Sigrún Steingrímsdóttir fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1938. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hrafnistu við Sléttuveg 26. mars 2021.
Foreldrar hennar voru Ingunn María Friðriksdóttir, f. 13. janúar 1915, og Steingrímur Sigurðsson, f. 21. maí 1915. Þau skildu.
Systir Sigrúnar sammæðra er Erla Steingrímsdóttir, f. 29. nóvember 1936.
Systkini samfeðra eru: Magnea, Ingibjörn (látinn), Sveinn Vernharð, Mónika Björg, Magnús Hannes og Edvin.
Sigrún giftist Grétari Hannessyni 11. apríl 1958, f. 9. apríl 1937, d. 22. júlí 2012.
Börn þeirra:
1. Jónína Björg, f. 11.08. 1957, maki Þóroddur Sveinsson, f. 01.08. 1956, synir þeirra: a) Gunnar, maki María Sigríður Kjartansdóttir, börn þeirra Kjartan Breki, Alvar Brandur, Grétar Ingi og Kara Rún. b) Snorri Sveinn, maki Þórey Alda Pálsdóttir, synir þeirra, Þóroddur Páll og Víkingur Jens.
2. Hannes Svanur, f. 29.09. 1959, maki Helga Marta Helgadóttir, f. 7.12. 1961, synir þeirra: a) Grétar, maki Edda Ósk Ólafsdóttir. b) Hermann, sambýliskona Henný Lindquist, dóttir þeirra Freyja Nikki. c) Anton Helgi, sambýliskona Ingunn Lára.
3. Ingvar, f. 12.11. 1963, maki Vigdís Þórisdóttir, f. 28.10. 1963, sonur þeirra Þórir, maki Júlía Bjarney Björnsdóttir.
4. Margrét, f. 01.11. 1971, maki Guðjón Guðjónsson, f. 9.6. 1966.
Sigrún ólst upp hjá móður sinni, ömmu og Erlu systur sinni, á Ránargötunni og Grettisgötu 20C.
Skólagangan var stutt, hún lauk unglingaprófi og fór svo að vinna fyrir sér. Var í vist og fór svo að vinna á saumastofunni Föt hf., þar vann hún við karlmannsfatasaum og kom það sér vel seinna. 16 ára kynnist hún Grétari og byrja þau búskap á Grettisgötunni, en lengst af bjuggu þau í Skriðustekk 3 í Breiðholti. Móðir Sigrúnar bjó alla tíð hjá þeim. Sigrún saumaði alls konar flíkur fyrir frænkur o.fl. og drýgði þannig tekjurnar, einnig skúraði hún í versluninni Straumnesi, þar sem Grétar vann, fyrst á Nesveginum, en seinna í Efra-Breiðholti þegar verslunin flutti. En 1987 fer hún að vinna á leikskólanum Bakkaborg, þar til hún fór á eftirlaun 2005.
Hún var mikil hannyrðakona og einstaklega handlagin og fátt sem hún gat ekki gert, allt frá því að þræða nál og gera við bíla. Það var ætíð mikill gestagangur á heimilinu, sem stóð öllum opið.
Útförin fer fram frá Seljakirkju í dagklukkan 13. Í ljósi aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir en útförinni verður streymt:
https://www.streyma.is
Virkan hlekk á slóð má nálgast á:
https://www.mbl.is/andlat

Að kveðja mömmu er erfitt og tekur á nú þegar hún er farin yfir í Sumarlandið.
Ég veit að henni líður betur núna að vera komin til pabba og Ingu ömmu eftir að vera laus úr viðjum alzheimer-sjúkdómsins sem hún var búin að glíma við í nokkur ár. Börn og dýr hændust að henni. Það átti vel við hana að vinna á leikskólanum Bakkaborg í kringum öll börnin sem hún annaðist og kynntist þar.
Vandvirkni og natni fylgdi henni í öllu sem hún gerði. Hún var mikil handverkskona hvort sem það var að sauma, prjóna, veggfóðra, mála eða hvað annað sem þurfti að gera á heimilinu og með dyggri hjálp frá pabba að smíða skápa í þvottahúsið, dytta að bílum eða jafnvel sprauta bíl eins og hún gerði einu sinni, allt lék þetta í höndunum á henni.
Ekki leiddist henni í garðinum við að gróðursetja, snyrta og helluleggja.
Upp í hugann kemur þegar ég byrjaði að læra mína iðngrein, þá sagði hún: Það er ekkert lengur verið að gera hlutina vel en illa, þú skalt alltaf vanda þig hvort sem þú ert inni í stofu eða úti í fjósi. Þessu heilræði hef ég reynt að fylgja í gegnum tíðina. Þetta lýsir mömmu vel, hvernig hún var. Ofarlega í huga okkar Helgu er ferðin sem við fórum með mömmu og pabba til Svíþjóðar um Jónsmessuna fyrir 10 árum að heimsækja Hemma og hans fjölskyldu og tókum þátt í Jónsmessugleðinni að hætti Svía. Að sjá gleðina sem skein út úr andlitum þeirra beggja er okkur kært og gerði ferðina ógleymanlega.
Þar áttu þau Freyja, mamma og pabbi góðar stundir saman.
Kæra mamma, takk fyrir allt það góða sem þú innrættir okkur systkinunum og takk fyrir umhyggjuna í uppeldinu.
Þinn sonur

Svanur.