Innflytjendur í Svíþjóð: Miðflokkurinn í vanda staddur vegna viðhorfs til inflytjenda Eftir PÉTUR PÉTURSSON ÞING Miðflokksins sænska er nýafstaðið og þar voru mörg mikilvæg mál rædd svo sem umhverfisverndarmál, fjölskyldumál og öryggismál þjóðarinnar en...

Innflytjendur í Svíþjóð: Miðflokkurinn í vanda staddur vegna viðhorfs til inflytjenda Eftir PÉTUR PÉTURSSON

ÞING Miðflokksins sænska er nýafstaðið og þar voru mörg mikilvæg mál rædd svo sem umhverfisverndarmál, fjölskyldumál og öryggismál þjóðarinnar en línurnar voru lagðar fyrir lokasprett kosningabaráttunnar og kraftar flokksmanna sameinaðir til átaka. Það sem mest hrærði þó upp í þingfulltrúunum var frumvarp umað takmarka aðgang útlendinga að landinu. Þetta frumvarp var í óþökk alls þingheims og nánast litið á það sem helgispjöll, enda var það fellt samhljóða af öllum fulltrúunum, fjögur hundruð að tölu.

Kosið um búsetu flóttamanna í Sjöbo

ven Olle Olsson, sem bar tillöguna fram, er orðinn landsþekktur fyrir afstöðu sína til inn flytjendastefnu stjórnvalda. Hannog flokksbræður hans í Sjöbo, litlu bæjarfélagi á Skáni, komu því í gegn í bæjarstjórn að í næstu kosningum, í september nk., sem bæði eru þingkosningar og bæjar- og sveitarstjórnarkosningar, verður í leiðinni lagt undir dóm kjósenda, hvort taka eigi við fleiri flóttamönnum í bæjarfélagið. Þetta hefur vakið mikla athygli, en stjórn flokksins er alls ekki þakklát fyrir það.

Sven Olle var ekki einn af reglulegum fulltrúum á þingi Miðflokksins, en notaði rétt sinn sem flokksmaður til að leggja fram tillögu sína og skýra mál sitt fyrir þingheimi. Þar sagði hann, eins og oft áður, að ótækt væri að hleypa um 20 þúsund manns inn í landið ár hvert, bæði með tilliti til Svía sjálfra og einnig innflytjendanna, sem oft koma sem flóttamenn og þurfa að bíða í upp undir tvö ár eftir ákvörðun stjórnvalda um það hvort þeir fái heimild til að setjast að í landinu. En hann hefur þó mestar áhyggjur af sænskri menningu og samfélagsháttum. Hann telur að hin framandi menningaráhrif, sem þessir hópar komi með, hafi neikvæð áhrif og valdi félagslegum og menningarlegum vandamálum af ýmsu tagi. Samfélagið þurfi oftast að halda þessu fólki uppi og stór hluti þess hneigist til afbrota. "Þetta getur ekki gengið til langframa," segir Sven Olle, sem gerði sér grein fyrir að tillaga hans mundi ekki ná fram að ganga á þessu flokksþingi. Að enginn fulltrúanna fylgdi honum kom honum þó á óvart. "En það kemur að því," sagði hann, "að menn sjá að eitthvað verður að gera, ef ekki á illa að fara." Þingheimi var mjög létt þegar hinn lágvaxni og einþykki bóndi yfirgaf þingið degi fyrir lok þess og fátt var um kveðjur.

Ekki lengur ljós-

hærðir og bláeygðir

Afstaða hans og aðgerðir eru mikill þyrnir í augum leiðandi manna innan Miðflokksins, sem finnst hann hafi komið óorði á flokkinn og kunni að skaða hann í þeim kosningum sem nú eru á næsta leiti. Ummæli þessa "hróp anda í eyðimörkinni" fyrr í vetur ollu miklum úlfaþyt innan flokksins. Hann sagði þá að með núverandi stefnu væri hætta á að fáir í næstu kynslóð Svía yrðu ljós hærðir og bláeygðir. Hann líkir núverandi stefnu við það að verið sé að gefa landið. "Félagsleg aðstoð við þetta aðflutta fólk er ekkert annað en að við borgum því jafnvel fyrir að taka landið frá okkur," hefur hann sagt.

