Evrópubandalagið: Samræmdar reglur um barnaleikföng Brussel. Frá Kristófer Má Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. NÝLEGA var birt í Brussel reglugerð um barnaleikföng sem gilda á fyrir öll aðildarlönd bandalagsins. Reglugerðin kveður m.a. á um...

Evrópubandalagið: Samræmdar reglur um barnaleikföng Brussel. Frá Kristófer Má Kristinssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

NÝLEGA var birt í Brussel reglugerð um barnaleikföng sem gilda á fyrir öll aðildarlönd bandalagsins. Reglugerðin kveður m.a. á um hvaða og hvers konar efni megi nota í leikföng og sömuleiðis hvaða skilyrði leikföng verði að uppfylla til að teljast örugg. Reglugerðinni er ætlað að leysa af hólmi margar mismunandi reglugerðir sem í gildi hafa verið innan EB í ársbyrjun árið 1990.

Með reglugerðinni verða kröfur til framleiðenda leikfanga innan EB þær sömu, en það auðveldar markaðssetningu og sparar umtalsverðan framleiðslukostnað þó svo að það sé ekki megintilgangur reglugerðarinnar heldur öryggi neytenda og þá fyrst og fremst þeirra rúmlega 63 milljóna barna sem eru innan 14 ára aldurs í aðildarlöndum EB. Þessi reglugerð er liður í undirbúningi fyrir EBmarkaðinn 1992, en fyrir þann tíma á að vera lokið samræmingu allra reglugerða sem snerta vöru skilgreiningar og merkingar.

Rúmlega 94 þúsund manns starfa við leikfangaframleiðslu innan Evrópubandalagsins í 2.700 fyrirtækjum. Markaðshlutdeild þeirra á mörkuðum EB landanna er um þessar mundir um 70%. Útflutningur þessara fyrirtækja er helmingi minni en innflutningur til bandalagsins sem er helst frá Asíulöndum.