Vextir af viðskiptavíxlum: Fyrirtækin eru að sligast undan þessu ­ segir Víglundur Þorsteinsson framkvæmdastjóri BM Vallá VÍGLUNDUR Þorsteinsson framkvæmdastjóri BM Vallá segir að hinir háu vextir sem nú eru á viðskiptavíxlum séu að sliga fyrirtækin í...

Vextir af viðskiptavíxlum: Fyrirtækin eru að sligast undan þessu ­ segir Víglundur Þorsteinsson framkvæmdastjóri BM Vallá

VÍGLUNDUR Þorsteinsson framkvæmdastjóri BM Vallá segir að hinir háu vextir sem nú eru á viðskiptavíxlum séu að sliga fyrirtækin í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Eina lausnin sé að þessi fyrirtæki fái að komast útúr hinu íslenska peningakerfi einsog Félag íslenskra iðnrekenda hafi lagt til fyrir nokkru.

"Hið dýra peningakerfi hér á landi er að ganga af þessum fyrirtækjum dauðum," segir Víglundur og bendir á að tekjur þessara fyrirtækja séu bundnar beint eða óbeint við gengisskráningu erlendra mynta. Því sé eðlilegt að þau fái að afla sér rekstrarfjár á erlendum fjármagnsmörkuðum. "Ef gengisskráning hér á að vera eðlileg verða fyrirtækin að geta leitað út úr hinu dýra íslenska peningakerfi. Slíkt myndi skapa þann stöðugleika sem rætt er um að þurfi í gengismálum hérlendis," segir Víglundur.

Eins og kunnugt er af fréttum Morgunblaðsins fyrir helgina eru vextir á viðskiptavíxlum hjá bönkum og sparisjóðum í sumum tilvikum hærri en vanskilavextir. Sem dæmi má nefna að í Landsbankanum er ársávöxtun á viðskiptavíxli sem velt er áfram með 30 daga millibili nú rúmlega 55%. Hinsvegar eru vanskilavextir nú 52,8% á ársgrundvelli.

Aðspurður um hvort hugmyndir Félags íslenskra iðnrekenda hafi fengið einhvern hljómgrunn segir Víglundur svo ekki vera. En vonandi vitkist menn er fram í sækir.