Shokoofeh Azar „Kjarni frásagnarinnar hverfist um ást á bókum og sögum, og um þá trú að sögur af lífi þurfi að skrá til að minningarnar lifi.“
Shokoofeh Azar „Kjarni frásagnarinnar hverfist um ást á bókum og sögum, og um þá trú að sögur af lífi þurfi að skrá til að minningarnar lifi.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Shokoofeh Azar. Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi. Maríanna Clara Lúthersdóttir ritaði eftirmála. Angústúra, 2020. Kilja, 332 bls.

Þessi athyglisverða skáldsaga íransk-ástralska rithöfundarins Shokoofeh Azar, Uppljómun í eðalplómutrénu , hefst á frásögn af því að á tilteknum tíma í ágústmánuði 1988 hafi móðir Bahar, unglingsstúlkunnar sem segir söguna, öðlast uppljómun þar sem hún sat uppi í hæsta eðalplómutrénu í lundinum fyrir ofan hús fjölskyldunnar. Á nákvæmlega sama andartaki var sonur hennar hengdur annarsstaðar í landinu, tekinn af lífi án dóms og laga og huslaður í fjöldagröf ásamt hundruðum annarra pólitískra fanga írönsku klerkastjórnarinnar. Móðirin kom síðan niður úr eðalplómutrénu og gekk eins og dáleidd inn í skóg, klifraði upp í eik og sat þar á efstu grein í þrjá daga og þrjár nætur og virti þaðan fyrir sér „líf sjálfrar sín, flókið líf fjölskyldumeðlima nær og fjær, atburðina í stóra fimm svefnherbergja húsinu í fimm hektara trjálundinum, í Razan, Teheran, Íran og svo skyndilega á hnettinum öllum og í alheiminum“. (14)

Höfundurinn, Shokoofeh Azar, er tæplega fimmtug. Hún fæddist í Íran og var sjö ára þegar íslamska byltingin var gerð. Þrátt fyrir að hafa síðan alist upp í umhverfi sem var fremur fjandsamlegt sjálfstæðum ritstörfum, eins og segir í kynningu á höfundinum, þá kveikti faðir hennar, sem var rithöfundur og skáld, hjá henni áhuga á skrifum og listum. Nam Azar bókmenntir í háskóla og starfaði í fjórtán ár sem blaðamaður. Í Íran sendi hún frá sér smásagnasöfn, barnabók og handbók um ritgerðaskrif og ritstjórn. Sjálfstæð fréttamennska hefur átt æ erfiðara uppdráttar í landinu og eftir að hafa í þrígang setið í fangelsi fyrir skrif sín ákvað Azar að flýja land. Hún fékk fyrir áratug dvalarleyfi sem pólitískur flóttamaður í Ástralíu, vinnur þar við skrif og myndlist, og vakti þessi fyrsta skáldsaga henna mikla athygli þegar hún kom út árið 2018 og var tilnefnd til alþjóðlegu Booker-verðlaunanna.

Í tileinkun við upphaf bókarinnar þakkar Azar fyrir að búa í hinu frjálsa landi Ástralíu þar sem hún sé laus við ritskoðun og hafi notið frelsis til að skrifa bókina, frjálsræðis sem henni hafi verið neitað um í Íran. Og sagan fjallar einmitt um hryllilegar afleiðingar íslömsku byltingarinnar – kúgunina, ofbeldið og valdníðsluna – fyrir íbúa landsins. Sjónum er einkum beint að einni fjölskyldu menntamanna og listunnenda og grimmilegum örlögum hennar. En í stað þess að segja raunsæislega frá því sem gerist eftir að heimur fjölskyldunnar hrynur við að ofstækismenn ná völdum í Íran, þá fer Azar þá leið að segja frá með tækjum þeirrar frásagnarhefðar sem iðulega er kennd við suðuramerískt töfraraunsæi – nema hér er í kynningu útgefanda talað um „persneskt töfraraunsæi“ – og hvað sem er virðist geta gerst, í sjálfsögðum fáránleika, og vera fullkomlega eðlilegt. Rétt eins og að móðir geti setið uppi í tré og virt jafnt fyrir sér líf fjölskyldumeðlima sem atburði alheimsins, þá leikur höfundurinn sér að því að toga tímann til eins og hentar, fólk birtist og hverfur, afturganga segir frá og systir breytist í hafmeyju. Allt getur gerst og það göldrótta „raunsæi“ virkar vissulega vel hér til að sýna fáránleikann í grimmdinni sem mótar alla tilveru fólksins og þar sem yfirvöld leitast við að útrýma lífsgleði og mennsku.

Auk frásagna af lífi og örlögum fjölskyldumeðlimanna gegnum árin eru sagðar mislangar örlagasögur nokkurra annarra persóna eða töfraanda. Einn er til að mynda flökkudraugur veiðimanns frá Síberíu, þá segir til að mynda af illa liðinni frænku sem hverfur dag einn ásamt sex börnum sínum þar sem þau synda í tjörn og eru þau eftir það í einhverskonar handanheimi, en áhrifamest er sagan af einræðisherranum Khomeni erkiklerki sem týnist í mikilli speglahöll sem hann lætur reisa og deyr þar einn og yfirgefinn. Það tekur þrjá mánuði að finna líkið og vísar ýldufnykur mönnum á það – „Sami fnykur og allir harðstjórar gefa frá sér á endanum.“ (112)

Kjarni frásagnarinnar hverfist um ást á bókum og sögum, og um þá trú að sögur af lífi þurfi að skrá til að minningarnar lifi. Slík sagnaritun kemur víða við sögu. Þekktasta skáldsaga Gabriels García Márques, Hundrað ára einsemd , er sínálæg í frásögninni, í aðferðinni sem beitt er og er líka vísað til hennar með ýmsum hætti. Til að mynda í átakanlegum kafla þar sem smámenni í þjónustu klerkanna ryðjast inn á heimilið og bera á bál allar heimsbókmenntirnar sem eru fjölskyldunni svo hjartfólgnar. Bækurnar eru taldar upp þar sem þær brenna, og persónur þeirra: „Ég heyrði grát hinnar einmana Rebekku og andmæli Aurelianos Buendía liðsforingja sem segir fullur andstyggðar við Úrsúlu: „Í allri minni harðstjóratíð gekk ég þó aldrei svona langt,““ (112) segir Bahar af þessari skelfilegu upplifun. En eftir vikulanga þögn að bókabrennunni yfirstaðinni ber faðirinn blöð og penna fyrir fjölskylduna og segir þeim að skrifa allt sem þau muni úr bókunum. Þau reyna þannig að halda í lífið, fegurðina og mennskuna, en það er ekki auðvelt í heimi harðstjóranna, eins og sagan sýnir.

Einar Falur Ingólfsson