Norrænar konur hefja samstarf gegn sifjaspelli FULLTRÚI íslensks vinnuhóps um sifjaspell, Magdalena Kjartansdóttir, kynnti starfsemi hópsins á norræna kvennaþinginu í Osló á mánudag.

Norrænar konur hefja samstarf gegn sifjaspelli

FULLTRÚI íslensks vinnuhóps um sifjaspell, Magdalena Kjartansdóttir, kynnti starfsemi hópsins á norræna kvennaþinginu í Osló á mánudag. Mikið var spurt um vinnuhópinn að loknu erindi hennar og ákveðið að konur sem starfa að þessum málum í heimalöndum sínum hittist aftur daginn eftir til að leggja grunninn að frekara samstarfi.

Umræða um sifjaspell hófst ekki að ráði á Íslandi fyrr en haustið 1986 að sögn Magdalenu Kjartansdóttur. "Félagsráðgjafar og nemar í félagsfræði auk kvenna úr samtökunum um kvennaathvarf ákváðu að ná til kvenna sem orðið höfðu fyrir sifjaspelli og auglýstu í því skyni símanúmer til reynslu í vikutíma. Á tímabilinu hringdu 27 konur og báðu um aðstoð," segir Magdalena og bætir við að ákveðið hafi verið að halda svon starfi áfram.

Nú starfrækir vinnuhópurinn skrifstofu að Vesturgötu 3 þarsem svarað er í síma hálfan daginn. Að sögn Magdalenu hafa ellefu hópar kvenna sem orðið hafa fyrir sifjaspelli gengið í gegnum ákveðið ferli til að losna undan afleiðingum þess. Í hverjum hóp eru allt að átta konur sem hittast reglulega með félagsráðgjafa og tala saman. Jafnframt starfar unglingahópur og mæðrahópur gegn sifjaspelli.

Þær Ásta Henriksdóttir og Helena Jóhannsdóttir sýndu dans á kynningu vinnuhópsins sem fjallaði um áhrif sifjaspells á litla stúlku og hvernig hún lærir að sættast við sjálfa sig sem fullorðin kona. Lára Stefánsdóttir samdi dansinn og æfði stöllur sínar.