Hægrikonur halda ráðstefnu um fjölskylduna HÆGRIKONUR á kvennaþingi héldu ráðstefnu í gær um efnið "Konur og fjölskyldan". Flutt voru fjögur inngangserindi, þá voru haldnir fyrirlestrar í smærri hópum.

Hægrikonur halda ráðstefnu um fjölskylduna

HÆGRIKONUR á kvennaþingi héldu ráðstefnu í gær um efnið "Konur og fjölskyldan". Flutt voru fjögur inngangserindi, þá voru haldnir fyrirlestrar í smærri hópum. Af íslenskum konum töluðu þær Inga Jóna Þórðardóttir og Sólveig Pétursdóttir. Í dag kynna sjálfstæðiskonur starf sitt innan flokksins.

Yfirskrift á kynningu sjálfstæðiskvenna í dag er "Konur, atvinnulífið og fjölskyldan". Þórunn Gestsdóttir setur kynningarfundinn en erindi flytja þær María E. Ingvadóttir, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Katrín Fjeldsted og Salóme Þorkelsdóttir. Að loknum fundinum kynna sjálfstæðiskonur myndaband um stjórnmál í daglegu lífi sem gert var í tilefni norræna kvennaþingsins.

Á ráðstefnu hægri kvenna í gær lagði ein frummælenda þingmaðurinn Anna Khaterine Haglund höfuðáherslu á möguleika foreldra til að velja á milli ólíkra kosta við uppeldi barna án þess að stjórnvöld hefðu kortlagt valið fyrirfram með því að veita miklu fé í einn þátt en hafa annan í fjársvelti. Sagði Haglund að aukinn skattafrádráttur vegna barna væri meðal grundvallaratriða í kosningabaráttu hægri flokksins í Svíþjóð.

Fyrir hönd íslenskra hægrikvenna talaði Ragnhildur Helgadóttir og greindi frá meginhugmyndum að baki fjölskyldustefnu Sjálfstæðisflokksins sem byggðist á jafnfrétti karla og kvenna innan og utan heimilis. Hún ræddi meðal annars um fjölskylduna sem grunneiningu þjóðfélagsins og skyldu ríkisins til að styðja hana, ábyrgðarhlutverk foreldra og nauðsyn þess að það sé virt.

Formaður sambands norskra hægrikvenna, Astrid Nöklebye Heiberg, er geðlæknir sem sérstaklega hefur rannsakað streitu kvenna. Í erindi sínu fjallaði hún um muninn á stöðu karla og kvenna í atvinnulífinu og talaði um að sífellt samviskubit margra kvenna vegna mikillar vinnu utan heimilis stafaði einfaldlega af því að þær bæru mesta ábyrgð. Þá talaði Heiberg um mikilvægi þess að minnka yfirvinnu foreldra smábarna.

Morgunblaðið/Ól. K. Magnússon

Norrænar hægrikonur héldu ráðstefnu á kvennaþinginu í gær. Í dag kynna sjálfstæðiskonur stefnu flokksins fjölskyldu og jafnréttismálum.