Auknar líkur á samningi um skiptingu loðnustofnsins ÞORSTEINN Pálsson forsætisráðherra sat um síðustu helgi fund í Færeyjum með þeim Atla Dam lögmanni Færeyja og Jonathan Motzfeldt formanni landsstjórnar Grænlands.

Auknar líkur á samningi um skiptingu loðnustofnsins

ÞORSTEINN Pálsson forsætisráðherra sat um síðustu helgi fund í Færeyjum með þeim Atla Dam lögmanni Færeyja og Jonathan Motzfeldt formanni landsstjórnar Grænlands. Á fundinum var rætt um ýmis sameiginleg hagsmunamál þessara þjóða, og þá fyrst og fremst um nýtingu auðlinda sjávarins, umhverfisvernd í höfunum og samgönguog ferðamál, en einnig var fjallað um samninga um skiptingu loðnustofnsins á milli Íslands, Grænlands og Noregs.

"Þetta var fyrst og fremst samráðsfundur til að fara yfir helstu verkefni sem þessar þjóðir eiga sameiginleg, og koma skrið á framkvæmd ýmissa málaflokka, en þetta var ekki eiginlegur ákvarð anafundur," sagði Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Að sögn Þorsteins blönduðust inn í þessar umræður samningar, sem lengi hafa verið á döfinni um skiptingu loðnustofnsins á milli Íslands, Grænlands og Noregs. Færeyingar eiga þó aðeins óbeina aðild að þessu máli vegna samninga þeirra við Grænlendinga.

"Þetta var auðvitað ekki samningafundur um þessi efni, en fram kom að nú eru meiri líkur en áður á því að hægt verði að leiða þetta gamla deilumál til lykta. Ég hét því að beita mér fyrir því að sjávarútvegsráðherrar Íslands, Grænlands og Noregs myndu hittast í þessum mánuði til að freista þessað koma samningaumleitunum á skrið á nýjan leik, en mál þetta hefur verið í biðstöðu í allt of langan tíma. Það er því von mín að skriður komist á þetta mál í framhaldi af því að sjávarútvegsráðherra tekur það fyrir á þessumfundi, en hann mun ræða það áður bæði við Grænlendinga og Norðmenn."

Þetta er í annað sinn sem samráðsfundur sem þessi í Færeyjum er haldinn, en fyrst var hann haldinn fyrir tveimur árum á Þingvöllum. Á fundinum var ákveðið að framhald yrði á fundum af þessu tagi, og verður næsti fundur haldinn á Grænlandi á næsta ári í tengslum við 10 ára afmæli heimastjórnarinnar þar.