Þingflokkur Alþýðubandalags: Uppsagnir hjá Meitlinum eru hluti af hættuástandi ÁLYKTUN varðandi uppsagnir um 200 starfsmanna Meitilsins í Þorlákshöfn var samþykkt á þingflokksfundi Alþýðubandalagsins, sem haldinn var þann 28. júlí síðastliðinn.

Þingflokkur Alþýðubandalags: Uppsagnir hjá Meitlinum eru hluti af hættuástandi

ÁLYKTUN varðandi uppsagnir um 200 starfsmanna Meitilsins í Þorlákshöfn var samþykkt á þingflokksfundi Alþýðubandalagsins, sem haldinn var þann 28. júlí síðastliðinn. Í ályktuninni er sagt að uppsagnirnar og yfirvofandi lokun fjölda fyrirtækja megi rekja til stefnu og aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Í ályktuninni kemur einnig fram, að Alþýðubandalagið hafi á undanförnum árum varað eindregið við því, að stefna ríkisstjórnarinnar stefndi atvinnulífi í öllum landshlutum í hættu og hefði í för með sér byggðaröskun, kjaraskerðingu og hættu á atvinnuleysi. Sagt er að framganga ráðherra og ríkisstjórnar sýni réttmæti vantrauststillögunnar, semborin var fram á þingi í vor.

Þingflokkur Alþýðubandalagsins telur uppsagnirnar hjá Meitlinum á Þorlákshöfn hluta af hættuástandi, sem komi fram í öldu gjaldþrota í atvinnulífinu. Þingflokkurinn telur margt benda til þess, að fjöldi annarra fyrirtækja neyðist til að grípa til svipaðra aðgerða, jafnvel á næstu dögum, stöðvun sjávarútvegsfyrirtækja sé yfirvofandi og fjöldi iðnaðar- og þjónustufyrirtækja séu að loka, eða hafi þegar hætt starfsemi.

Í lok tilkynningarinnar segir að á meðan Rómaborg íslenskra atvinnuvega brenni og fjöldi landsmanna missi atvinnuna sé ríkisstjórnin innbyrðis sundurtætt. Síðan segir orðrétt: "Þingflokkur Alþýðubandalagsins ítrekar því fyrri kröfur um að ríkisstjórnin fari frá og þjóðinni verði veitt tækifæri til að velja nýja forystu áður en atvinnulíf landsins alls verður rjúkandi rúst."