Reykjavík styrkir byggingu tónlistarhúss: Felld niður 40 milljóna gatnagerðargjöld Á BORGARRÁÐSFUNDI í gær var Samtökum um byggingu tónlistarhúss formlega úthlutað lóð fyrir húsið í norðausturhorni Laugardalsgarðs.

Reykjavík styrkir byggingu tónlistarhúss: Felld niður 40 milljóna gatnagerðargjöld

Á BORGARRÁÐSFUNDI í gær var Samtökum um byggingu tónlistarhúss formlega úthlutað lóð fyrir húsið í norðausturhorni Laugardalsgarðs. Jafnframt samþykkti borgarráð að fella niður gatnagerðargjöld af húsinu, en þau nema rúmum 40 milljónum króna.

Davíð Oddsson borgarstjóri sagði niðurfellingu gatnagerðargjaldanna vera styrk borgarinnar við byggingu hússins. Davíð sagðist ekki muna til þess að jafnstór styrkur hefði verið veittur áður á þennan hátt af hálfu Reykjavíkurborgar. Nærri mun láta að hann nemi 3-4% af áætluðum byggingarkostnaði hússins.

"Það munar mikið um þessa viðbót," sagði Gunnar S. Björnsson, formaður byggingarnefndar tónlistarhússins. Hann sagði að styrkurinn gerði kleift að hefja framkvæmdir fyrr en ella og nú væri hægt að setja vinnu við teikningar í fullan gang. Vonast væri til að henni lyki upp úr miðju næsta ári og þá væri hægt að hefja útboð á framkvæmdum.

"Við ætlum að ljúka allri hönnunarvinnu áður en framkvæmdir verða hafnar," sagði Gunnar. Hann sagði að fjársöfnun til húsbyggingarinnar gengi bærilega og menn væru alls ekki svartsýnir í þeim efnum. Meðalannars hefur fyrirtækjum verið boðið að "kaupa" stóla í tónleikasal hússins og hafa 50-60 fyrirtæki sýnt því áhuga. Áætlað er að ljúka byggingu tónlistarhússins árið 1997.