Heilbrigðisráðherra vígir dvalarheimili aldraðra á Egilsstöðum Einnig læknaaðstöðu á Borgarfirði Egilsstöðum. NÝTT dvalar- og húkrunarheimili fyrir aldraða hefur verið tekið í notkun á Egilsstöðum.

Heilbrigðisráðherra vígir dvalarheimili aldraðra á Egilsstöðum Einnig læknaaðstöðu á Borgarfirði Egilsstöðum.

NÝTT dvalar- og húkrunarheimili fyrir aldraða hefur verið tekið í notkun á Egilsstöðum. Það er um 200 fm og eru í því 8 einstaklings- og hjónaíbúðir og 25 rúma sjúkradeild ásamt aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara, þvottahús og skrifstofur fyrir stofnunina og Heilsugæslustöðina og fleiru sem slíkri starfsemi tilheyrir. Það var Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra sem vígði húsið. Jafnframt vígði hann nýja aðstöðu fyrir lækna á Borgarfirði eystra en 10 sveitarfélög á Héraði og Borgarfjarðarhreppur standa saman að rekstri heilsugæslustöðvar ásamt dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra. Nýja húsnæðið á Borgarfirði er rúmir 100 fermetrar og bætir úr brýnni þörf því áður höfðu læknar aðstöðu í einu herbergi sem gegndi hlutverki skoðunarherbergis, lyfjageymslu og skrifstofu en biðstofan var í forstofunni. Það ríkti því fögnuður meðal Héraðsbúa og Borgfirðinga með þennan glæsilega og merka áfanga í heilbrigðismálum þeirra 2.900 íbúa sem saman mynda Læknishérað Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar.

Magnús Einarsson stjórnarformaður Heilsugæslustöðvarinnar og Dvalarheimilisins bauð í upphafi gesti velkomna og gerði grein fyrir því samstarfi sem ríkir meðal Héraðsbúa og Borgfirðinga í heilsugæslu- og öldrunarmálum. Taldi hann miður að fjórðungssjúkrahúsi fyrir Austurland skyldi ekki valinn staður á Egilsstöðum sem samgöngulega séð væri miðstöð Austurlands. Magnús benti á að miðað við þær fjárveitingar sem stofnunin fengi eftir að hún komst á föst fjárlög yrði ekki komist hjá að skera niður þá þjónustu sem þarna væri veitt nema breyting yrði á fjárveitingum. Nú er heimild fyrir þremur læknum við stofnunina en þeir þyrftu að vera 4 svo viðunandi geti talist. Magnús Einarsson taldi Heilsugæslustöðina á Egilsstöðum vel fallna til verklegrar kennslu í heimilislækningum þegar slík kennsla verður tekin upp við læknadeild Háskóla Íslands.

Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra kvað það stefnu stjórnvalda í öldrunarmálum aðleggja aukna áherslu á þjónustuog umönnunarþáttinn. Nauðsynlegt væri að aldraðir gætu sem lengst verið virkir þjóðfélagsþegnar og gæfist kostur á að búa sem lengst á heimaslóðum. Einnig ræddi Guðmundur verkaskiptingu ríkis og bæja í heilbrigðis- og tryggingamálum en í þessa málaflokka fara um 40% af þjóðartekjum. Sagði Guðmundur það skoðun sína að öll heilbrigðisþjónustan ætti að vera í höndum ríkisins. Nú er skiptingin þannig að sjúkrahús eru kostuð af ríkinu en heilsugæslustöðvar af sveitarfélögunum.

Við vígslu þessa nýja húss rakti Einar Rafn Haraldsson framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins hvernig staðið hefði verið að uppbyggingu þessarar stofnunar en Einar er jafnframt framkvæmdastjóri Sjúkrahússins og Heilsugæslustöðvarinnar en þessar stofnanir eru reknar undir sameiginlegri yfirstjórn.

Árið 1966 komu fram hugmyndir um að öll sveitarfélög í Múlasýslum báðum sameinuðust um byggingu og rekstur dvalar- og hjúkrunarheimilis aldraðra á Austurlandi og skyldi það reist á Egilsstöðum. Ekki náðist samstaða um þetta en öll 10 sveitarfélögin á Héraði ásamt Borgarfjarðarhreppi gerðu með sér samkomulag um byggingu 7 húsa raðhúss ásamt þjónustuhúsi sem byggð voru á árunum 1971 til 1980. Fyrir sex árum var svo undirritaður samningur milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og heimamanna um þessa byggingu sem nú var verið að vígja. Þar er kveðið á um hve stór hluti eignarinnar tilheyri hverri stofnun og hvað hvor skuli greiða, ríki og heimamenn. Einar gat þess að sumum þætti 6 ár langur framkvæmdatími á þessari byggingu en hér gilti að sníða sér stakk eftir vexti. "Ég held að framkvæmdahraðinn hafi varla mátt vera meiri svo að ekki ofbyði greiðslugetu sveitarfélaganna. Hvor aðili um sig, ríki og sveitarfélög, hafa staðið í skilum og hér á ekki við það sem gjarnan er tíðkað að skamma ríkið fyrir seinagang," sagði Einar Rafn.

Þetta nýja hús er teiknað af Manfreð Vilhjálmssyni arkitekt og er um 200 fm. Baldur og Óskar hf., byggingaverktakar í Fellabæ, sáu um uppsteypu á húsinu og að gera það fokhelt en Birkitré og Húsiðjan sáu um innréttingar. Sveinn Guðmundsson og Unnar Heimir Sigursteinsson voru rafverktakar en J.V. Jóhannsson sáum smíði loftræstikerfa. Eftirlits verkfræðingur af hálfu verkkaupa var Óli Metusalemsson frá Verkfræðistofu Austurlands. Matsverð hússins nú er um 93 milljónir króna eða um 31 þús. kr. á hvert mannsbarn í læknisumdæminu. Ólokið er málningu utanhúss og frágangi lóðar. Eftir er að setja upp lyftu í húsið og búa það húsgögnum og tækjum en talið er að það muni kosta um 18 milljónir á núgildandi verðlagi að ljúka þessu.

Læknar frá Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum fara til Borgarfjarðar vikulega og sagði Ólafur Stefánsson heilsugæslulæknir að hann áliti það hafa víðtæka þýðingu fyrir íbúana að læknir kæmi þangað reglulega. Hið nýja húsnæði bætir úr mjög brýnni þörf því gamla aðstaðan var mjög þröng og ófullnægjandi. Kostnaður við það er einungis um 3,5 milljónir króna en íbúar Borgarfjarðar eru ríflega 200.

­ Björn

Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra vígði dvalarheimili aldraðra á Egilsstöðum og nýja læknaaðstöðu á Borgarfirði.

Einar Rafn Haraldsson með samning um kostnaðarskiptinu viðbyggingu dvalarheimilisins.

Þráinn Jónsson oddviti Fellahrepps, Jón Kristjánsson alþingismaður, Magnús Einarsson stjórnarformaður Heilsugæslustöðvarinnar á Egilsstöðum, Magnús Þorsteinsson oddviti, Borgarfirði, og Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra.

Morgunblaðið/Björn Sveinsson

Hið nýja húsnæði heilsugæslustöðvarinnar á Borgarfirði.