Toppfundur í Nagorno-Karabak: Deilurnar víki fyrir uppbyggingarstarfi Moskvu. Reuter.

Toppfundur í Nagorno-Karabak: Deilurnar víki fyrir uppbyggingarstarfi Moskvu. Reuter. Forystumenn flokksdeilda kommúnistaflokks Armeníu og Azerbajdzhan ákváðu í gær að vinna saman að uppbyggingu Nagorno-Karabak, héraðs sem deilt hefur verið um svo mánuðum skiptir. Fréttastofan Tass sagði frá samkomulaginu sem náðist á fundinum í Stepanakert, höfuðstað Nagorno-Karabak, en armenskir íbúar héraðsins hafa viljað komast undir stjórn Armeníu.

Auk Surens Arutunjans frá Armeníu og Abduls Vezirovs frá Azerbajdzhan var Arkadíj Volskíj, sérlegur sendimaður stjórnvalda í Kreml, á fundinum. Fundinn sat einnig Genrik Pogosjan, leiðtogi kommúnistaflokks Nagorno-Kara bak. Pogosjan gaf skýrslu um það hvernig gengi að koma á ró og spekt í héraðinu eftir margra mánaða verkföll og óeirðir. Verkföllunum lauk fyrir viku eftir að Forsætisnefnd Æðsta ráðs Sovétríkjanna samþykkti að fallast ekki á kröfur Armena um að Nagorno-Karabak sameinaðist Armeníu.

Sú staðreynd að fundurinn var haldinn í Stepanakert þykir benda til að yfirvöld í Azerbajdzhan viðurkenni að Armenar eigi sérstakra hagsmuna að gæta í NagornoKarabak.