Vextir af viðskiptavíxlum: Þetta eru einkenni um peningakreppu - segir Páll Bragason varaformaður Félags íslenskra stórkaupmanna PÁLL Bragason varaformaður Félags íslenskra stórkaupmanna segir að það séu augljós merki um peningakreppu er ársvextir af 30...

Vextir af viðskiptavíxlum: Þetta eru einkenni um peningakreppu - segir Páll Bragason varaformaður Félags íslenskra stórkaupmanna

PÁLL Bragason varaformaður Félags íslenskra stórkaupmanna segir að það séu augljós merki um peningakreppu er ársvextir af 30 daga viðskiptavíxlum eru orðnir hærri en vanskilavextir. "Við aðstæður eins og þær eru nú í þjóðfélaginu er það tilhneiging stjórnvalda að halda þeim vöxtum niðri sem þau hafa stjórn á eins og vanskilavöxtum. Er bankarnir aftur á móti kaupa víxil af þér frá þriðja aðila en ekki beint er það svipað og um kaup á verðbréfi sé að ræða með afföllum og því taka bankarnir hærri vexti af slíkum pappírum en ef þeir væru að kaupa víxilinn beint af þér," segir Páll.

Páll segir að það sé hið versta mál þegar vanskilavextir verði lægri en vextir af almennum viðskiptavíxlum þótt þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist. "Það hafa áður komið upp aðstæður þarsem vanskilavextir voru með hagstæðustu kjörum á markaðinum. Munurinn á því sem er að gerast nú og þá er að sennilega eru vanskilavextir nú hinir sömu og raunvextir, það er peningar þeirra sem fá vanskilavexti brenna ekki upp," segir Páll.