Íslenskar skapanornir við setningu kvennaþingsins ÞAÐ skiptust á skin og skúrir meðan norrænt kvennaþing var sett á mikilli útihátíð í miðborg Osló síðastliðinn laugardag.

Íslenskar skapanornir við setningu kvennaþingsins

ÞAÐ skiptust á skin og skúrir meðan norrænt kvennaþing var sett á mikilli útihátíð í miðborg Osló síðastliðinn laugardag. Á nærri þriggja tíma langri setningarathöfn voru atriði frá öllum Norðurlöndunum flutt á fjórum pöllum og giskaði kynnir á athöfninni, sjónvarpskonan Rita Westvik, á að milli 5.000 og 7.000 konur hefðu verið viðstaddar. Norska dagblaðið Aftenposten sagði hinsvegar að milli 2.000 og 3.000 konur hefðu verið við athöfnina.

Geysimikil stemning ríkti við opnunarathöfnina og höfðu margar íslensku kvennanna á orði að andrúmsloftið minnti á kvennafrídaginn árið 1975. Ein sagðist ósköp fegin að hafa komist á almennilega útihátíð með regni og öllu tilheyrandi um verslunarmannahelgina. Ófáir karlmenn höfðu hætt sér inn á svæðið og virtust ekki skemmta sér minna en konurnar.

Framlag íslenskra kvenna á setningarathöfninni var ballettinn "Skapanornirnar" eftir Auði Bjarnadóttur við tónverk Mistar Þorkelsdóttur "Þrenningu". Á hljóðfærin léku Lovísa Fjeldsted sellóleikari, Guðríður Sigurðardóttir píanóleikari og Jón A. Þorgeirsson klarinettuleikari. Þau fluttu verkið aftur á mánudagskvöld. Þær Asta Henriksdóttir, Helena Jóhannsdóttir og Lára Stefánsdóttir, allar úr Íslenska dansflokknum, túlkuðu skapanornirnar Urði, Verðandi og Skuld.

Á setningarathöfn kvennaþings ins las forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, ljóð eftir norska konu að nafni Else Michelet. Rokk söngkonur frá Svíþjóð og Noregi kyrjuðu svo að jafnvel elstu ömmum var dillað, eftir að austurlenskur magadans hafði verið stiginn á sviðinu. Færeyskur leikþáttur vakti mikla hrifningu, sömuleiðis finnska söngkonan Arja Sarjoninka sem flutti "Þökk sé þessu lífi" á fimm norðurlandamálum.

Morgunblaðið/Ól. K. Magnússon

Framlag íslenskra kvenna á setningarathöfninni var ballettinn "Skapanornirnar" eftir Auði Bjarnadóttur við tónverk Mistar Þorkelsdóttur "Þrenningu". Þær Asta Henriksdóttir, Helena Jóhannsdóttir og Lára Stefánsdóttir, allar úr Íslenska dansflokknum, túlkuðu skapanornirnar Urði, Verðandi og Skuld.

Morgunblaðið/Ól. K. Magnússon

Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra Noregs var að sjálfsögðu mætt við setningarathöfn kvennaþingsins í Osló. Hennar framlag var upplestur á ljóðum eftir Else Michelet.