Ólafur Jóhann Sigurðsson látinn Ólafur Jóhann Sigurðsson rithöfundur lést á Landakotsspítala sl. laugardag, 69 ára að aldri. Banamein hans var heilablóðfall.

Ólafur Jóhann Sigurðsson látinn Ólafur Jóhann Sigurðsson rithöfundur lést á Landakotsspítala sl. laugardag, 69 ára að aldri. Banamein hans var heilablóðfall. Ólafur Jóhann var einn helsti rithöfundur landsins og með annarri bók sinni, Við Álftavatn, 1934 vakti hann þjóðarathygli, aðeins 16 ára gamall. Höfuðverk hans er skáldsagan Fjallið og draumurinn, 1944. Ólafur Jóhann hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1976 fyrir ljóðabækurnar Að laufferjum og Að brunnum.

Ólafur Jóhann Sigurðsson fæddist 26. september 1918 að Hlíð í Garðahreppi. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson búfræðingur, kennari og hreppstjóri á Torfastöðum í Grafningi, og kona hans, Ingibjörg Þóra Jónsdóttir. Ólafur sótti fyrirlestra um nútímabókmenntir og skáldsagnaritun við Columbia University í New York veturinn 1943-44. Auk ritstarfa stundaði hann blaðamennsku um skeið, vann að bókaútgáfu, auk prófarka- og handritalesturs fyrir ýmis útgáfufyrirtæki allt til ársins 1975.

Meðal annarra verka Ólafs Jóhanns en þeirra sem nefnd hafa verið eru Skuggarnir af bænum, 1936, Liggur vegurinn þangað?, 1940, Litbrigði jarðarinnar, 1947, sem er ein þekktasta skáldsaga hans, Vorköld jörð, 1951, Nokkrar vísur um veðrið og fleira, 1952, Gangvirkið, 1955, Hreiðrið, 1972, Seiður og hélog, 1977, og Drekar og smáfuglar, 1983. Auk þess sem Ólafur Jóhann skrifaði skáldsögur og smásögur þýddi hann verk eftir Steinbeck, Mýs og menn, auk samnefnds leikrits.

Eftirlifandi kona Ólafs Jóhanns er Anna Jónsdóttir héraðslæknis á Kópaskeri Árnasonar og konu hans Valgerðar Sveinsdóttur. Eiga þau tvo syni.

Ólafur Jóhann Sigurðsson