Formaðurinn reynir

að ryðja flokkinn

Formaður flokksins, Olof Johansson, hefur sagt að þessi og önnur ummæli flokksbróðurins frá Sjöbo séu í ætt við kynþáttafordóma og blási í glæður þess kynþáttahaturs sem þrífist undirniðri í skúmaskotum samfélagsins. Formaðurinn hefur gert allt sem í hans valdi stendur til að gera hann brottrækan en mistekist vegna þess að héraðsstjórninni á Skáni finnst það ekki forsvaranleg vinnubrögð að reka mann þótt hann hafi aðra stefnu en forysta flokksins í þessum málaflokki. Miðflokksmenn sem sæti eiga í sveitarstjórninni í Sjöbo styðja við bakið á Sven Olle sem hefur verið forseti bæjarstjórnar þar í 12 ár og segja að verði hann látinn fara væri eðlilegast að vísa þeim einnig úr flokknum. Svo virðist einnig sem hann njóti töluverðs stuðnings fólks sem annars lætur ekki mikið á sér bera í opinberri umræðu um stefnuna í innflytjendamálum og aðstoð við flóttamenn sem leita á náðir Svía. Flokksformaðurinn situr því uppi með Sven Olle og á greinilega erfitt með að kyngja því.

Sterk staða

í heimabyggð

Það má segja að mikið hafi mætt á bónda þessum sem alls ekki virðist þrífast í sviðsljósinu. En hann hikar hvergi og það er eins og að stökkva vatni á gæs að saka hann um kynþáttahatur. Hann telur það fjarri sanni og vill fá umræðu um málið. Hann segist ekki hafa hugsað sér að segja skilið við stjórnmálin í bráð og hefur sterka stöðu meðal miðflokksmanna í Sjöbo.

Heimsóknir háttsettra

Varaformaður flokksins, Karin Söder, hefur heimsótt Sjöbo og flutt boðskap sinn um einhuga stuðning við flóttamenn og fjölskyldur þeirra sem leita til Svíþjóðar um hæli. Þá hefur konungsfjölskyldan, sem annars heldur sér vandlega utan stjórnmála, lagt sitt af mörkum til að hafa áhrif á almenningsálitið í Sjöbo. Prinsessan, systir konungsins, var þar á ferð og hélt fyrirlestur. Ungir prestar hafa beitt sér fyrir samræðum og auknum samskiptum milli ólíkra kynþátta og tekið afstöðu með innflytjendum, en fengið andbyr og kaldar kveðjur frá safnaðarstjórn. Kirkjan sem slík hefur þó tekið afstöðu með ungum prestum í Sjöbo og biskupinn í Lundi er einn af þeim sem farið hafa þangað til að leggja orð í belg.

Lýðræði eða mannúð

Sven Olle segir að ekki sé að marka hvernig flokksbræðurnir bregðist við á flokksþinginu nú þegar fjölmiðlar vaki yfir hverri hreyfingu. Hann segist ekki taka það of nærri sér þótt allir fulltrúar hafi greitt atkvæði gegn tillögu hans því að hann viti að sumir þeirra hugsi svipað og hann. "Það kemur fram í kosningunum hver vilji fólks er," segir hann. Hann segir að ekkert sé að marka skoðanakannanir um þetta mál, því það sé aðeins í kjörklefanum, þarsem fólk greiðir atkvæði sitt leynilega, sem raunveruleg afstaða þess kemur fram. Þess vegna hefur hann lagt svo mikla áherslu á að íbúar Sjöbo fái sjálfir að ákveða hvort þeir eigi að fá útlendinga inn í samfélag sitt, en það sé ekki ákveðið af kerfi sem stjórnist af öðrum hugmyndum og hvötum sem eru venjulegu fólki framandi. Ekki eru þó allir stjórnmálamenn í Sjöbo á því að tillagan um sérstaka atkvæðagreiðslu íbúanna sé sigur fyrir lýðræðið. Raddir úr röðum annarra flokka, bæði Hægri flokksins og Jafnaðarmannaflokksins, hafa sagt tillöguna sjálfa skammarblett á bæjarfélaginu því það sé aldrei hægt að greiða atkvæði um það hvort hjálpa eigi bróður eða systur í neyð.

Pétur Pétursson er fréttaritari Morgunblaðsins.

Olof Johansson formaður sænska Miðflokksins.

Sven Olle Olsson.