Varmahlíð: Áætlað að tengja 32 bæi við hitaveitukerfi Varmahlíð. UNNIÐ er við að hreinsa upp og fóðra borholu hitaveitunnar í Varmahlíð þessa dagana. Það eru Jarðboranir hf. sem annast verkið.

Varmahlíð: Áætlað að tengja 32 bæi við hitaveitukerfi Varmahlíð.

UNNIÐ er við að hreinsa upp og fóðra borholu hitaveitunnar í Varmahlíð þessa dagana. Það eru Jarðboranir hf. sem annast verkið. Fyrir tveimur árum var boruð ný hola í Varmahlíð sem strax gaf mikið vatn, eða um eða yfir 20 ltr/sek. af 90 heitu vatni. En fljótlega eftir að boruninni lauk fór að bera á hruni í holunni og því óhjákvæmilegt að fóðra hana lengra niður eða yfir 200 m alls.

Ef allt gengur samkvæmt áætlun og nægilegt vatn fæst úr borholunni eftir þessar framkvæmdir, þá mun verða ráðist í lagningu hitaveitu frá Varmahlíð og út Langholt áleiðis til Sauðárkróks. Væri óskandi að unnt reyndist að samtengja hitaveitukerfi hér á milli þegar fram líða stundir. Nú er áætlað að tengja allt að 32 bæi við kerfið og hefjast framkvæmdir fljótlega, þ.e.a.s. ef nægilegt vatn verður fyrir hendi.

Mikill ferðamannastraumur hefur verið hér í Varmahlíð í júlí, en afturá móti var minna um ferðafólk í júní en oft á undanförnum árum. Heyskapur er víða vel á veg kominn hjá bændum og hafa sumir þegar lokið fyrri slætti. Heyfengur er frekar rýr þar sem spretta var lítil um langan tíma vegna þurrka.

- P.D

Morgunblaðið/Páll Dagbjartsson

Unnið við að hreinsa og fóðra borholu í Varmahlíð.