það er ekki hægt að grípa til neinna aðgerða á einni nóttu. Við þurfum að meta alla þætti þeirrar ráðstöfunar að skera á tengslin við Vesturbakkann."

Í gær mótmæltu jórdanskir embættismenn fréttum ísraelska sjónvarpsins um að Jórdanir hyggðust láta íbúum Vesturbakkans í té sérstaka ferðapappíra í stað jórdanskra vegabréfa.

Að sögn stjórnarerindreka kunna þessi óljósu svör Jórdana að vera gefin af ásettu ráði til þess að villa um fyrir PLO, en Jórdaníustjórn segir það vera í verkahring PLO að taka við hlutverki sínu á Vesturbakkanum. Talið er að þar eigi Jórdanir bæði við fjárhagsskuldbindingar sínar, en jafnframt stjórnunar hlutverk sitt. Þrátt fyrir að Vesturbakkinn hafi verið hernuminn af Ísrael síðan 1967 er borgaraleg stjórn að mestu í höndum Jórdana og gilda jórdönsk lög t.a.m. aðmestu leyti á Vesturbakkanum.

Á Vesturbakkanum voru lítil viðbrögð sjáanleg við ákvörðun Husseins, en miklar óeirðir voru vegna útlegðardóma yfir átta Palestínu aröbum, sem sakaðir eru um að hafa hvatt til ofbeldisverka. Flogið var með þá til Líbanons á mánudag. Einn Palestínuarabi var skotinn til bana og fjórir særðir þegar hópur araba gerði aðsúg að langferðabíl, sem flutti araba á leið til vinnu í Ísrael, en í bílnum voru einnig ísraelskir hermenn, verkamönnunum til halds og trausts.